Eftir Tjörva Schiöth:
Stefnan um austurstækkun NATO var ákvörðuð í Washington D.C. og var hluti af langtímastrategíu Bandaríkjanna
Því hefur gjarnan verið haldið fram að austurstækkun NATO hafi ekki verið stefna eða ákvörðun Bandaríkjastjórnar (eða hluti af þeirra langtímastrategíu), heldur hafi það bara verið utanaðkomandi umsóknarríki í Austur-Evrópu sem ákváðu það sjálf – fyrir hönd hernaðarbandalagsins (sem er augljóslega stjórnað frá Washington D.C. og Pentagon) – að bandalagið skyldi stækkað. Sagan er gjarnan sögð á þann (mjög svo heppilega) hátt, að Bandaríkjastjórn hafi verið mjög treg og ófús til að stækka hernaðarbandalagið, og það hafi bara verið eindreginn vilji þessara Austur-Evrópuríkja sem beinlínis knúði Bandaríkin til að fallast á þessar kröfur þeirra um að taka löndin inn undir verndarvæng NATO. Sagan er sem sagt sú: lítil Austur-Evrópuríki knúðu stærsta og öflugasta hernaðarveldi heims til að fá að stækka sitt áhrifasvæði og fá að koma inn á landsvæði þessara smáríkja með sitt herlið og hergögn!
Vandamálið við þessa söguskýringu er bara að hún er ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Staðreyndirnar segja allt aðra sögu.
Það er vel þekkt að austurstækkun NATO var eitt af helstu stefnumálum hinna svokölluðu ný-íhaldsmanna (neocons) annarsvegar, og stríðshauka í Repúblikanaflokknum hinsvegar. Þetta var mikið kappsmál í ríkisstjórn Bill Clinton (1992 – 2000), en þó sérstaklega í ríkisstjórn George W. Bush (2000 – 2008). Þessi stefna hafði verið ákveðin fyrirfram snemma á 10. áratugnum, og var þannig hluti af langtímastrategíu.
Military-industrial complex
Það sem er kannski minna þekkt, er að austurstækkun NATO var mikið kappsmál fyrir hergagnaframleiðendur, hið svokallaða military-industrial complex, þar sem þeir höfðu lobbýað þingmenn Bandaríkjaþings stíft fyrir stækkun NATO ætíð síðan að Kalda stríðinu lauk. Fyrirtæki eins og Lockheed Martin, Northrop Grumman, Textron Inc., Raytheon, Boeing og McDonnell Douglas. Það myndi skila sér í stórum vopnasamningum við nýju aðildarríkin í gömlu austurblokkinni og fyrrum Varsjár-bandalaginu, sem myndu þurfa að uppfæra allan sinn gamla sovéska vopnaforða með nýjum NATO vopnum. Slíkt myndi auðvitað skila sér í miklu góðæri hjá þessum fyrirtækjum, sem framleiða vopnin og græða á því að selja þau. Um þetta var fjallað greinum New York Times á þessum tíma, þar sem greint var frá lobbýisma hergagnaframleiðenda fyrir stækkun NATO. En þar segir beinlínis að austurstækkun NATO hafi verið „bonanza” fyrir hergagnaframleiðendur:
Þarna kemur m.a. fram að Lockheed Martin, sem var stærsti vopnaframleiðandi í heimi á þeim tíma (og framleiðir F-16 herþoturnar), hafi sóst eftir því að fá að skipta út gömlu sovésku MIG-21 herþotunum í vopnabúrum fyrrum austantjalds-ríkja fyrir sínar F-16 þotur. Sem dæmi: ef Pólland gengi í NATO þá myndi pólska ríkið koma til með að kaupa 150 slíkar þotur frá Lockheed Martin til að uppfæra sitt vopnabúr samkvæmt stöðlum NATO, sem kostuðu á þeim tíma $20 milljónir stykkið (en núna þykir það mikið stórmál að Úkraína fái sendar nokkrar slíkar herþotur af sömu gerð, en á þessum tíma var verið að tala um að selja fleiri hundrað þeirra). Þannig að þarna voru stjarnfræðilegar upphæðir í húfi. Þá er einnig greint frá því að á 10. áratugnum hafi verið starfandi lobbýgrúppa að nafninu U.S. Committee to Expand NATO, sem stundaði það að bjóða þingmönnum Bandaríkjaþings á fín matarborð. En forseti þessarar grúppu sem sá um þetta gegndi einnig mikilvægri stöðu hjá Lockheed Martin.
