Eftir Skúla Sveinsson lögmann:
Við ættum ekki að láta söguna endurtaka sig og við höfum áður samþykkt að veita erlendum lagareglum bein réttaráhrif á Íslandi. Það gerðist með Kópavogssamningnum, þann 28. júlí 1662, þar sem Íslendingar samþykktu einnig erfðaeinveldi Danakonungs.
Fram að þeim tíma þurfti samþykki Íslendinga fyrir nýjum konungi. Afleiðingar Kópavogssamningsins voru jafnframt þau að lög sem konungur setti hlutu sjálfkrafa lagagildi á Íslandi, þá án samþykkis Alþingis ólíkt því sem áður hafði verið. Erfðaeinveldið var svo í gildi allt til ársins 1874 þegar Íslendingar fengu sína eigin stjórnarskrá. Stjórnarskráin frá 1874 er eitt merkasta skjal Íslandssögunnar og í henni er að finna grundvallar mannréttindaákvæði, t.d. um friðhelgi heimilis og eignarréttar, atvinnufrelsi auk prent- og félagafrelsis.
Nú stendur fyrir dyrum að samþykkja Nýja Kópavogssamninginn, þ.e.a.s. bókun 35 við EES-samninginn, sem á að veita á ný erlendum lagareglum forgang fram yfir þær íslensku og færa okkur nær erfðaeinveldinu enn á ný. Áður en bókun 35 verður lögfest þá þurfum við í raun að spyrja okkur hvort við viljum vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða ekki.
Að veita lögum Evrópusambandsins forgangsáhrif yfir íslensk lög er í raun lína sem má ekki fara yfir og er einfaldlega ekki ásættanlegt. Ísland og Alþingi hefur enn í dag formlega rétt til að hafna erlendum réttarreglum og þær taka ekki gildi hér á landi nema með okkar samþykki, þessu á að breyta með bókun 35. Fyrirhuguð forgangsáhrif laga Evrópusambandsins samrýmast jafnframt ekki stjórnarskrá Íslands, sem við fengum að grunni til árið 1874 þegar erfðaeinveldið var afnumið.
Tímabært að segja skilið við Evrópusambandið - Ice-Exit
Er ekki einfaldlega kominn tími núna á Ice-Exit? Við þurfum að taka okkar mál í okkar eigin hendur og hætta að hengja vagn okkar við hið hnignandi og regluvafða kerfisbákn Evrópusambandsins. Það hentar okkar hagsmunum einfaldlega ekki lengur að vera í þessu samstarfi. Því fylgja kostir að vera á Evrópska efnahagssvæðinu en þegar ókostirnir eru farnir að vega þyngra en kostirnir og ekki stefnir í rétta átt, þá er mál að linni, fyrir utan grundvallarspurninguna um hvort við viljum vera fullvalda og sjálfstæð þjóð.
Efnahagsleg staða Evrópusambandsins hefur farið jafnt og þétt hrakandi síðustu áratugi. Hlutfall Evrópu í heimsframleiðslu hefur fallið frá því að vera um þriðjungur fyrir árið 1980 í undir 15% í dag. Allt útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram og þá jafnframt með auknum hraða. Evrópa hefur jafnt og þétt hlutfallslega verið að dragast aftur úr heiminum og velferð í Evrópu hefur á síðustu tveim áratugum fyrst og fremst verið haldið uppi með lántökum. Ófjármagnað lífeyrissjóðskerfi Evrópu er einnig ósjálfbært, sbr. m.a. þær breytingar sem verið er að þvinga í gegn í Frakklandi varðandi eftirlaunaaldur. Vaxandi og íþyngjandi skuldsetning Evrópulanda er farin að hafa mjög sligandi áhrif á hagkerfin og slíkur skuldavöxtur getur einfaldlega ekki gengið upp til lengdar. Raunveruleg framleiðsla og verðmætasköpun er eina leiðin til að halda uppi velmegun til lengri tíma litið. Óhjákvæmilegar afleiðingar lítils hagvaxtar, vaxandi skuldsetningar og íþyngjandi regluverks eru nú að koma fram að fullum þunga í formi verðbólgu og hruns kaupmáttar, þ.e.a.s. verðbólgukreppu.
Sameiginlegi gjaldmiðillinn, Evran, var tekinn upp þrátt fyrir aðvaranir hagfræðinga. Aðvaranirnar gengu út á að slíkur sameiginlegur gjaldmiðill hefði sögulega aldrei gengið upp til lengdar en ef einhver möguleiki ætti að vera á því að Evran gæti lifað til lengri tíma, þá yrði að tryggja að skuldsetning evrulandanna yrði haldið innan viðráðanlegra marka og að tryggt væri að ekki yrði viðvarandi hallarekstur á ríkissjóðum aðildarríkjanna. Allir voru sammála um þetta á sínum tíma og á grundvelli þess voru m.a. Maastricht-skilyrðin sett fyrir inngöngu í myntbandalagið.
