Fréttaritari Danska ríkisútvarpsins í Rússlandi og Úkraínu, Matilde Kimer, er sökuð af úkraínskum yfirvöldum um að stunda rússneskan áróður og var blaðamannaleyfið hennar í Úkraínu afturkallað. Frá því greindi Danska ríkisútvarpið.
Saga málsins er sú að í ágúst síðastliðnum var leyfið hennar afturkallað að beiðni úkraínsku öryggislögreglunnar SBU. Ástæðan á að vera gamlar facebook færslur af fagreikningi hennar með fréttaefni frá Donetsk og Krím.
Almenningur á rétt á upplýsingum um stöðu mála
Kimer vill ekki kannast við að það að greina frá atburðum líðandi stundar sé „áróður“, né að blaðamennska sem sýnir afleiðingar stríðsátaka á venjulegt fólk eigi ekki rétt á sér. Kimer er tilnefnd til æðstu blaðamannaverðlauna Danmerkur, Cavling prisen.
Fyrir milligöngu danska utanríkisráðuneytisins fékk hún loksins fund með úkraínskum stjórnvöldum þann 8. desember sl. Að sögn Kimer fékk hún tilboð um að fá leyfið endurnýjað ef hún skrifaði fréttir sem sýna Úkraínu í björtu ljósi með myndbandsefni frá úkraínskum yfirvöldum - tilboð sem hún hafnaði.
Bæði fréttastjóri Danska ríkisútvarpsins, Sandy French, og utanríkisráðherra Danmerkur, Lars Løkke, hafa komið henni til varnar og lýst áhyggjum af fjölmiðlafrelsi í Úkraínu.
Danskur almenningur eigi rétt á faglegum fréttaflutningi sem geri hlutlausa grein fyrir stöðu mála.