Trúverðuga fréttaframtakið

frettinHildur Þórðardóttir, PistlarLeave a Comment

Eftir Hildi Þórðardóttur (Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. des. 2022):

Þegar skoðaðar eru fréttir frá hinum stærstu fjölmiðlum á Vesturlöndum má oft sjá nákvæmlega sama orðalagið í fyrirsögnunum. Þetta er sérlega áberandi í fréttum um loftlagsmál, leiðtogakosningar, appelsínugulu uppreisnirnar í múslimalöndum fyrir nokkrum árum, gulu vestin í Frakklandi, útlendingamál, Covid, bólusetningar og nú síðast stríðið í Úkraínu.

Samkvæmt rannsóknarstofnun í Sviss, Swiss Policy Research, sem rannsakar alþjóðamál og fjölmiðla, koma flest allar vestrænar fréttir frá aðeins þremur fréttaveitum: Reuters, Agence France-Presse (AFP) og Associated Press (AP). Að þetta sé ástæðan fyrir því að fréttir séu svo oft samhljóma sem raun ber vitni. Vandamálið er að þessar fréttaveitur eru ekki lengur hlutlausir aðilar eins og þegar þær voru stofnaðar, heldur allar komnar í eigu einkaaðila með ákveðin markmið í huga.

Peter Phillips fjölmiðla- og stjórnmálafræðiprófessor við Sonoma háskóla í Kaliforníu og teymi hans hafa rannsakað samsetningu frétta og niðurstaða þeirra er að 80 prósent af öllum fréttum koma frá almannatengslafyrirtækjum sem vinna fyrir stórfyrirtæki, ríkisstjórnir, hernaðar- og leyniþjónustur og hina ofurríku sem sitja árlega í Davos og ræða framtíð mannkynsins. Þetta kemur fram í grein hans: Að selja heimsvaldastefnu, stríð og kapítalisma: Almannatengsl og áróðursfyrirtæki þjóna auðvaldinu, þ.e.a.s. teknókratísku auðvaldsstjórninni (Selling Empire, War and Capitalism: Public Relations Propaganda Firms in Service to the Transnational Capitalist Class).    

Samkvæmt Peter Phillips „stendur heimurinn á okkar tímum frammi fyrir áróðurs-, hernaðar-, iðnaðar- og fjölmiðlaheimsveldi svo öflugu og flóknu, að sannleikurinn um alþjóðaviðburði er falinn hjá  meirihluta fréttaveitna, upplýsingum hagrætt eða sleppt með öllu.“ Þetta var árið 2017.

Stærstu fréttastöðvarnar flytja ekki lengur hlutlausar fréttir, heldur einhliða áróður með ákveðið markmið í huga. Sannleikanum er hagrætt til að leiða athygli almennings frá því sem raunverulega er að gerast, mótrök markvisst þögguð niður og lítið gert úr þeim sem tala gegn hinni einu viðurkenndu skoðun.

Til að kasta ryki í augu almennings er allt sem stangast á við hin samþykktu skilaboð kallað falsupplýsingar.

Þessar þrjár stærstu fréttaveitur AP, AFP og Reuters hafa í mörg ár verið sjálfskipaðir „hliðverðir sannleikans“, sía út óæskilegar fréttir og margfalda áróður þegar svo ber undir. 

Árið 2019 ákvað BBC að bæta um betur og stofna Trúverðuga fréttaframtakið eða Trusted News Initiative í félagi við aðrar stórar fréttaveitur og tæknirisa. Opinbera markmiðið var að „standa vörð um lýðræðislegar kosningar og spyrna gegn falsupplýsingum sem ógna lífi fólks.“

Ástæðan var of mikil skrif um ókosti bóluefna og nota bene þetta var áður en umræðan um Covid tröllreið öllu. Að þeirra sögn var magn „falsupplýsinga“ á netinu orðið óviðráðanlegt og nauðsynlegt að grípa inn í strax. 

Aðalfélagar í samtökunum eru auk BBC, AP, AFP, CBC/Radio-Canada, European Broadcasting Union (EBU), Facebook, Financial Times, First Draft, Google, The Hindu, The Nation Media Group, Meta Microsoft, Reuters, Reuters Institute for the Study of Journalism, Twitter, The Wall Street Journal og The Washington Post.

Félagar láta hvern annan vita af hættulegum upplýsingum til að minnka líkurnar á að þeir óafvitandi birti þær. Á lokuðum spjallvettvangi geta fréttamenn ráðfært sig við aðra innan samtakanna, auk árlegra ráðstefna til hnykkja enn frekar á stefnunni. Með öðrum orðum er þetta ritskoðun á heimsmælikvarða og þannig hefur þeim tekist að þagga niður vísindalega gagnrýni.

Alvöru vísindamenn vita að vísindi byggjast á því að spyrja nýrra spurninga og halda áfram að leita að nýjum niðurstöðum. Vísindi sem ekki eru í endurskoðun staðna og með þeim staðnar samfélagið og afleiðingin er fáfræði og hnignun. 

Eitt helsta markmið framtaksins var að yfirtaka umræðuna um bóluefni og mála í jákvæðara ljósi. Það tókst svo sannarlega nokkrum mánuðum síðar, þegar bóluefnin urðu „bjargvættur mannkynsins gagnvart kórónavírusnum“.  Þess ber geta að fyrirtækið Pfizer styrkir marga fréttatíma á stóru miðlunum og hefur því bein áhrif á hvað þar kemur fram.

Það er ekki lengur hægt að leita sannleikans með Google því þar birtist einungis það sem er samþykkt af Trúverðugu fréttaveitunni.

Íslenskir fjölmiðlar fá sem sagt allt erlent efni frá fréttaveitum þar sem 80% koma beint frá PR fyrirtækjum eða svokölluðum hugsanaveitum, Think tanks, í eigu auðjöfra. Það er því ekki skrítið að fréttatímarnir beri keim af því.

Blaðamenn fá ekki lengur að sinna hlutverki sínu, að veita yfirvöldum aðhald og vekja athygli almennings á því sem er raunverulega að gerast í heiminum, heldur birta í staðinn orðréttar fréttatilkynningar frá aðilum sem hafa ekki hagsmuni mannkynsins í huga.

Það sem áður var kallað samsæriskenning er nú orðinn veruleiki og það er kominn tími til að við förum að vakna.

 

Skildu eftir skilaboð