Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, var fyrr á þessu ári í spjalli í fjarfundabúnaði um hagkerfi heims við mann sem hann hélt að væri Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu. En það var ekki Zelensky sem var á fundinum, heldur var um símahrekk að ræða.
Í klippum sem birtar voru á netinu af samtalinu í janúar ræddi Powell alþjóðleg stjórnmál og efnahagslífið. Hann sagðist styðja úkraínsku þjóðina en það væri takmarkað hversu mikið hann gæti hjálpað.
Powell sagði að samdráttur í Bandaríkjunum væri að öllum líkindum handan við hornið og greindi frá áformum ríkisins um að hækka stýrivexti árið 2023. Hann sagði að Bandaríkin hafi ekki farið illa út úr orkukreppunni en það hefðu t.d. lönd í austur-Evrópu gert, þau sem lægju nærri Úkraínu.
Talsmaður Seðlabankans viðurkenndi að Powell hefði tekið þátt í samtali í janúar við náunga sem sagðist vera forseti Úkraínu en sagði að engar viðkvæmar eða trúnaðarupplýsingar hefði verið veittar. Seðlabankinn segist hafa vísað málinu til lögreglu.
The New York Times sögðu að prakkararnir væru rússneskir stuðningsmenn Vladimírs Pútíns forseta sem áður hafi hrekkt Christine Lagarde forseta Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Angelu Merkel fyrrverandi kanslara Þýskalands.
Hér má hlusta á „forseta Úkraínu“ og seðlabankastjóra Bandaríkjanna ræða heimsmálin.
One Comment on “Seðlabankastjóri Bandaríkjanna lenti í símahrekk: taldi sig vera að tala við forseta Úkraínu”
Mikið djöfull er þetta góður hrekkur hjá þeim 🙂