Hin dularfullu umframdauðsföll

frettinCOVID-19, Svala Magnea Ásdísardóttir, UmframdauðsföllLeave a Comment

Eftir Svölu Magneu Ásdísardóttur:

Hvað olli því að umframdauðsföll stóðu í stað í Svíþjóð eftir fjöldabólusetningar? Í flestum öðrum löndum ruku dánartölur upp. Þar með talið á Íslandi.

Á Íslandi létust samkvæmt dánarmeinaskrá 30 Íslendingar með covid-greiningu árið 2020. Árið eftir, 2021, létust aðeins 6 manns med covid-greiningu yfir allt árið. Árið 2022 létust hins vegar yfir 200 manns með covid-greiningu á Íslandi, þrátt fyrir margfaldar bólusetningar þegar hér var komið við sögu.

Heimild: Hafstofa Íslands

Heimild: Hagstofa Íslands

Svíþjóð var með allra lægstu dánartíðnina í allri Evrópu í 1,5 ár samfleytt og næst lægst í samtals tvö ár, bæði 2021 og 2022, samkvæmt greiningu sem birtist í Læknatímaritinu Dagens Medicin í september 2022.

Mikið var rætt um dauðsföllin í Svíþjóð þegar faraldurstímabilið var að hefjast. En í kjölfarið á fjöldabólusetningum taldi fólk víðs vegar í heiminum að öruggt væri að taka þátt í samfélaginu aftur. Þá gerðist hið óvænta; dánartölur héldu áfram að rjúka upp allsstaðar í Evrópu, nema í Svíþjóð. Þrátt fyrir að nú hefðu flestir þegið sprautur sem áttu að vernda gegn covid-sjúkdómnum.

Karin Modig, faraldursfræðingur og rannsóknarkona við Karolinska Institutet í Svíþjóð, hefur rýnt í tölurnar og veltir niðurstöðunum fyrir sér. Í viðtali við dagblaðið Dagens Nyheter í september 2022 segir hún að sér þyki það undarlegt að fullbólusettar þjóðir hafi mælst með margfallt fleiri dauðsföll vegna covid en ekki Svíþjóð, þrátt fyrir bólusetningu.

„Hins vegar voru nágrannaþjóðir okkar með hámarks bólusetningarhlutfall hjá öldruðum og hrumum einstaklingum, þannig að þar hefðu ekki átt að sjást nein dánartilvik vegna covid fyrst að við höfum ekki verið að sjá það í neinum mæli,“ segir Karin Modig.

Myndin sýnir þrjú lönd efst með hæstu tíðnina á umframdauðsföllum, í samanburði við þau þrjú lönd sem voru með lægstu tíðnina á þriggja ára tímabili, 2020-2022.

Upphaflega voru Svíar gagnrýndir harðlega fyrir að „fórna gamla fólkinu sínu“ og menn héldu því fram að vegna sóttvarnarstefnu Svía myndu þeir vera með hæstu dánartíðnina í allri Evrópu í faraldrinum. En þegar tölurnar voru teknar saman yfir umframdauðsföll sl. þrjú ár kom annað í ljós.

Þýðir það að flestir hafi týnt lífi í upphafi faraldursins í Svíþjóð og þess vegna hafi fáir látist síðar? Það útskýrir reyndar ekki hvers vegna Svíar mælast með lægstu tíðnina á umframdauðsföllum í heildina. Það útskýrir ekki af hverju aldraðir og hrumir einstaklingar eru að látast úr covid erlendis þrátt fyrir ítrekaðar bólusetningar. En það gæti útskýrt að róttækar sóttvarnaraðgerðir komu hart niður á samfélagsþegnum sem getur hafa haft í för með sér heilsuleysi.

Ástæðan fyrir því að umframdauðsföll eru greind, en ekki eingöngu covid-dauðsföll, er vegna þess hversu illmælanlegt það er að styðja sig við fjölda greiningatilfella eingöngu þar sem þær upplýsingar liggja ekki fyrir hendi. Eins er ástæða dánartilvika stundum á gráu svæði þegar litið er til bæði undirliggjandi sjúkdóma og covid. Svíar voru ekki með skipulagða smitrakningu nema að mjög takmörkuðu leyti, sem tók eingöngu mið af einstaklingsframtaki íbúa en ekki kerfisbundnu átaki. Það gefur skakka mynd af greiningarhlutfallinu.