Það sem virðist þó hafa gleymst með tímanum er að ríkin þurfa ekki aðeins að uppfylla Maastricht-skilyrðin við inngöngu heldur verður staða þeirra að vera með þeim hætti til frambúðar svo myntkerfið fari ekki úr jafnvægi. Gríðarleg skuldsetning og hallarekstur Evrópulanda undanfarin ár er nú að stofna stöðugleika Evrunnar í hættu, verðbólga er komin á fleygiferð, sem verður mjög líklega illviðráðanleg. Ástæða þess er m.a. sú að Evrópski seðlabankinn getur ekki beitt vaxtastýritækinu af fullum þunga þar sem mörg evrulöndin eru einfaldlega orðin of skuldsett til að þau geti þolað hækkandi stýrivexti. Staða evrunnar er því í raun orðin að hægfara lestarslysi.
Aðrar afleiðingar hnignandi stöðu Evrópu
Hnignandi staða Evrópu er ekki aðeins efnahagslegs eðlis heldur varðar einnig varnarmál. Evrópa hefur misst stöðu sína sem efnahagslegt stórveldi og það hefur ekki farið fram hjá öðrum ríkjum heims. Leiða má líkum að því að yfirgangur Rússa í Úkraínu tengist að hluta til því mati þeirra að máttur og yfirburðir Evrópu og Vesturlanda fari þverrandi. Ef Evrópa væri enn efnahagslegt stórveldi þá leyfi ég mér að efast um að Rússar hefðu leyft sér að fara fram með slíkum yfirgangi í Úkraínu eða hefðu yfir höfuð hætt sér út í það stríð sem þar er nú háð. Rússar hafa metið stöðuna þannig að þeir hafi vel efni á að rjúfa efnahagsleg tengsl sín við Vesturlönd og að Evrópa væri mun háðari þeim en Rússland væri háð Evrópu. Evrópa er háð Rússlandi varðandi olíu og gas auk annarra hrávara eins og um áburð, sement, kornmeti, málma og jafnvel úraníum í kjarnorkuver. Viðskipti við Rússland hafa því haldið áfram þó að reynt sé að hafa hljótt um það, þar sem viðskiptabann á víst að vera til staðar, en Rússar hafa að öðru leyti fundið aðra markaði fyrir sínar vörur. Viðskiptaþvinganir gegn Rússum hafa ekki skilað því sem að var stefnt einfaldlega vegna þess að Evrópa er ekki lengur ráðandi efnahagslegt stórveldi í heiminum.
Tími til kominn að Ísland fari aftur með sín mál
Einangrunar- og haftastefna Evrópusambandsins mun ekki leiða til aukinnar hagsældar. Josep Borrell, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, lýsti nýverið Evrópu sem aldingarði og að utan hans væri aðeins frumskógur. Ummæli hans lýsa þó fyrst og fremst hugarfari forystumanna Evrópusambandsins sem stefna nú hröðum skrefum að fullri efnahagslegri einangrun, þá m.a. með nýsamþykktum markmiðum í loftslagsmálum og að útiloka eigi aðra frá evrópskum mörkuðum sem ætla ekki að fylgja stefnu þeirra. Stefna Evrópusambandsins í umhverfismálum hentar einfaldlega ekki Íslandi þar sem við erum eyja í Norðurhafi en ekki meginlandsríki.
Umfangsmikið og mjög íþyngjandi regluverk Evrópusambandsins er jafnframt sérstaklega óhagstætt fyrir Ísland þar sem við erum lítið hagkerfi, sem samanstendur af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Reglubyrði bitnar hlutfallslega þyngra á minni fyrirtækjum en er stórfyrirtækjum hagfelld. Reglubyrðin dregur einnig úr hagvexti, einstaklingsframtaki, framþróun og nýsköpun, sem miðlægt styrktarkerfi geta aldrei bætt upp.
Ég er því kominn á þá skoðun að nú sé mál að linni og að við eigum að segja skilið við Evrópska efnahagssvæðið. Grundvallaratriði er að við séum sjálfstæð og fullvalda þjóð. Hagsmunum okkar er betur borgið í okkar eigin höndum og sagan hefur sýnt okkur hvernig fer þegar við missum tökin á okkar eigin málum. Við eigum því núna að taka okkar mál í okkar eigin hendur, aðlaga regluverk og umfang stjórnkerfis að okkar þörfum og aðstæðum. Velmegun og hagsæld á Íslandi hefur frá upphafi verið bundin við sjálfstæði okkar og getu til að stjórna eigin málum. Ég segi því að nú er komin tími á Ice-Exit!!!