Staða loftslags-og sjálfbærnisérfræðings tímabundin og því ekki auglýst

frettinFjármál, Innlent, Loftslagsmál1 Comment

Tinna Hallgrímsdóttir var í síðustu viku ráðin fyrsti loftslags- og sjálfbærnifræðingur Seðlabanka Íslands. Um er að ræða nýja stöðu hjá bankanum, og greindi Viðskiptablaðið meðal annars frá frá ráðningunni.

Fréttin leitaði svara hjá bankanum við því hvort þessi nýja staða hafi verið auglýst og hversu margir hefðu sótt um stöðuna.

Svar bankans var að „verkefnum tengdum sjálfbærni á skrifstofu bankastjóra hafi verið sinnt af tilteknum starfsmanni sem sinnir tímabundið öðrum verkefnum og þess vegna hafi verið ákveðið að ráða í tímabundna stöðu sérfræðings í sjálfbærnimálum til að halda áfram að ná heildstætt utan um sjálfbærnivinnu bankans sem tengist öllum málefnasviðum hans.  Því hafi starfið ekki verið auglýst heldur var ráðningin gerð á grundvelli heimildar til ráðningar án auglýsingar í störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 1000/2019 um auglýsingu lausra starfa, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins“.

Reglur um auglýsingar lausra starfa

Á vef Seðlabankans segir að laus störf séu ávallt auglýst á Starfatorgi og á ráðningarvef Seðlabankans.

Á vef Stjórnarráðsins er einnig að finna reglur um auglýsingu lausra starfa hjá hinu opinbera og þar segir:

Ekki er skylt að auglýsa störf í eftirfarandi tilvikum:

  1. Störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur.
  2. Störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingar- og foreldraorlofs, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana o.þ.u.l., enda sé ráðningunni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
  3. Störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu.
  4. Störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
  5. Hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu sem teljast til vinnumarkaðsúrræða.

Ekki verður í fljótu bragði séð en að auglýsa hefði átt nýja stöðu sérfræðings í lofslags-og sjálfbærnimálum hjá Seðlabankanum, en ráðningin er til eins árs.

Skuldbindingar Seðlabankans í loftslagsmálum

Í svari bankans segir einnig að verkefni starfsmannsins séu fjölbreytt og fælust meðal annars í því að fylgja eftir skuldbindingum Seðlabankans í loftslagsmálum, sbr. yfirlýsingu bankans að samhæfa verkefni um loftslagsálagspróf, styðja við innleiðingu á reglum Evrópusambandsins um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja og skilgreiningar á loftslagsáhættu, eftirfylgni með sjálfbærniáherslum bankans, útgáfu sjálfbærniskýrslu, umsjón með fræðslufundum og alþjóðasamstarfi. Ráðningin er því í samræmi við hlutverk og ábyrgðarsvið Seðlabankans samkvæmt lögum 92/2019. 

Mánaðarlaun fyrir starfið eru kr. 950.000 samkvæmt upplýsingum frá bankanum.

One Comment on “Staða loftslags-og sjálfbærnisérfræðings tímabundin og því ekki auglýst”

Skildu eftir skilaboð