Einnig er fjallað um lobbýisma hergagnaframleiðenda fyrir austurstækkun NATO í bók blaðamannsins Andrew Cockburn, The Spoils of War: Power, Profit and the American War Machine (2021).
Stríðshaukar í Repúblikanaflokknum
Stækkunarstefna NATO var sumsé fyrst tekin upp í forsetatíð Bill Clinton, eftir sigur Repúblikanaflokksins í þingkosningunum 1994 undir forystu harðlínumannsins Newt Gingrich, en sú stefna hafði verið hluti af stefnuskrá þeirra sem nefndist „Contract with America.“ Þar stóð meðal annars að stefnan væri að „hvetja ríkisstjórn Clinton til að fara fram á fulla aðild umsóknarríkja að NATO… að ítreka skuldbindinguna um að stækka bandalagið og auka öryggi Norður-Atlantshafssvæðisins…” og „að Bandaríkin ættu að aðstoða þessar þjóðir við að vinna að inngöngu í NATO, og að bjóða öðrum Evrópuríkjum aðild að NATO í framtíðinni.” (sjá texta stefnuskrárinnar hér).
Á þeim tíma var hið svokallaða Partnership for Peace (PfP) við lýði, sem var laust samstarf NATO og nánast allra Evrópuríkja, og einnig Rússlands og öðrum fyrrum Sovétlýðvelda (sem höfðu öll aðild að PfP). Hugmyndin var sú að öll þessi ríki gætu mögulega fengið aðild að bandalaginu í gegnum þetta samstarf. Það ætti ekki að útiloka nein ríki frá öryggissamstarfi (eins og varð raunin síðar), heldur vera með laust samstarf við þau öll (þ.m.t. Rússland) og bjóða þeim öllum upp á mögulega aðild að bandalaginu í framtíðinni í gegnum PfP samstarfið.
En austurstækkun NATO var sumsé stefnumál harðlínumanna og stríðshauka í Repúblikanaflokknum, sem er að finna í stefnuskrá þeirra fyrir þingkosningarnar 1994, og þessi stefna var tekin upp eftir sögulegan sigur þeirra í þeim kosningum, þegar Repúblikanar réðu yfir báðum þingdeildum það sem eftir var af forsetatíð Clinton (og einnig nær alla forsetatíð Bush þar á eftir).
En hvað er átt við með „stríðshaukum”? Það er hægt að orða það þannig, að það hefur aldrei verið neitt stríð sem þeim líkar ekki við. Þeir hafa verið kappsmenn fyrir öllum stríðum sem Bandaríkin hafa tekið þátt í.
Þessir sömu stríðshaukar í Repúblikanaflokknum gáfu ekki mikið fyrir PfP samstarfið (sem var byggt á hugmyndum sem voru runnar undan rifjum friðardúfna á þeim tíma þegar Kalda stríðinu var að ljúka og Sovétríkin að liðast í sundur). Heldur vildu þeir stækka NATO aggressívt í austurátt, á þann hátt sem er ekki hægt að túlka neitt öðruvísi en að það hafi beinst gegn Rússlandi (og það var vissulega gert í óþökk Rússlands sem andmælti öllum stækkunarlotunum harðlega). Þegar þessi stækkunarstefna var tekin upp eftir 1994, og fór að raungerast, var PfP samstarfið svo gott sem lagt til hliðar og hefur í raun verið dautt lengi, þó það sé ennþá til formlega og á blaði. En það hefur í raun ekki haft neina þýðingu í langan tíma, einkum eftir stóru stækkunarloturnar 1999 og 2004, sem er ekki hægt að túlka öðruvísi en að hafi beinst gegn Rússlandi, og samhliða því útilokað frekara öryggissamstarf NATO við Rússland. PfP var þannig leifar af eldri hugmyndum og samstarfi sem voru lagðar til hliðar eftir að nýjar og meira „hawkish” áherslur í Washington D.C. höfðu tekið við.
