Költ eða réttindabarátta? – 3. hluti

frettinEldur Smári, Hinsegin málefni, KynjamálLeave a Comment

Eldur Deville skrifar:

Í 2. hluta þessarar greinaseríu fórum við yfir fjóra liði sem einkenna költisma og hvernig hreyfing svokallaðs „hinsegin fólks“ hefur þróast í þá átt að rétt er að tala um þann anga hreyfingarinnar sem költ en ekki hóp í réttindabaráttu.

Í lok annars hluta vísaði ég í ummæli Daníels E Arnarsonar, framkvæmdastjóra Samtakanna ´78 sem birtust í drottningarviðtali við hann á mbl.is í kjölfar greinar Helgu Daggar Sverrisdóttur, sem birtist í Morgunblaðinu á föstudaginn í síðustu viku.

„Þetta get­ur skapað upp­lýs­inga­óreiðu sem get­ur leitt það af sér að fólk horfi öðru­vísi á hlut­ina og beiti ákveðnu orðfæri á net­inu sem end­ar síðan í al­var­legu of­beldi, eins og við erum að sjá víðs veg­ar er­lend­is.“

Það er forréttindastaða að sitja í rótgrónu og annars virtu félagi sem Hörður Torfason stofanaði á sínum tíma. Það veitir langt forskot gegn okkur hinum sem erum að reyna að beina umræðunni í eðlilegt og gagnrýnið horf. Samtökin 22 – Hagsmunasamtök samkynhneigðra er ekki andvígt transfólki og er síður en svo andvígt því að fólk lifi sínu lífi á þann hátt sem það vill. Það er upplýsingaóreiða af hálfu Daníels og Samtakana ´78 að halda slíku fram.

Í ræðustól Alþingis vændi Daníel samtökin okkar um að vera haturssamtök og að við tengdumst slíkum samtökum. Þetta hefur svo ratað inn á fundi sveitastjórna t.d. í Múlaþingi þar sem Björg Eyþórsdóttir lét ummæli falla í síðustu viku, að Samtökin 22 séu haturssamtök, örsamtök og öfgasamtök. Þetta er alfarið rangt. Við vitum af tveimur bandarískum aktívistum sem yfirgáfu Southern Poverty Law Center og stofnuðu áróðurssíðu sem er látin líta út eins og mælitæki fyrir hatursorðræðu og öfgasamtök. Þar á listanum þeirra birtist LGB Alliance á Írlandi og eru þau á þessum lista vegna þess að þau frömdu þann hræðilega glæp að mótmæla því að karlar geti vaðið inn á rými kvenna og barna án vandræða vegna laga um kynrænt sjálfræði þar í landi.  

LGB Alliance var stofnað í Bretlandi árið 2019 og hafa verið undir áreiti alveg frá stofnun.
LGB Alliance er stofnað af stofnendum Stonewall sem er sambærilegt félag við Samtökin ´78.  

Það sama á við systursamtökin sem við stofnuðum á Íslandi fyrst undir formerkjum LGB teymisins og svo í fyrra sem Samtökin 22.
Við hvetjum alla til að skoða vefsíðuna okkar á www.samtokin22.is

En hvað er það sem veldur þessum árásum á félag homma og lesbía sem hefur áhyggjur af því að börn séu sett í ótímabærar meðferðir og jafnvel skurðaðgerðir vegna kynama? Af hverju er ráðist að lesbíum fyrir það eitt að neita að viðurkenna karla sem lesbíur?
Af hverju er ráðist á samkynhneigða karla sem hafa upplifað kynama á eigin skinni en læknuðust af honum sjálfkrafa eftir kynþroskaskeiðið? Skiptir reynsla þessa fólks engu máli?

Óeðlilegur ótti um umheiminn sem felur oft í sér illt samsæri og ofsóknir

Fimmta einkenni költisma sem við ætlum að fara yfir í þessari seríu snýr að mjög svo óeðlilegum ótta við umheiminn. Eins og með önnur dómsdagskölt þá er óeðlilegum ótta við umheiminn sáð og meðlimum talin trú að illt samsæri sé í gangi gegn þeim. Þess vegna er afar brýnt fyrir meðlimina að haga sér samkvæmt reglum yfirboðarana.

Þetta einkennir ekki samkynhneigða, heldur er þetta ríkjandi hjá transöfgasinnum.

