Sannleiksógnin

frettinJón Magnússon, Pistlar1 Comment

Eftir Jón Magnússon hæstaréttarlögmann:

Macron Frakklandsforseti vill hitta Elon Musk eiganda Twitter. Macron líkar ekki að Musk, ætli að hætta ritskoðun á miðlinum. Hvað skyldi Macron óttast við frjálsa tjáningu?

Frægt er þegar Angela Merkel kvartaði við eiganda Fésbókar, að neikvæð umræða um innflytjendastefnu hennar væri leyfð á fésbók og krafðist þess að eitthvað yrði gert. „Við erum að vinna í því“, sagði eigandinn. Því miður gleymdist að slökkva á hátölurum þannig að aðrir heyrðu kröfu Merkel um ritskoðun.

Miðlarnir Twitter og Fésbók og aðrir meginstraumsmiðlar hafa verið notaðir til að koma í veg fyrir oft eðlilega tjáningu. Sú ritskoðun er réttlætt á þeim grundvelli að um hatursumræðu sé að ræða eða dreifingu falskra upplýsinga. 

Í Kóvíd faraldrinum voru skoðanir sem fóru í bág við stefnu stjórnvalda varðandi innilokanir, takmarkanir á frelsi fólks, sóttvarnarráðstafanir, bólusetningar, dæmdar falsfréttir eða þaðan af verra og voru ekki leyfðar af þessum miðlum. Í dag ættu allir að sjá hversu rangt það var og hve alvarlega það braut gegn tjáningarfrelsinu einmitt þegar sótt var að lýðfrelsi almennra borgara og t.d. ferðafrelsi afnumið ef fólk vildi ekki láta dæla í sig einhverju meðalaglundri sem á tilraunastigi. Þá var einmitt þörf fyrir óheft tjáningarfrelsi eins og alltaf.

Tjáningarfrelsið er mikilvægt á markaðstorgi stjórnmálanna og til að móta vitræna umræðu. Öll umræða stjórnmálamanna um falsfréttir og hatursorðræður er til þess fallin að takmarka þetta frelsi. Lýðræðið hefur getað lifað við  það hingað til að fólk fengi að tjá skoðanir sínar og bera um leið ábyrgð á þeim. Af hverju er sérstök þörf á því nú, að takmarka þetta tjáningarfrelsi nú og setja það í viðjar? 

Macron er ekki eini vestræni leiðtoginn sem stendur ógn af tjáningarfrelsinu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands boðar lagafrumvarp eftir áramót til að takmarka tjáningarfrelsið Á hennar máli heitir það að koma í veg fyrir hatursorðræðu.

Við eigum að leyfa alla umræðu. Það er alltaf heppilegra en ritskoðun. Franska grínblaðið Charlie Hebdoe birti teikningar sem mér fundust umfram allt velsæmi. En var það mitt að dæma? Að sjálfsögðu ekki. Ekki frekar en Macron varðandi Twitter

Eftir að Íslamskir öfgamenn myrtu ritstjórn Charlie Hebdo lýstu vestrænir leiðtogar því yfir að þeir stæðu vörð um tjáningarfrelsið. En það hafa þeir ekki gert. Íslamistarnir sigruðu. Nú er algjör þöggun í fjölmiðlaheiminum um ógnarverk þeirra. Bók Salman Rushdies, Sálmar Satans mundi ekki fást gefin út í dag. 

Katrín Jakobsdóttir vill m.a. takmarka umræðu um Íslam með því að setja lög um hatursorðræðu til að koma í veg fyrir að sannleikurinn sé sagður. Sbr. austurríska kennarann sem fékk dóm í Mannréttindadómi Evrópu fyrir að segja sannleikann um Múhameð á þeim forsendum að það gæti valdið ólgu í þjóðfélaginu. Svo hart er nú vegið að tjáningarfrelsinu, að jafnvel sá dómstóll, sem á að gæta þess að tjáningarfrelsið sé virt telur rétt að meta hvort tjáning sé heimili á þeim forsendum, að hún valdi ekki ólgu í þjóðfélaginu. 

Hefði skoðun Mannréttindadómstólsins, Macron og Katrínar Jakobsdóttur verið viðurkennd á öldum áður, hefði upplýsingastefnan sennilega aldrei náð fram að ganga, franska og bandaríska byltingin aldrei orðið og Mahatma Ghandi aldrei fengið að tjá skoðanir sínar um frelsi Indlands undan nýlendukúgun. Allar skoðanir þessu tengdar ollu nefnilega ólgu í þjóðfélaginu. Þannig á það líka að vera á markaðstorgi stjórnmálanna.

One Comment on “Sannleiksógnin”

  1. Lýðræði sem er aðeins þóknanlegt valdaelítunni er ekki raunverulegt lýðræði! Tjáningarfrelsi sem er eingöngu þóknanlegt valdaelítunni er ekki raunverulegt tjáningarfrelsi!

Skildu eftir skilaboð