Fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi er í dag og Macron hefur 11 keppinauta. Lokað var á kosningaspár á föstudagskvöldið til að þær hefðu ekki áhrif á kjósendur en þá leit út fyrir að Macron og Marine Le Pen myndu mætast í seinni umferðinni sem verður 24 apríl. Marine, sem hefur verið flokkuð sem hægri öfgamaður, hefur lagt mikla vinnu í framboð sitt þar sem efnahagsþrengingar almennings eru grunnstefið. Jean-Luc Mélenchon, sem er sagður lengst til vinstri, kynnir sig sem andstæðu Macrons og var með þriðja mesta fylgið fyrir lokun kosningaspánna. Eric Zemmour var í fjórða sæti. Hann vill fækka innflytjendum stórlega og setja frönsk gildi og franska menningu í fyrsta sætið. Valérie Pécresse sem býður sig fram fyrir íhaldsflokkinn, Les Républicains, fór vel af stað en missti svo flugið. Aðrir frambjóðendur eru ekki taldir líklegir til að ná 5% atkvæða. Klukkan 8 í kvöld að frönskum tíma verður kjörstöðum lokað og fljótlega má eiga von á fyrstu tölum og spám.
Margt getur haft áhrif á kosningaþátttökuna. Þessa helgi eru frí í skólum svo barnafólk gæti hafa brugðið sér af bæ, ungt fólk verður stöðugt áhugalausara um kosningar og gulvestungarnir, sem hata Macron munu ekki endilega kjósa. Stuðningsmenn Le Pen og Mélenchon sameinuðust í mótmælunum 2018 og stefnumál þeirra eru mjög áþekk. Bæði eru á móti Evrópusambandinu og telja það handbendi globalistanna, bæði vilja skattalækkanir fyrir heimilin. Hvorugt vill opin landamæri. Bæði eru svo á móti NATO en vilja fjölga ýmist hermönnum eða lögreglumönnum innanlands. Öfgahægri og öfgavinstri virðist orðið merkingarlaust í Frakklandi. Víglínan virðist liggja með eða móti glóbalismanum.