Í undirbúningi þessarar greinaseríu, þá tók það mig aðeins nokkrar mínútur að finna nokkur mjög öfgafull íslensk dæmi um þennan óeðlilega ótta og samsæriskenningar.

Hans Jónson er transöfgasinni sem lætur sannleikann ekkert þvælast fyrir sér í öfgafullum samsæriskenningum sínum. Þarna er látið uppi eins og markmið okkar sé að útrýma transfólki og jafnvel bókstaflega á sama hátt og nasistarnir gerðu við Gyðinga. Fyrir utan hvað þetta er ömurleg vanvirðing við Helförina, þá lýsir þetta hverskonar ranghugmyndum sem sumir glíma við frá degi til dags.

Smitáhrif, eða á ensku „social contagion“ er ekki hugtak sem nasistar fundu upp. Hugtakið var fyrst notað árið 1895 af franska vísindamanninum Gustave Le Bon. Hann kom hvergi nálægt neinum nasisma, enda lést hann háaldraður árið 1931.

Smitáhrif eru raunveruleg og fjöldi rannsókna er til um þau t.d. er varðar sjálfskaðakölt, anórexíu hópa þar sem aðallega konur smána hvor aðra til að grennast meir, og nú nýlegast rannsóknir er varðar smitáhrif vegna samfélagsmiðla.

Kannski einna sorglegast er að sjá grunnskólakennara haga sér eins og transöfgasinni og taka í sama streng og Hans.  Arna Magnea Danks hefur látið fara aðeins fyrir sér í umræðunni síðustu daga. Kennarinn er einnig á bólakafi í þessum samsæriskenningum og óeðlilegum ótta annara meðlima transköltsins.

Það hlýtur að valda áhyggjum að manneskja haldin svona ranghugmyndum um umhverfi sitt sé að kenna börnum. Kannski Kennarasamband Íslands sendir út aðra yfirlýsingu?

Annar transöfgasinni vænir Samtökin 22 um að hvetja til ofbeldis gegn transfólki. Aftur, þá er sannleikurinn ekkert að þvælast fyrir þessu fólki. Samtökin 22 sendu inn umsögn til Alþingis sem allir hafa aðgang að. Þar óskuðum við eftir vandaðri vinnubrögðum og skilgreiningar við lagafrumvarp sem liggur fyrir Alþingi, en er meingallað.

Þessar samsæriskenningar transöfgasinna hafa ekki skilað sér í ofbeldi gegn þeim. Það er mýta. Það hefur hinsvegar skilað sér í ofbeldi og réttlætingu á slíku gegn öðru fólki og félögum sem reyna að boða skynsemi í málaflokknum er kemur að réttindum kvenna, samkynhneigðra og barna.

Eftir að transöfgasinni réðist inn í skóla og skaut til bara 3 börn og 3 kennara í kristnum skóla brást transsamfélagið við með því að efna til svokallaðs „hefndardag transaðgerðasinna“.

Transmaðurinn sem skaut fólkið til bana í Nashville í Bandaríkjunum skildi eftir sig stefnuyfirlýsingu (e. manifesto) sem félög „hinsegins“  fólks í Bandaríkjunum hafa gert allt til þess að verði ekki gert opinber.

Ég er reyndar sjálfur þeirrar skoðunar að svona óvargadýr sem drepa börn eiga ekki að fá of mikla umfjöllun, en ég held að það sé mikilvægt að við fáum að skyggjast betur inn í þennan heim ótta og ranghugmynda til þess að átta okkur á því sem er að gerast.

Aðrar samsæriskenningar sem eru oft nefndar hjá meðlimunum er morð á transfólki, sjálfsmorðstíðni og tíðni tilrauna til sjálfsvígs. Allir þessar hugsanatappar eru hraktir fyrir löngu, en eins og áður, þá er sannleikurinn ekkert að þvælast fyrir transöfgasinnum, sem endurtaka þetta ítrekað til þess að fólk trúi þessu gagnrýnilaust.

Það er okkar hinna að vera á varðbergi gegn áróðri fólks sem er í alræðiskölti sem skýlir sér á bakvið göfug mannréttindamarkmið. Gagnrýnin hugsun og almenn skynsemi verður að verða „meginstraums“ tól okkar samfélags á nýjan leik.

Í næsta hluta mun ég fjalla nánar um hugsanatappa (e. thought terminating clichés) og költ-mállýsku.

Skildu eftir skilaboð