Það hvernig stækkunarstefna NATO var tekin upp í Washington D.C. í kjölfar sigurs Repúblikana í þingkosningunum 1994, hefur m.a. verið fjallað um af sagnfræðingnum Mary E. Sarotte í nýlegri bók Not One Inch (2021), sem segir frá sögu þessarar stækkunarstefnu NATO og hvernig hún var mótuð í Washington D.C. á 10. áratugnum:
Fyrsta stækkunarlota NATO (þegar Pólland, Tékkland og Ungverjaland voru tekin inn í bandalagið) átti sér stað árið 1999 í forsetatíð Clinton, þegar Repúblikanar réðu yfir báðum þingdeildum og voru leiddir af harðlínumanninum Newt Gingrich (sem hafði verið forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings nær alla stjórnartíð Clinton, eða fram til 1999). Það voru þeir (Repúblikanar) sem mótuðu þessa stefnu og höfðu lofað að stækka NATO í stefnuskrá sinni fyrir þingkosningarnar 1994. Þessi stefna var síðan einnig tekin upp af Demókrötum í stjórnartíð Clinton, en upp úr 1994 myndaðist „bipartisan” sátt beggja flokka um þetta mál (það má segja á nokkuð svipaðan hátt og hvernig Demókratar í stjórnartíð Clinton tóku upp nýfrjálshyggju-stefnumál Ronald Reagan eins og afregluvæðingu, skattalækkanir, niðurskurð á velferðarþjónustu o.s.frv.).
Þetta gerðist einnig á þeim tíma þegar Boris Yeltsin var forseti Rússlands, og Rússland stóð mjög höllum fæti eftir hrun Sovétríkjanna og efnahagskreppuna þar í landi á 10. áratugnum. Á þeim tíma voru einnig áhrif Washington D.C. í Rússlandi mikil, þar sem bandarískir ráðamenn höfðu stutt Yeltsin í forsetakosningunum 1996 og sagt hann vera „sinn mann” („Boris Yeltsin is our guy”), og efnahagsstefna Rússlands var á þeim tíma að mörgu leyti undir stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (sem er með sínar höfuðstöðvar í Washington D.C.). En þrátt fyrir það höfðu Rússar undir stjórn Yeltsin samt andmælt stækkunaráformum NATO harðlega frá upphafi, en voru máttlausir til að gera nokkuð til koma í veg fyrir það, og þurftu á endanum að kyngja því.
Neocons stíga fram á sjónarsviðið
Svo voru það einnig svokallaðir ný-íhaldsmenn (neocons), sem voru helstu talsmenn fyrir austurstækkun NATO. Í stuttu máli er ný-íhaldsstefna (neo-conservatism) hugmyndafræði byggð á svokölluðum „amerískum exceptionalisma”, þeirri hugmynd að Bandaríkin séu einstakt fyrirmyndarríki og hafi það sérstaka hlutverk að leiða heiminn. En eftir lok Kalda stríðsins hafa Bandaríkin einmitt tekið að sér hlutverk alheimslögreglu, eins og það sé í raun þeirra hlutverki að drottna yfir heiminum (sem er mjög í takt við ný-íhaldsstefnu og er í raun bara raungerving á þeirri hugmyndafræði). Ný-íhaldsmenn segjast vilja breiða út svokallað lýðræði – af amerískri fyrirmynd – út um allan heim, en eitt helsta kappsmál þeirra var einmitt innrásin í Írak 2003, sem var réttlætt sem „frelsun”, þ.e. að verið væri að koma á lýðræði í landinu. Þeir aðhyllast beinlínis að Bandaríkin hafi þann rétt að skipta sér af öðrum ríkjum og koma óvinveittum ríkisstjórnum (sem eru ekki hliðhollar þeim) frá völdum með valdi, svokallað „regime change”. Einnig að Bandaríkin eigi að geta háð mörg stríð á sama tíma, eins og þeir gerðu í Írak og Afganistan (mjög heppilegt fyrir hergagnaframleiðendur!), og eiga að knésetja alla mögulega andstæðinga sína áður en þeir fá tækifæri að rísa upp og skáka heimsyfirráðum eina lögmæta heimsveldisins á hnettinum. Þarna er verið að vísa til andstæðinga eins og Írak undir Saddam Hussein, Íran og Norður-Kóreu (sem Bush kallaði „Axis of Evil”), en núna eru helstu andstæðingarnir í síauknum mæli Kína og auðvitað Rússland. Ný-íhaldsmenn hafa verið gagnrýndir fyrir að aðhyllast grímulausa heimsvaldastefnu, meira að segja af „liberal” gagnrýnendum þeirra (eins og Ted Kennedy). Þannig að það ætti ekki að vera mikill vafi um að sú stefna sem þeir aðhyllast megi með réttu kalla heimsvaldastefnu (imperialism).
