Eftir Þorstein Siglaugsson:
Svíar eiga svo sannarlega hrós skilið fyrir að standa gegn óttafaraldrinum sem tók völdin þegar kórónuveiran lét á sér kræla. Nú er komið á daginn að í Svíþjóð eru umframdauðsföll fæst í Evrópu frá því að veirunnar varð vart. En hvers vegna brugðust Svíar allt öðruvísi við en önnur lönd?
Sænski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Johan Anderberg leitar svara við þessari spurningu í bókinni The Herd – How Sweden Chose Its Own Path Through the Worst Pandemic in 100 Years, sem kom fyrst út á sænsku fyrir tveimur árum og á ensku ári síðar.
Tegnell, Giesecke og hugrakki lífeyrissjóðsforstjórinn Hessius
Anderberg einbeitir sér að fyrsta ári heimsfaraldursins. Greinilegt er að hann hefur kafað djúpt í viðfangsefnið og frásögnin er mjög ítarleg þegar þörf krefur. En um leið er bókin skrifuð í léttum frásagnarstíl og höfundur byggir upp spennu á réttum stöðum; þetta er bók sem ekki er auðvelt að leggja frá sér. Anderberg veitir lesandanum djúpa innsýn í atburðarásina og varpar ljósi á persónuleika og lífsreynslu lykilpersónanna, samskipti þeirra og átökin á bak við tjöldin.
Þó að margir lesendur hafi eflaust heyrt af sóttvarnalækninum, Anders Tegnell, sem er dáður af mörgum en hataður af öðrum, kannast eflaust færri við Johan Giesecke, forvera Tegnells og leiðbeinanda, sem fljótlega var fenginn að verkefninu sem ráðgjafi, og sem samkvæmt Anderberg mætti í raun líta á sem manninn bak við tjöldin sem tók mikilvægustu ákvarðanirnar.
Enn færri þekkja til Kerstinar Hessius, hins valdamikla forstjóra AP3 lífeyrissjóðsins, sem kom fram strax í upphafi, varaði við samfélagslegum lokunum og setti hlutina í samhengi: „Nei, þetta eru ekki efnahagsleg áhrif. Þetta snýst ekki um hagtölur, þetta snýst um fólk,“ svaraði Hessius þegar hún var spurð að því í sjónvarpsviðtali 20. mars 2020 hvort ekki væri hæpið að taka hagkerfið fram yfir líf fólks. Málflutningur Kerstinar Hessius vakti engin ofsafengin viðbrögð þótt hún hefði allt eins verið undir það búin og tilbúin að taka því sem að höndum bæri. Eins og Anderberg bendir á hafði hún einfaldlega minnt Svía á þann almenna stuðning sem ríkti í samfélaginu um skynsamlega ákvarðanatöku í lýðheilsumálum; að líf fólks er öll líf, núna og í framtíðinni, ekki aðeins þau sem eru í hættu á tilteknu augnabliki. Það var ekki síst vegna hinnar skýru afstöðu Kerstinar Hessius, að stefna Gieseckes og Tegnells varð einskonar millivegur.
Það er ekki úr vegi að geta þess að hérlendis hafði margt áhrifafólk sömu áhyggjur og Hessius. Hefði þetta fólk sýnt hugrekki og stigið strax fram samfélaginu til varnar, má vel vænta þess að betur hefði farið.
Sterk tölfræðihefð og sjálfstæðar stofnanir
Eins og Anderberg útskýrir er Svíþjóð frumkvöðull í lýðheilsu og faraldursfræði. Það var strax árið 1749 sem Svíar hófu reglulega söfnun og birtingu mannfjöldagagna, á sjöunda áratugnum tóku þeir að nota formlega kostnaðar- og ábatagreiningu fyrir innviðaframkvæmdir og skömmu síðar í lýðheilsumálum. Svíar eru vissulega áhættufælnir og varkárir, en þeir hafa langa hefð fyrir því að hafa staðreyndir og gögn að leiðarljósi.
Sjálfstæði sænskra ríkisstofnana átti einnig stóran þátt í vali á stefnu; Ráðherrum ríkisstjórnarinnar er einfaldlega óheimilt að blanda sér beint í ákvarðanatöku stofnananna. Því fór þannig, að sjálfstæð lýðheilsustofnun, undir forystu reyndra embættismanna sem hefði ekki getað verið meira sama um hvað öðrum fyndist um þá, vanir að fylgja fyrirfram samþykktum áætlunum og breyta þeim ekki nema af góðri ástæðu, markaði þá stefnu sem fylgt var.
Í Noregi og Danmörku var þetta með öðrum hætti segir Anderberg. Þar voru ráðleggingar vísindamanna svipaðar og í Svíþjóð, en stjórnmálamenn tóku yfir og fóru sínu fram. Hérlendis fylgdi svo sóttvarnalæknir stefnu norrænu stjórnmálamannanna, en ekki vísindamanna.
Lærdómurinn af Svínaflensunni
Anderberg veitir lesandanum innsýn í söguna. Hann útskýrir útreikninga Daniels Bernoulli á áhrifum bólusetninga gegn bólusótt á 18. öld, sem urðu grundvöllur nútíma faraldursfræði, fjallar um uppgötvun Johns Snow á upptökum kóleru í London á 19. öld, fer aftur til tíma spænsku veikinnar og rifjar upp misráðna bólusetningaherferð Bandaríkjamanna gegn svínaflensu árið 1976.
