ÍL-sjóðurinn og lögfræðiálitin

frettinBjörn Bjarnason, PistlarLeave a Comment

Eftir Björn Bjarnason:

Fjármálaráðherra hefur jafnframt minnt þingmenn hvað eftir annað á að hann hafi ekkert þingmál lagt fram ÍL-sjóðinn enda sé það enn á athugunarstigi.

Nú þegar ljóst er að upphlaupið vegna sölu 22,5% hlutar ríkissjóðs í Íslandsbanka 22. mars 2022 er orðið að engu hjá stjórnarandstöðunni og hún græðir ekki neitt á að jagast í Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna þess eru upphlaup í þingsalnum vegna ÍL-sjóðsins svonefnda. Fjármálaráðherra kynnti hugmyndir um uppgjör hans í haust og lagði skýrslu um málið fyrir þingið sem var rædd þar 26. október 2022 án þess að umræðu um hana lyki.

Fjármálaráðherra hefur jafnframt minnt þingmenn hvað eftir annað á að hann hafi ekkert þingmál lagt fram um málið enda sé það enn á athugunarstigi. Þá áskilur ráðherrann sér eðlilega rétt til að hafa skoðun á lögfræðilegum álitum sem kynnt eru um málið. Lífeyrissjóðir hafa til dæmis fengið LOGOS og Róbert Spanó, sem starfar nú við lögfræðilega ráðgjöf erlendis, til að gefa álit. Þar er réttur lífeyrissjóðanna talinn stjórnarskrárvarinn við möguleg slit og gjaldþrotaskipti ÍL-sjóðsins með lögum.

Enginn veit hvort slíkt lagafrumvarp verði lagt fram þannig að þarna er um forvarnar- eða fælingaraðferð lögfræðinga lífeyrissjóðanna að ræða.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Viðreisn, hefur tekið málefni ÍL-sjóðsins hvað eftir annað upp á þingi. Ræddi hún það meðal annars fimmtudaginn 8. desember. Lagði hún þar að jöfnu blaðamannafund fjármálaráðherra um málið og að það hefði verið lagt fram á alþingi. Gerir hún þetta til að rökstyðja kröfu sína um sérstakt lögfræðiálit á kostnað alþingis. Kröfunni hefur verið hafnað þar sem ekkert þingmál sé til umræðu sem réttlæti gerð þess.

Hámarki náði hneykslun Þorbjargar Sigríðar í þessum orðum:

„Orð fyrrverandi forseta Mannréttindadómstólsins [Róberts Spanós] virðast ekki vega þungt. Þetta er bara eitthvert „potato/potato“ um hvað stendur í stjórnarskránni.“

Enska orðtakið „potato/potato“ má íslenska með oðinu aukaatriði en áherslan á hve lítils orð Róberts Spanós eru metin verður auðvitað þyngri í ræðustól alþingis með því að grípa til enskunnar.

Að lokinni ræðu Þorbjargar Sigríðar kom Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, í ræðustól og hóf mál sitt á þessum orðum:

„Herra forseti. Ég vil taka undir hvert einasta orð sem hraut af vörum háttvirts þingmanns Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur. Það er eiginlega með ólíkindum að koma hér sem hæstvirtur ráðherra og fussa yfir umræðu vegna þess að ekki sé komið fram þingmál þegar hæstvirtur ráðherra boðaði sjálfur til blaðamannafundar.“

Helga Vala er sem sagt einnig þeirrar skoðunar að blaðamannafundur fjármálaráðherra jafngildi því að frumvarp sé lagt fyrir þingið og þess vegna eigi skattgreiðendur að standa undir kostnaði við gerð lögfræðiálits að ósk stjórnarandstöðunnar.

Allt er þetta með miklum ólíkindum og víðs fjarri því sem varðar efni þessa alvörumáls og lyktir þess.

Skildu eftir skilaboð