Nýr heilbrigðisráðherra vill ekki mismuna fólki eftir bólusetningastöðu – mikilvægt að allir geti lifað í frjálsu samfélagi

frettinInnlendar

Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra segir það ekki rétta nálgun að mismuna fólki eftir bólusetningastöðu og hann styðji slíkt ekki. Bólusetningar séu val hvers og eins og margar ástæður geti legið að baki því að fólk þiggur ekki bólusetningu og það er mín afstaða og skoðun að við eigum að virða þá ákvörðun og sjónarmið, segir ráðherrann.

Willum Þór var í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í vikunni hjá þeim Kristófer og Þórdísi, þar sem hann ræddi ýmis málefni sem komin eru á hans borð eftir að hann tók við embættinu, meðal annars um bólusetningar, frelsi, sóttvarnaraðgerðir og nýja afbrigði veirunnar Omicron.

Ráðherrann segir að við eigum að varast það að vera draga fólk í dilka og skipta fólki upp í hópa, það sé ekki góð þróun og geti frekar komið aftan að okkur. Willum segist vilja stíga hægt til jarðar og bíða um stund varðandi það að opna allt aftur því afbrigðið sé nýtt á nálinni og vilji þeir fylgjast með þróuninni.

Heilbrigðisráðherrann segir það mikilvægt að allir geti lifað í frjálsu samfélagi, með sem minnstar takmarkanir á líf fólks og ekki eigi að skipta máli hvort fólk sé bólusett eða ekki, en hins vegar þurfi þeir óbólusettu kannski frekar að taka hraðpróf fyrir viðburði á meðan þeir þríbólusettu þurfi þess ekki en þetta sé allt í skoðun, því það fyrirkomulag léttir á skimunum þar sem mikið álag er í dag.

Viðtalið við ráðherrann má hlusta í heild sinni hér að neðan og einnig bút úr viðtalinu þar sem framangreint kemur fram.