Málarekstri vegna dauða Jamal Khashoggi er lokið – stefnu vísað frá í Bandaríkjunum

frettinDómsmál, Erlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Hinn 7 des. mátti lesa á Fox News að alríkisdómari í Bandaríkjunum hefði vísað stefnu á hendur embættismönnum Sáda, þar á meðal krónprinsinum, frá dómi á grundvelli alþjóðareglu um friðhelgi leiðtoga ríkja. Tyrkir voru líka með málatilbúnað gegn 26 Sádum grunuðum um aðild að drápinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi í sendiráði Sáda í Istanbul er hann sótti þangað skjöl til að kvænast tyrkneskri unnustu sinni, en ákváðu fyrr á árinu að láta Sáda um málið.

Mál þetta hefur verið undarlegt um margt. Frá 2. okt. 2018, er Khashoggi hvarf, flutti RÚV okkur daglegar fréttir af málinu í heila tvo mánuði. Já í tvo mánuði var eins og áróðursráðuneyti Tyrkja væri beintengt fréttastofu RÚV. Ekki er þó augljóst að Tyrkir sem eiga trúlega heimsmet í fangelsun blaðamanna hafi verðskuldað svo ótvíræðan stuðning í baráttunni um völd í heimi súnní múslima.

Khashoggi var ekki bandarískur ríkisborgari, aðeins handhafi græna kortsins. Samt töldu Bandaríkjamenn sig hafa umboð til að sækja þá sem báru ábyrgð á drápi hans til saka. Þeir stefndu Sádum fyrir að drepa Sáda og þar að auki í öðru landi. Það minnir á þegar Íslendingur stefndi Hannesi Hólmsteini fyrir dóm í Bretlandi fyrir ummæli sem voru látin falla á íslensku hér heima. Af hverju þykjast þessi stórveldi hafa umboð til að dæma borgara annarra þjóðlanda?

Á tíma Ottómanaveldisins réðu Tyrkir og elíta múslima af Balkanskaganum yfir Mið-Austurlöndum og öðrum stórum landsvæðum, s.s. Balkanskaga, Krímskaga og hluta þess landsvæðis sem nú kallast Sádi Arabía og hefur Erdogan dreymt um að endurvekja þann tíma, þó hann virðist nú hafa lagt þau áform á hilluna. Fyrir tæpum 100 árum var Bræðralag múslima stofnað í sama tilgangi í Egyptalandi og söfnuðust leiðtogar þess til Erdogans eftir að lýðræðisbyltingar Arabíska vorsins fóru út um þúfur.

Hver var Khashoggi?

Í grein Fox News má lesa að Khashoggi hafi verið víðþekktur og virtur blaðamaður og hafi verið drepinn fyrir að gagnrýna krónprinsinn en er það allur sannleikurinn? Khashoggi var vissulega blaðamaður. Hann hóf feril sinn á því að taka viðtal við Bin Laden í Afghanistan og er sagður hafa grátið úr sér augun er hann frétti af vígi hans. En Khashoggi var ekki hlutlaus sem blaðamaður. Hann skrifaði lofgreinar um Bræðralagið í Washington Post. Í grein er birtist 28 ágúst  2018, tveim mánuðum fyrir dauða hans, segir hann að útrýming Bræðralagsins (eftir Arabíska vorið) sé ekkert annað en afnám lýðræðis og trygging þess að arabar muni áfram lifa undir stjórn spilltra einræðisherra. Valdarán Abdel Fatah al-Sisi hafi leitt af sér að mikilvægt tækifæri fyrir Egyptaland og allan arabaheiminn hafi glatast. Hefði hið lýðræðislega ferli fengið að hafa sinn gang þar, þá hefðu pólitískar aðferðir Bræðralagsins getað þroskast og þeir hleypt fleirum að stjórn landsins. Hmm, Hamas er afsprengi Bræðralagsins og eftir að þeir komust til valda í lýðræðislegum kosningum þá hafa þeir ekki deilt með sér völdum á Gaza heldur kúgað og drepið Fatah-liða og fleiri kosningar hafa ekki verið haldnar.

Í grein er birtist í Washington Post 22. des. 2018 kemur fram að Khashoggi hafi tengst samtökum er stofnuð voru í Katar, sem á þeim tíma var erkióvinur Sáda. Textaskilaboð á milli hans og fulltrúa

Qatar Foundation International sýni að fulltrúinn, Maggie Mitchell Salem, hafi á stundum mótað pistlana sem hann sendi til Washington Post, stungið upp á efniviði, skrifað uppkast og hvatt hann til að taka harðari afstöðu gegn yfirvöldum í Sádi Arabíu. í greininni segir að það sé ekki ljóst hvort leiðtogar Sáda hafi vitað af tengslum Khashoggi við þessa stofnun í Katar, en að konungsríkið hafi gott eftirlit með andófsmönnum erlendis. Það er þó mjög líklegt, reyndar nær öruggt, að samskipti hans hafi verið hleruð.

Málatilbúnaði vegna Khashoggi mun því væntanlega lokið, Bandaríkn og Tyrkir hafa gefið málið frá sér, ættingjar hans hafa fengið bætur og átta Sádar voru dæmdir í þriggja til 20 ára fangelsi fyrir víg hans. Ekki er víst að nokkurn tímann verði upplýst um öll atriði málsins en trúlegt er að hann hafi verið drepinn sakir óbeitar Sáda á Bræðralagi múslima og stjórnvöldum í Katar auk tilhugsunarinnar um að lúta stjórn endurvakins kalífaveldis Tyrkja.

Skildu eftir skilaboð