Innflytjendamálin eru mikið rædd á Bretlandi þessa dagana. Nýtt manntal sýnir að hvítir Bretar séu í minnihluta á mörgum svæðum, þar með talið í London (37%) og í Birmingham (43%). Á sama tíma og bæði matur og upphitun verður dýrari, biðlistarnir lengjast í heilbrigðiskerfinu og eftir húsnæði á vegum hins opinbera og 275.000 voru skráðir heimilislausir á síðasta ári, þá bætist við metfjöldi fólks sem var boðið að koma frá Hong Kong og Úkraínu auk allra hælisleitendanna. Þeim sem eru ferjaðir á vegum glæpasamtaka yfir sundið frá Calais Frakklandi fjölgar ár frá ári.
Talið er að 44.000 hafi valið þá leiðina það sem af er ári. Margir þeirra er merktu já við Brexit vonuðust til að draga myndi úr ásókn glæpahópa frá Austur-Evrópu ef landið væri ekki lengur í ESB en það hefur ekki gengið eftir. Nigel Farage (Mr. Brexit) er farinn að hugsa sér til hreyfings með stjórnmálahreyfingu og telur sig hafa nægt fylgi til að koma í veg fyrir að Íhaldsflokkurinn haldi völdum í næstu kosningum og setur þannig pressu á fulltrúa flokksins að ná stjórn á innstreymi fólks til Bretlands, eins og þeir hafa ítrekað lofað. Í viðtali við Telegraph segist Farage efast um að margir þeirra er sæki um hæli séu í raun flóttamenn, þ.e. á flótta til að bjarga lífi sínu.
Í grein í Sun kemur fram að 35.000 hælisleitendur gisti nú á hótelum víðs vegar um landið og kostnaður ríkissjóðs af því sé rúmir tveir milljarðar punda á ári. Í grein þar sem fjallað er um ástandið í Skegness, litlum strandbæ á austurströndinni, segir útigangsmaðurinn Steve sem þarf að láta sér nægja svefnpoka gegn köldum Norðursjávarvindinum að „þetta sé allt ósanngjarnt" og á þá við að 6 hótel í bænum hýsi nú hælisleitendur. Talað er við hóteleigenda, konu sem segist hafa afþakkað tilboð frá ríkisstjórninni, sér hafi verið boðin 10.000 pund á viku fyrir að hýsa 52 hælisleitendur - en skilyrðin hafi verið að reka allt starfsfólkið og loka hótelinu fyrir almennum gestum. Hún segist ekki hafa neitt á móti alvöru hælisleitendum en margir Bretar séu mjög svo þurfandi og heimilislausir, og menn deyi á biðlistum heilbrigðiskerfisins. Svo hefur hún líka áhyggjur af því að ferðamenn hætti að koma ef bærinn sé fylltur af ungum karlmönnum sem enginn viti hvaðan komi.
Það sem hefur vakið mesta athygli er þó að af þessum 44.000 sem hafa komið með báti frá Frakklandi séu 12.000 Albanir. Af hverju ættu Albanir að geta sótt um hæli, spyrja menn og sendiherra Albaníu, Qirjako Qirko, var kallaður fyrir þingfund til að svara því. Í nýlegri grein í Daily Mail er haft eftir honum að samlandar hans þykist vera fórnarlömb mansals en hafi látið blekkjast af auglýsingum á Tik Tok um að auðvelt sé að stofna fyrirtæki í Bretlandi. Hann segist styðja það að þeir séu allir sendir til baka og segir einnig að neikvæð umræðan bitni á skólabörnum af albönskum uppruna.
Albanir í London móðguðust er innanríkisráðherrann, Suella Braverman, lýsti yfir innrás þeirra í landið og fjölmenntu í miðborg London veifandi fánum sínum og kröfðust afsökunarbeiðni. Sjá mátti umfjöllun um þá kröfu á GB News. Mahyar Tousi, sem er af írönskum ættum og albanski fréttaritarinn, Arben Manaj skiptust á skoðunum. Tousi vill meina að fólk sem kemur frá Frakklandi ætti ekki að vera vandamál Breta, það sé efnahagsflóttamenn og komi í veg fyrir að alvöru flóttamenn komist að. Manaj byrjar á að tala um rasisma og virðingarleysi gagnvart Albönum, þeir séu ekki allir glæpamenn. Hann mótmælir þeirri fullyrðingu Braverman að þeir séu 60% af bátafarþegunum en er bent á að margir hendi skilríkjum sínum, svo það geti vel verið rétt. Hann viðurkennir að flestir þessir sjófarendur séu efnahagsflóttamenn en að sumir séu fórnarlömb mansals. Líklegt er að allir þeir Albanir er koma sjóleiðina séu á vegum glæpasamtaka, hafi steypt sér í skuldir í Albaníu og eigi að vinna þær af sér í Bretlandi því flugfarið til Bretlands kostar ekki nema brotabrot af því sem smyglararnir setja upp.
Svo virðist sem það hjálpi Bretum ekki neitt að vera utan Schengen og ESB - gömlu reglurnar, svo sem lög um mansal, ætluð til að hjálpa fórnarlömbum þess, eru enn í gildi og þau er greinilega hægt að misnota. Bretar eru líka enn þátttakendur í Mannréttindadómstól Evrópu þar sem fólk sem aðhyllist stefnu Sorosar um opin landamæri hefur verið fjölmennt og Wikileaks upplýsti árið 2016 að Soros „ætti" 226 Evrópusambandsþingmenn. Efalítið hafa fylgjendur opinna landamæra komið sér fyrir víða í stjórnkerfi landa.