Erna Ýr Öldudóttir skrifar:
Erfðarannsóknir við gerð bóluefna við Covid19 hafa verið notaðar til að finna lækningu á skemmdum hjartavef eftir hjartaáfall. Frá þessu er greint í Daily Mail í dag.
Vísindamenn við King's College í London hafa rakið genamynstur sem kallast mRNA og framleiða prótín til að framleiða heilbrigðar frumur í stað skemmdra í hjartavef. Svipuð tækni var notuð til að framleiða Covid19 bóluefnin frá Pfizer og Moderna.
Uppgötvunin þykir merkileg, þar sem áður hefur ekki verið boðið upp á viðlíka lækningu við örum og skemmdum á hjarta. Í dag sitja hjartasjúklingar oft uppi með varanlegar skemmdir á hjartanu eftir hjartaáfall.
Hjartað getur ekki gert við skemmdir, við erum með sama fjölda fruma í hjartanu frá því þegar við fæðumst, en en nú getum við fengið heilbrigðar hjartafrumur til að fjölga sér, að sögn yfirmanns rannsóknarinnar, Prófessor Mauro Giacca. Tilraunir á svínshjörtum hafi gengið vonum framar, og mögulegt verði að reyna tæknina á mönnum á næstu tveimur árum.
Hann eygir einnig möguleika á að nota tæknina til að koma í veg fyrir skemmdir á hjarta við hjartaáfall.