Skammur tími til að tryggja þjóðaröryggi

frettinInnlendar

Alþingi hefur aðeins örfáa daga til að samþykkja lagabreytingar sem eiga að tryggja þjóðaröryggi vegna sölunnar á Mílu til erlends fjárfestingafyrirtækis. Ráðherra fundaði með stjórnarandstöðunni til að tryggja framgang málsins.

Síminn  hefur náð samkomulagi við franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian um kaup á Mílu sem á og rekur stærsta fjarskiptanet landsins. Ýmsir hafa orðið til þess að lýsa yfir áhyggjum vegna viðskiptanna þar sem mikilvægir innviðir, sem fjarskiptin eru, færist þar með í erlendar hendur. Íslensk stjórnvöld hafa gert kröfu um ýmis skilyrði.

Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi samgönguráðherra átti fund með fulltrúum Ardian í sumar og óskaði eftir að salan yrði rædd í þjóðaröryggisráði. Hann sagðist í samtali við RÚV seint í október vera bjartsýnn á að samkomulag næðist um skilyrði sem tryggja ættu þjóðarhagsmuni, sem eru að tiltekinn búnaður sé hér á landi, að ákveðinn búnaður sé frá löndum sem Ísland er í varnar- og öryggissamstarfi við og að á hverjum tíma sé upplýst um raunverulega eigendur og fleira.

Stjórnvöld hafa frest til 15. desember, á miðvikudaginn, til að ná umræddu samkomulagi. Náist það ekki hefur Alþingi til 18. desember, eða laugardag, til að samþykkja frumvarp vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til laga um breytingar á lögum um fjarskipti, Fjarskiptastofu og fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Frumvarpinu er ætlað að stuðla að vernd almannahagsmuna og auknu þjóðaröryggi á sviði fjarskipta, en í greinargerð með því  segir að telja megi að erlent eignarhald fjarskiptainnviða og fjarskiptafyrirtækja auki líkur á útvistun afmarkaðra þátta í starfseminni svo sem í hagræðingarskyni eða samlegðaráhrifa. Útvistun út fyrir íslenska lögsögu torveldi eftirlit Fjarskiptastofu. Þetta er rauði þráðurinn í frumvarpinu sem og að ráðherra geti bundið erlenda fjárfestingu skilyrðum til að koma í veg fyrir að hún geti ógnað öryggi landsins, gengið gegn allsherjarreglu, almannaöryggi og svo framvegis. Loks er gert ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi.

Eins og fyrr segir er tímaramminn afar þröngur og málið kemur væntanlega til kasta Alþingis á morgun. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra óskaði því á fimmtudaginn eftir að eiga fund með formönnum og þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar um málið og fór fundurinn fram á föstudaginn, strax að loknum ríkisstjórnarfundi, þar sem málið var kynnt.

Rúv greindi frá.