Fjöldaslátrun kúa á Írlandi er viðvörun til Bretlands og stefnu þeirra um kolefnishlutleysi

frettinErlent, Landbúnaður, Loftslagsmál2 Comments

Eftir James Blackett í The Telegraph:

Ríkisstjórn Írlands er að skoða áform um að slátra um 200.000 mjólkurkúm til að ná loftslagsmarkmiðum sínum. Þetta er brjálæði.

Hliðartjónið af Net Zero (kolefnishlutleysi) er nú komið óþægilega nálægt heimahögum. Fyrst var hollenskum bændum hótað með eignaupptöku í þeim tilgangi að uppfylla losunarmarkmið ESB, stefna sem ýtti undir uppreisn hollenskra bænda. Nú er röðin komin að Írlandi, þar sem ríkisstjórnin er að sögn að skoða plön um að slátra um 200.000 mjólkurkúm til að ná loftslagsmarkmiðum sínum. Fyrirkomulagið yrði svolítið eins og sjálfviljug starfslok, þar sem bændum stendur til boða fjárhagslegar ívilnanir til að losa sig við kýrnar sínar.

Breskir nauta- og kúabændur eru nú mjög órólegir. Það virðist æ ljósara að í gangi eru umhverfis-módernísk áform um að taka hefðbundið kjöt úr umferð. Það eru ekki bara aktívistar í umhverfissamtökunum Extinction Rebellion sem styðja þetta, heldur líka margir stjórnmálamenn.

Það er mjög heppilegt að við séum komin út úr ESB, ellegar gætum við staðið frammi fyrir þessum sama þrýstingi frá Brussel. Nú getum við aðeins vonað að Rishi Sunak, sem er fulltrúi landsbyggðarkjördæmis í Yorkshire Dales, skilji hvað er í húfi fyrir bændasamfélagið.

Að eyða háum fjárhæðum af peningum skattgreiðenda í að drepa nytjadýr er fullkomin samantekt á Net Zero brjálæðinu sem smitast nú um Vesturlönd. Írska landbúnaðarráðuneytið hefur sagt að skýrslan sé aðeins „líkan“, en engin heilvita ríkisstjórn myndi einu sinni ganga svo langt að taka slíkt plan inn í „samráðsferli“. Hvers vegna? Vegna þess að það er óskynsamlegt.

Hollenskir og írskir stjórnmálamenn hafa ekki gert sér grein fyrir því að endurnýtanleg búskapartækni gerir búfjárbændum kleift að hjálpa til við að draga úr loftslagsbreytingum með því að binda kolefni í jarðveginn. Tæknin sem þarf til að mæla með nákvæmum hætti kolefni í jarðvegi hefur nýlega verið þróuð af bresku fyrirtæki, Ecometric. Árangurinn er undraverður. Sumir breskir búfjárbændur fá nú greitt fyrir nettó magn af kolefni sem bundið er í jarðveginn eftir að búið er að gera grein fyrir metaninu frá ropandi kúm þeirra. Það myndi þýða breytingar í búskaparháttum; að taka upp heildrænar aðferðir, aðallega með því að skipta út kornfóðri fyrir gras, og það er hægt.

Og við ættum að þakka fyrir orkuframleiðslugetu kúa. Nú þegar, er verið að breyta tólgi úr breskum nautgripum í lífdísil (biodiesel). Eins tonna dýr framleiðir um 180 lítra. Og þökk sé Somerset-sprotafyrirtækinu, Biofactory, því ný loftfirrð tækni er nú þegar tiltæk til að breyta metani í mykjunni yfir í nothæft rafmagn og hita. Mykjunni sjálfri er breytt í næringarríkara meltingarefni sem getur dregið verulega úr þörfinni fyrir skaðlegan tilbúinn áburð. Mitt eigið mjólkurbú er að fjárfesta í þessari nýju grænu tækni og við vonumst til að verða kolefnishlutlaus útflytjandi á orku innan nokkurra ára.

Það er líka mikil skammsýni að valda fjölskyldum sem stunda búfjárrækt skaða í nafni loftslagsvísinda. Ef sá tími kemur einhvern tímann, að matur verði búinn til á rannsóknarstofu, sem notar gríðarlegt magn af orku eins og er, og hægt verður að skipta út fitu og próteini úr dýrum, munum við líklega vera farin að nota vetnistækni í stað jarðefnaeldsneytis, og enginn mun hafa nokkrar einustu áhyggjur af kolefni.

Ef það eru einhverjir í Bretlandi sem hafa hug á að fylgja fordæmi Hollendinga og Íra ættu þeir að hugsa aftur. Búskapurinn þarf að verða grænni en með því að nýta nýja tækni frekar en að henda barninu út með baðvatninu.

James Blackett er breskur stjórnmálamaður, rithöfundur, landeigandi, bóndi og greinarhöfundur í The Daily Telegraph, The Spectator o.fl.

2 Comments on “Fjöldaslátrun kúa á Írlandi er viðvörun til Bretlands og stefnu þeirra um kolefnishlutleysi”

  1. Það er í rauninni mjög einfalt að skilja hvað er að gerast. Peninga kerfið er ekkert annað en píramída svindl. Sem þíðir það að þeir sem hafa tekið lán,á vöxtum, til að byggja upp fyrirtæki, eru komnir í lið með glæpamönnum og munu því valda þeim sem reyna að gefa það í skin að um glæp sé að ræða, verða fyrir nógu alvarlegu óþægindum. Samanber, að fá eða halda vinnu.

Skildu eftir skilaboð