Eftir Arnar Sverrisson sálfræðing:
James Corbett er glöggur, kanadískur fréttaskýrandi, afskaplega vandvirkur. Fyrir fjórtán árum síðan samdi hann athygliverðan fréttaþátt um sálblindu/siðblindu (psychopathy/sociopathy). Þátturinn er allrar athygli verður. James leitar einkum í smiðju landa síns, Robert D. Hare (f. 1934), sem varið hefur starfsævinni í að rannsaka fyrirbærið.
James hefur einnig gluggað í merkilega bók, sem ber þann ögrandi titil: „Stjórnmálafræðileg illskufræði“ (Ponerologia Polityczna). Bókin er pólsk að uppruna, útgefin 1984, þýdd á ensku ári síðar. Enski titillinn er: „Political Ponerology: A Science on The Nature of Evil adjusted for Political Purposes.“ Aukin útgáfa forlagsins, Red Pill, heitir: „Political Ponerology: The Science of Evil, Psychiatry and the Origins of Totalitarianism.“
Höfundur er pólski sjúkrasálfræðingurinn, Andrzej Lobaczewski/Andrew M. Lobaczewski (1921-2007). Hann hafði þá einstöku lífsreynslu í farteskinu að hafa lifað og starfað undir tvenns konar gerræðisstjórn; stjórn byltingarmanna (kommúnista) og þjóðernisjafnaðarmanna (nasista).
Bókin fór grýtta leið tilurðar- og útgáfu. Fyrsta handritið rataði í ofninn, skömmu áður en leynilögregla Pólverja gerði húsleit hjá höfundum. Annað handrit höfunda, sem unnu við skilyrði ofbeldis og undirokunar, var sent með sendiboða til Páfans í Róm. Það fór líka í glatkistuna. Páfi gekkst aldrei við að hafa tekið á móti handritinu.
Enn á ný var handrit skrifað af síðasta eftirlifandi höfundinum, Andrew Lobaczewski. En þá brá svo við, að landi hans, Zbigniew Brzezinski (1928-2017) meginhugmyndafræðingur heimsvaldastefnu Bandaríkjastjórnar, kom í veg fyrir birtingu þess.
Eftir hálfa öld grýttrar leiðar til útgáfu, kom verkið loks fyrir almennings sjónir. Á leið sinni urðu höfundar fyrir nákvæmlega þeirri mannillsku, sem þeir skrifuðu sögulega um, þ.e. mannillsku leiðtoganna.
Höfundur segir rannsóknir sínar og félaganna hafa snúist um „kjarnasálsýki“ (essential psychopathy). Samfélög, sem búa við forystu hinna sálblindu eða geðveiku kallar hann „brjálræði“ eða „sturlunarræði“ (pathocracy).
Félög stofnuð til leynimakks og undirróðurs
Andrzej heldur því fram m.a., að í sérhverju samfélagi stofni siðblindingjar og aðrir afbrigðungar (deviants) á þeirra valdi, félög til leynimakks og undirróðurs. Félög þessi eru bara að litlu leyti á vitorði almennings.
Hann bendir einnig á þátt tilfinningaalgleymisins (emotionalism) í lífi einstaklinga, hópa og þjóða. Þegar það keyrir úr hófi fram, samþætt dómgreindarleysi og blindu á staðreyndir, örvast sjálfhverfa og sefasýkislegt næmi. Fólk verður ofurviðkvæmt fyrir áreitni, sem veldur sífelldum erjum. Það verður öfugsnúið og ofurgagnrýnið. Slíkt ástand virkar eins og mykjuskán á mý, dregur að sér illa innrætt fólk, sem talar tungum, og kyndir undir hinum illu öflum í samfélaginu.
Víkjum þá aftur að frábærum fræðsluþætti James Corbet:
Sálblindingjar eru undirtegund mannkyns, sem hefur löngum verið viðfangsefni geðlækna, siðfræðinga, trúfræðinga, sálfræðinga og sagnfræðinga. Eins og gefur að skilja er um að ræða fólk, sem skortir samúð og samvisku, kann ekki að skammast sín og þekkir ekki samviskubit. Það gefur siðareglum og lögum langt nef.
Tvöfaldir í roðinu
Hugsun er órökrétt og óræð. Ofbeldi, sjúkleg stjórnsemi, grimmd og gerræði, er algengt í fari þeirra, enda þótt þessir einstaklingar séu brosmildir viðhlæjendur. Þeir eru alltaf tvöfaldir í roðinu, villa á sér heimildir og ljúga. Þeir eru sjúklega hrifnir af sjálfum sér og telja sannleikann leika sér á tungu. Þeir eru útsmognir, kaldrifjaðir, slóttugir og svífast einskis við að koma ár sinni fyrir borð, rándýr í eðli sínu. Stjórnunar- og eftirlitsþörfin er sjúkleg.
Dæmi úr frétt Daily Mail um stríðskonu í Írakstríðinu: „ Hví í helvítinu ætti ég að sýna eftirsjá, sagði herstúlka, sem misþyrmdi írökskum föngum í Abu Ghraib fangelsinu.“
Sál- og siðblindingjar leita í það umhverfi, sem býður þeim að blómstra – eða þeir skapa sér það. Stríð er dæmigerður vettvangur, stjórnmál er annar. (Þó er ekki þannig að skilja, að allir stjórnmálamenn séu sálsjúkir.)
