Atlaga RÚV að Jóni Gunnarssyni og Brynjari Níelssyni misheppnaðist

frettinPistlar

Páll Vilhjálmsson skrifar.

Í fyrradag reyndi RÚV að vekja reiðiöldu á samfélagsmiðlum gegn Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra og aðstoðarmanni hans, Brynjari Níelssyni. Markmiðið var tvíþætt. í fyrsta lagi að knýja fram afsögn annars eða beggja og í öðru lagi sýna mátt fréttastofu RÚV í þjóðfélagsumræðunni.

Atlagan byrjaði í hádegisfréttum þegar fréttamaður stillti Bjarna Benediktssyni upp við vegg í skringilegu viðtali. Yfir daginn var málinu haldið vakandi á netútgáfu RÚV. Um kvöldið var Jón kallaður til yfirheyrslu í Kastljósi. Helmingur yfirheyrslunnar gekk út á að útmála Brynjar óalandi og óferjandi.

Líkt og í öðrum sambærilegum tilvikum er RÚV í samstarfi við aðgerðasinna. Í þessu tilfelli öfgafemínista sem sjá svart þegar minnst er á miðaldra hvíta karla. Hugmynd RÚV var að aðrir fjölmiðlar stykkju á vagninn og birtu eltifréttir og tækju þannig óbeint undir kröfuna um afsögn. En fjölmiðlar voru önnum kafnir í KSÍ-málinu og bitu ekki á agn Efstaleitis að þessu sinni.

Eftirtekjan á samfélagsmiðlum varð rýr, engin reiðibylgja. Öfgafemínistar eru fámennur hópur. Þeir gátu ekki bætt upp með gargi almennt áhugaleysi á aðför að ráðherra dómsmála og aðstoðarmanni hans. Vinstrimenn á alþingi komu heldur ekki til hjálpar. Að jafnaði er þar þó á vísan að róa. Kannski að þingheim gruni maðk í mysunni á Glæpaleiti.

Atlaga RÚV sýnir víðáttuna á milli hlutverks ríkisfjölmiðilsins, að segja fréttir, og starfshátta fréttastofunnar þar sem skipulega er leitast við að kynda undir vantrausti og valda óróa i samfélaginu. Misheppnaða reiðibylgjan gefur til kynna þverrandi áhrifamátt RÚV á þjóðfélagsumræðuna. Ísland batnar fyrir vikið.