Það er staðfest að fólkið sem lést í upphafi voru aldraðir og hrumir einstaklingar sem voru illa haldnir af veikindum, jafnvel deyjandi, rétt áður en þeir fengu Covid-19. Flestir þeirra látnu höfðu dvalið á sjúkrastofnunum eða elliheimilum. Talið er að mörg þeirra hefðu andast á innan við ári síðar, ef covid hefði ekki gengið yfir, samkvæmt Fredrik Charpentier Ljungqvist, höfundar bókarinnar ”Corona – vår tids pandemi i ett historiskt perspektiv”.

Nágrannalöndin, Noregur og Svíþjóð, eru að koma mjög svipað út úr tölfræðinni sem sýnir umframdauðsföll en þjóðirnar tóku ekki eins á faraldrinum og beittu ekki sömu sóttvarnaraðgerðum. Svíþjóð var, eins og þekkt er orðið, harðlega gagnrýnt fyrir að hafa samfélagið opið og starfrækt án grímuskyldu, nema innan heilbrigðiskerfisins. Engin skipulögð mitrakning var að ráði eða sóttkví með eftirfylgni. Almenningi var alfarið treyst fyrir því að taka viðeigandi ákvarðanir.

Sænskur prófessor að nafni Martin Kulldorff, sem starfaði í 20 ár við Harvard í Bandaríkjunum, varpaði snemma fram sínu sérfræðilega áliti að veiran væri nánast hættulaus börnum og að náttúrulegt ónæmi gegn covid-19 væri öflugra heldur en sprautuónæmi. Hann fékk litla áheyrn fyrir þessar niðurstöður sínar og var auk þess þaggaður í kjölfarið á hinum ýmsu samskiptavefjum. Í dag er orðið ljóst að hann hafði á réttu að standa og að hægt hefði verið að koma í veg fyrir stórfelldan samfélagslegan skaða ef farið hefði verið eftir hans ráðum. Martin Kulldorff hefur í kjölfarið á þögguninni komið upp fræðslusetri í Hilldale Collage, ásamt Dr Scott Atlas og Dr Jay Bhattacharya, sem gengur gagngert út á að sporna við vísindalegu misferli. „We need to save science“ var sagt á stofnfundi fræðslusetursins.

En sá sem hefur sætt hvað mestri gagnrýni er sóttvarnarlæknir Svía, Anders Tegnell, en hann þótti afar staðfastur í sannfæringu sinni, og fyrri reynslu, á því hvernig ætti að takast á við faraldurinn. Segja má að hann hafi staðið af sér einhverja mestu pressu og fordæmingu á heimsvísu þegar hann tók sjálfstæðar ákvarðanir þvert gegn ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO.

Í viðtölum sagðist hann hafa markað sóttvarnarstefnu út frá aðgengilegum tölfræðilegum upplýsingum, þeim sömu og umheimurinn hafði við höndina. Í viðtali við BBC árið 2020 velti hann því fyrir sér á hvaða rökum sóttvarnaraðgerðaráætlanir umheimsins væru eiginlega byggðar.

Sóttvarnaraðgerðirnar í Svíþjóð voru einhverjar þær vægustu í öllum heiminum. Lægsta tíðni á umframdauðsföllum í Evrópu sl. þrjú ár sýnir það svart á hvítu að Svíar tóku réttar ákvarðanir í faraldrinum og tókst að komast hjá því að valda stórfelldu samfélagslegu tjóni, sem bitnar hvað mest á börnum, ungmennum og atvinnulífinu.

En hvers vegna umframdauðsföll jukust hjá fullbólusettum þjóðum mun vonandi heiðarleg og vísindaleg nálgun ná að útskýra með tímanum.


Heimildir:

Dagens Medicin september 2022:

https://www.dagensmedicin.se/specialistomraden/infektion/sveriges-overdodlighet-lagst-i-europa/

Anders Tegnell, sóttvarnarlæknir Svía, viðtal við BBC

Prófessor Kuldorff segir náttúrulegt ónæmi sterkara en sprautuónæmi, í myndbandinu (censorship of science)

Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is 8. apríl 2023

Skildu eftir skilaboð