Í stjórnmálum er mikið um tungulipra froðusnakka og lygara, sem dást að sjálfum sér og eru svo sjálfhverfir, að köllum þeirra í lífinu verður að móta veröldina og okkur hin í eigin mynd. Sjálfsmynd þeirra skal endurspeglast í okkur hinum, hópum, fyrirtækjum og samfélagi.
Frank Delano Roosevelt (1882-1945) er einn kunnasti siðblindingi sögunnar í hópi góðkunningja og siðleysingja eins og Winston Leonard Spencer Churchill (1874-1965) og Iosif Vissarionovich (Jósef) Stalin/Ioseb Dzhugashvili (1878-1953), þríeykisins, sem skipti á milli sín veröldinni, af afloknu öðru heimsstríði.
Þegar samstarfi og vináttu Frank og Jósefs lauk, lét sá fyrrnefndi meira að segja hefja framleiðslu á kjarnorkuvopnum til fjörtjóns Rússum, þrátt fyrir, að í vináttunni fælist margvíslegur stríðsstuðningur Bandaríkjamanna við Rússa.
Jósef gerði þá reginskyssu að snúa baki við angló-saxisku-auðjöfrunum, sem fjármögnuðu uppbyggingu rússnesks samfélags til loka annarrar heimstyrjaldar - og Rauða herinn.
James hefur unnið heimavinnuna sína. Hann leiðir okkur til fundar við heimsþekkt fólk, sem byltist um í sálblindu sinni. Vel gert hjá James.
„Geðveiki andófsins“
Blaðamaðurinn snjalli hefur nýlega lokið við gerð þáttaraðar; „Geðveiki andófsins“ (Dissent into madness), sem fjallar um sjúkdómsvæðingu andófs í stjórnmálum eins og við þekkjum svo vel úr gerræðisríkjum á borð við Ráðstjórnarríkin sálugu, og nú er áberandi í vestrænum lýðræðissamfélögum.
Bendi áhugasömum um efnið einnig á verk Robert (Bob) Anthony Altemeyer (f. 1940), sálfræðiprófessors við Manitoba háskólann í Kanada, „Valdlægjurnar“ ( eða undirlægjurnar - The Authoritarians), sem kom út árið 2006.
Róbert sagði m.a.: „Drottnurunum er það að skapi, að þú verðir afhuga stjórnmálum og finnir til vonleysis. Þú flækist fyrir þeim. Þeir óska þess, að lýðræðið líði undir lok, að frelsi þitt verði skert, að jafnræði verði upprætt. Þeir vilja stjórna öllu og öllum, þeir vilja gína yfir öllu. Og undirlægjurnar eru búnar til hergöngu í anda „hinna fornu trúarbragða“, til krossfarar, sem mun eiga sér stað, ef þú spyrnir ekki við fótum.“
Annarlegar og skaðlegar bábiljur ná fótfestu meðal stjórnmálamanna
Siðblindingar þurfa svo sem ekki að efna til stórstyrjalda í sálsýki sinni. Þeir starfa á fólki og hópum fólks samkvæmt sömu þörf og aðferðum. Við verðum á líðandi stundu vitni að útskúfun, lúalagi og hraksmánun, nær því daglega, þegar fólk spyrnir gegn undirlægjuhætti. Við erum sömuleiðis vitni að því, hvernig annarlegar og skaðlegar bábiljur ná fótfestu meðal stjórnmálamanna, heilbrigðisstarfsmanna og kennara.
Dæmin eru mörg, bæði innan- og utanlands. En spjall læknisins, Scott Jenson, og sálfræðingsins, Jordan Peterson, er einkar fróðlegt í þessu tilliti. Fyrirsögnin er ofríkisskrifræðið“ (Tyranny Through Weaponizing Bureaucracy). Ofríkisfólk beitir skrifræði opinbers valds til að ota sínum tota og auka völd sín.
Þetta blasir við augum í íslensku samfélagi t.d. í sambandi við áróður um hamfarahlýnun, kvenfrelsun og kynleysu. Þar eru opinberar stofnanir vopngerðar í baráttu ákveðinna stjórnmálamanna gegn fólki flest og menningu þess, meira að segja Vinnueftirlitið og Velvirk.
Baráttan fyrrgreindra endurómar í löggjöf, sem þeir keyra í gegn á Alþingi. Aukin heldur koma þeir á fót sérstökum „áróðursherjum“ áhugamannasamtaka með fjármunum úr vösum skattgreiðenda – venjulega í nafni lýðhollustu, jafnréttis, góðmennsku eða mannréttinda. Þetta er stríð svo heilagt, að ekki má beina að því gagnrýnum sjónum.
Lýk þessum pistli með orðum franska sagnfræðingsins, heimspekingsins og skáldsins, Francois-Marie Arouet (1694-1778) eða Voltaire:
„Viljir þú komast að því, hver drottnar yfir þér, má einfaldlega athuga, hvern er bannað að gagnrýna.“
Fleiri tilvísanir með greininni má finna hér.