Eftir Helgu Döggu Sverrisdóttur kennara:
Foreldrar þurfa að vera vakandi gagnvart fræðslu Samtakanna '78 í skólakerfinu. Fer eitthvað fram sem þarf að fela? Vangaveltur sem vert er að skoða.
Hef velt þessu fyrir mér í tengslum við fræðslu samtakanna í skólakerfinu. Inntak námsefnis er ekki opinbert og sveitarstjórnarmenn vita ekki hvers konar eða hvaða fræðslu þeir borga fyrir.
Vissulega má líka spyrja hvort hluti kennarastéttarinnar heyri undir sömu vangaveltur. Breiðletrun er mín.
Í frétt um óviðeigandi kennslu tómstundaleiðbeinenda í skólabúðunum á Reykjum segir m.a. í frétt á Vísi.is: „Rannsókn málsins er á frumstigi en til skoðunar er meðal annars hvort starfsmaðurinn hafi brotið gegn 99. grein barnaverndarlaga þar sem segir:
„Hver sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
Hver sá sem hvetur barn til lögbrota, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða annarrar hegðunar sem stefnir heilsu barnsins og þroska eða lífi og heilsu annarra í alvarlega hættu skal sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.
Hver sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.“
Mínar vangaveltur
Ég tel það særandi og móðgandi að segja barni að það sé kannski í öðrum líkama. Sé ekki það kyn sem það fæddist. Að barnið sé strákur, án lims, en ekki stelpa sem er þvert á líffræðilega staðreynd. Barn hefur ekki þroska, getu eða þor til að mótmæla slíku. Sennilega á það við í gegnum leik- og grunnskólann.
Það er vanvirðandi háttsemi við barn og foreldra þess að halda því fram að heilbrigðisstarfsfólk geti sér til um kyn barnsins við fæðingu. Samkvæmt Mannréttindadómstólnum er það ekki dregið í efa, líffræðilegt kyn er það kyn sem barn fæddist og verður. Veggspjöld hanga uppi í leikskólum sem draga líffræðina í efa, særandi og vanvirðandi háttsemi.
Hef lesið að Samtökin '78 bendi á að hormónablokkandi lyf séu nánast skaðlaus, þvert á vitneskju sérfræðinga sem hafa hver á fætur öðrum stigið fram. Framkvæmdastjóri Samtakanna '78 skrifaði það í grein sem Vísir.is birti. Hormónablokkandi lyf hafa verulegar afleiðingar fyrir börn, skemma þau til lífstíðar. Með málflutningi sínum finnst mér allt benda til að Samtökin gerist brotleg við „... stefnir heilsu barnsins og þroska í hættu“ boði þau þennan boðskap í fræðslu sinni til skólabarna.
Konur og kvennamál
Samtökin '78 segja á heimasíðu sinni: „Hugmynd þessara og fleiri femínista er sú að konur séu undirokaðar og kúgaðar vegna líffræðilegra eiginleika, það er að segja getu þeirra til að eignast börn.“ Samkvæmt dómi Mannréttindadómstólsins, og þurfti hann ekki til, þá er skýrt í lögum að þú ert það kyn sem þú fæddist. Ef fræðsluaðilar Samtakanna '78 og kennarar á leik- og grunnskólastigi segja börnum að karlmaður geti verið móðir og kona faðir er það vanvirðandi háttsemi, særandi og móðgandi og gert með það fyrir augum að rugla börn.
Samtökin virðast sá vafafræjum í huga barna. Fólk sem hafnar hugmyndafræði samtakanna er sagt fordómafullt og með hatursorðræðu. Komi slíkar fullyrðingar fram í fræðslu samtakanna, t.d. á efri stigum grunnskólans, særir það og móðgar börn enda líklegt að foreldrar þeirra þekki staðreyndina, hvað sé kona og hvað sé karl, og miðli til barna sinna. Ég spyr mig og vonandi margir aðrir.
Boði samtökin í skólakerfinu að konur hafi ekki einkarétt á réttindum sem þær hafa barist fyrir og orðum sem notuð eru yfir konur fara þau yfir strikið. Það særir stúlkur, móðgar og sýnir vanvirðandi háttsemi í þeirra garð. Stúlkur eru helmingur af nemendahópi í skólastofu.
Lygar
Að bera lygar á borð fyrir börn sem geta ekki varið sig, farið í gagnrýna umræðu og svarað fræðsluaðila er vanvirðandi háttsemi, særandi og móðgandi. Börn hafa ekki þekkingu og hafa ekki skoðað aðrar hliðar málaflokksins eins og nauðsynlegt er til að svara fræðsluaðilum transsamtakanna um transmálaflokkinn.
Samtökin hafa haldið fram að börn séu í sjálfvígshættu fái þau ekki viðeigandi meðferð við kynvanda sínum. Engar rannsóknir styðja þann málflutning og er börnum beinlínis hættulegur. Alveg ljóst er að ef samtökin ræða þetta í fræðslunni stefna þau heilsu barna í hættu.
Hafi foreldri orðið vart við fræðslu sem brýtur í bága við greinina á það umsvifalaust að kvarta til stjórnenda. Vilji menn ganga lengra, kæra.
Kyn verður aldrei dregið í efa nema í svo sárafáum tilfellum og þá vita menn að eitthvað hefur farið úrskeiðis.
Viljaleysi ritstjórna
Vandinn í dag er viljaleysi fjölmiðla til að ræða transmálaflokkinn frá fleiri hliðum en Samtökin '78 sýna. Víða um heim hefur umræðan um málaflokkinn breyst. Margir hafa stigið fram og sagt miður góðar reynslusögur og sérfræðingar benda á margt fróðlegt sem á erindi við almenning. Nýverið kom út norsk skýrsla sem fer hörðum orðum um þann iðnað sem er í gangi. Ekki orð um það hér á landi.
Hvet fjölmiðla, hvaða nafni sem þeir nefnast, til að sinna skyldu sinni í transmálaflokknum eins og öðrum. Víða um heim sjáum við fjölmiðla axla þá ábyrgð.
Höfundur er M.Ed. M.Sc. og grunnskólakennari.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. apríl 2023 - birt með leyfi höfundar á Fréttin.is
One Comment on “Gerast Samtökin ’78 brotleg við 99. gr. barnaverndarlaga?”
Að mínu mati er þetta eunfaldlega rétt með farið hjá henni, þvílík þvæla sem þetta er eiginlega orðið,,,ég þakka fyrir að mín börn eru hætt í skóla, vonandi fær sér eitthvert foreldri hörku lögfræðing og lætur reina á þessa þvælu sem komin er upp í skólakerfinu, foreldra hljóta að géta sagt eitthvað um kenssluefni sem börnunum þeirra er kennt í skólunum….