Rýming stendur yfir þessa stundina í Grindavík, Orkuverinu í Svartsengi og Bláa Lóninu vegna yfirvofandi eldgoss. Þetta kemur fram hjá Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum.
Kvikuhlaup er hafið í jörðu niðri undir Sundhnúkagígaröðinni. Líklegt er að eldgos hefjist í kjölfarið.
Þá hefur ákafrar jarðskjálftavirkni orðið vart. Skjálftahrinan þykir kröftug en skjálftarnir eru í kringum 1 að stærð eða smærri og mælast á milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells.
Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði rétt í þessu í hádegisfréttum að rétt fyrir ellefu hafi hafist mjög áköf skjálftahrina austan við Sýlingarfell. Hún er enn á nokkru dýpi, þremur til fimm kílómetra dýpi. „Það er mjög skýrt að þarna var kvika að reyna að fara af stað.“
Þegar klukkan fór að nálgast tólf hafi breytingar orðið í borholuþrýstingi og aflögunarmerki orðið á ljósleiðurum, aðeins síðar hafi aflögunarmerki sést á GPS-mælum. „Þetta tekur lengri tíma en síðustu atburðir, það er erfiðara fyrir kvikuna að komast upp,“ segir Benedikt.
Svo virðist sem kvikan sé staðbundin austan við Sýlingarfell, eins og hún sé að fara til norðurs en of snemmt sé að segja til um hvert hún stefni.
Uppfært: Gosið er hafið og sprungan mælist 3,4 km. á lengd kl. 14:38