Anderberg bendir á að reynsla Tegnells í svínaflensufaraldrinum árið 2009 kunni að hafa haft talsverð áhrif á afstöðu hans gagnvart hraðsoðnum lausnum síðar. Flest lönd fóru ekki í fjöldabólusetningu þrátt fyrir mikinn þrýsting frá lyfjafyrirtækjum. En Tegnell fór bólusetningaleiðina, sem á endanum leiddi til þess að hundruð manna fengu alvarlegan taugasjúkdóm, en þar sem flensan var langtum skaðaminni en óttast var, björguðu bóluefnin aðeins örfáum mannslífum. Lærdómurinn af þessu setur enn mark sitt á stefnu Svíþjóðar gagnvart bóluefnum og skaða vegna þeirra.
Heimsendaspám hafnað
Víða höfðu spár Dr. Neil Ferguson hjá Imperial College í London afgerandi áhrif á stefnuna, en ekki í Svíþjóð. Sænska lýðheilsustofnunin fór vandlega yfir rannsóknir hans og niðurstaðan var sú að mikilvægustu forsendurnar sem reiknilíkanið byggðist á væru víðsfjarri lagi. Sérfræðingar embættisins voru líka vel meðvitaðir um fyrri spár Fergusons: Árið 2001 spáði hann 50.000 dauðsföllum af völdum kúariðu. En aðeins 177 manns létust. Árið 2005 varaði Ferguson við því að 150 milljónir myndu deyja á heimsvísu af völdum fuglaflensu, en 455 létust. Árið 2009 spáði hann 65.000 dauðsföllum af völdum svínaflensu á Bretlandi. 474dóu. Óraunhæfar forsendur og langur listi af kolröngum spám urðu til þess að sænska lýðheilsustofnunin setti líkön hans einfaldlega ofan í skúffu. Sú spurning stendur hins vegar eftir hvers vegna meingallað líkan þessa vægast sagt mistæka heimsendaspámanns varð hornsteinn aðgerða svo víða annars staðar.
Mistök og bakslag
Tegnell, Giesecke og samstarfsmenn þeirra gerðu vissulega mistök og þar dregur Anderberg ekkert undan. Sú vissa þeirra snemma árs 2020 að hjarðónæmi væri handan við hornið reyndist ekki á rökum reist, og fjöldi dauðsfalla var því vanáætlaður. Þeir voru líka of svartsýnir varðandi komu bóluefnis – þótt nú, að tveimur árum liðnum sé komið á daginn að eðlisávísun þeirra kunni eftir allt saman að hafa reynst rétt. Og það varð vissulega pólitískt bakslag. Í nóvember 2020, þegar smitum stórfjölgaði, notaði ríkisstjórnin glufu í lögunum til að loka börum og næturklúbbum, fleiri takmarkanir fylgdu svo í kjölfarið eftir lagabreytingar, þó aldrei neitt nálægt því sem varð í flestum öðrum löndum.
Embættismenn með augun á heildarmyndinni
Undir lok bókarinnar gerir Anderberg grein fyrir því hvernig Svíum gekk á fyrsta ári heimsfaraldursins. Dauðsföllum fjölgaði, á því leikur enginn vafi, en þó miklu minna en á síðasta slæma flensuárinu, 1993. Hvað þetta varðar gekk raunar Svíþjóð, sem New York Times stimplaði sem “útlagaríki” sem gerði allt rangt, miklu betur en flestum öðrum ríkjum í Evrópu. Og nú, að þremur árum liðnum er dómurinn fallinn. Fæst umframdauðsföll í Evrópu, minnsta tjónið vegna “sóttvarnaraðgerða”, minnstu áhrifin á andlega og líkamlega heilsu.
Líta má á velgengni Svíþjóðar sem sigur fyrir þá köldu nytjahyggju sem hefur átt sterk ítök í þessu litla norðlæga landi í árhundruð. Sigur fyrir djúpstæða virðingu gagnvart skynsömum og samviskusömum embættismönnum, sem ávallt hafa augun á heildarmyndinni og láta fátt koma sér úr jafnvægi. Í stuttu máli, sigur fyrir heilbrigða skynsemi. En síðast en ekki síst var þetta sigur fyrir unga fólkið, svo vitnað sé í frásögn Anderbergs af boðskap Johans Giesecke í viðtali seint á árinu 2020: „Þetta var í raun frekar einfalt: líf hans sjálfs, sagði hann, var minna virði en líf barnabarna hans. Og ekki bara líf barnabarna hans, heldur líf allra barna.”
Við eigum ávaltt val
Árangur Svíþjóðar er afar mikilvægur, því hann sýnir glöggt að hinar síendurteknu staðhæfingar um að við höfum ekki haft neitt val standast ekki. Við eigum ávallt val og við getum ekki skorast undan ábyrgð okkar á því vali. The Herd veitir frábæra innsýn í hvernig Svíar völdu sína leið og hvaða árangri hún skilaði. Það er skylda okkar að læra af því.
Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is 6. apríl 2023