Þessi hugmyndafræði hefur verið boðuð og dreift út af hægrisinnuðum hugveitum eins og Project for the New American Century, American Enterprise Institute, Foreign Policy Initiative, Institute for the Study of War, Atlantic Council og Brookings Institution. Helstu hugmyndafræðingarnir (ideologues) sem hafa mótað þessa stefnu eru m.a. Elliott Abrams, William Kristol og Robert Kagan, sem hafa skrifað margar greinar og bækur, og hafa haft mikil áhrif á mótun utanríkisstefnu Bandaríkjanna ætíð síðan í forsetatíð Ronald Reagan. Þessir menn hafa allir gegnt stöðum í þessum hugveitum sem voru taldar upp hér að ofan. En blaðamaðurinn Chris Hedges bendir á það í nýlegri bók (2022, bls. 33-42) að þeir hafi allir einnig fengið mikið af fjárframlögum frá hergagnaframleiðendum. Það má þess vegna segja að þeir séu nokkurskonar vitsmunalegur armur military-industrial complex-sins.
Svo eru ákveðnir stjórnmálamenn og embættismenn einnig kenndir við ný-íhaldsstefnu, sem hafa gegnt lykilstöðum í ríkisstjórnum og séð um að innleiða þessa stefnu og koma henni í framkvæmd. Það eru aðallega Dick Cheney, Donald Rumsfeld og Paul Wolfowitz, sem höfðu allir gegnt embættum í ríkisstjórn Bush eldri (fram til 1992 þegar Clinton tók við), en þeir tóku síðan aftur við keflinu eftir að Bush yngri vann forsetakosningarnar 2000. Þessir menn gegndu einnig allir stöðum í hugveitunni Project for the New American Century (ásamt Kristol og Kagan). Annar þekktur neocon er Victoria Nuland (eiginkona Robert Kagan), sem var aðstoðarmaður Dick Cheney í ríkisstjórn Bush, en gegndi síðan einnig stöðu aðstoðarutanríkisráðherra í ríkisstjórnum Barack Obama og Joe Biden (og gerir enn). Sem sýnir að ný-íhaldsstefna fyrirfinnst bæði í Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum, og neocons hafa gegnt stöðum í ríkisstjórnum beggja flokka.
Það voru þessir „neocon ideologues” (Abrams, Kristol og Kagan) sem töluðu hvað ákafast fyrir austurstækkun NATO á 10. áratugnum, og gera enn, en þeir hafa einnig sagt það lengi að Bandaríkin eigi að staðsetja herlið sitt til Úkraínu (sjá Hedges, 2022, bls. 40). Og það voru þessir neocon stjórnmálamenn í háttsettum valdastöðum (Cheney, Rumsfeld og Wolfowitz) sem keyrðu áfram stækkunarstefnu NATO í stjórnartíð Bush. Þetta voru nákvæmlega sömu aðilarnir sem voru arkitektarnir á bakvið stríðið í Afganistan 2001, innrásina í Írak 2003 og allt „stríðið gegn hryðjuverkum“, og voru einnig mestu stuðningsmenn Apartheid-stjórnarinnar í Ísrael. Það er engin tilviljun að seinni stóra stækkunarlota NATO (þegar Eystrasaltsríkin, Rúmenía, Búlgaría, Slóvakía og Slóvenía voru tekin inn í bandalagið) átti sér stað árið 2004, ári eftir innrásina í Írak. Og það var á síðasta ári Bush-stjórnarinnar, árið 2008, sem að tilkynnt var á Búkarest-fundinum að „Úkraína og Georgía muni verða tekin inn í NATO [í framtíðinni]” („We agreed today that these countries will become members of NATO”). Sjá yfirlýsingu Búkarest-fundarins hér.
Leiðtogar Þýskalands og Frakklands settu sig hinsvegar á móti inngöngu Úkraínu í NATO á þeim tíma (árið 2008), vitandi það að þetta væri óábyrg stefna sem myndi leiða til átaka við Rússland. En það er bara sönnun þess hversu mikið Bandaríkin ráða í raun ferðinni í NATO, að þessi ákvörðun var keyrð í gegn af ríkisstjórn Bush, þvert á andmæli Þýskalands og Frakklands, en Bush-stjórnin (með neocons í fararbroddi) var greinilega að reka mikla harðlínustefnu í þessum málum. Þrátt fyrir andmæli og skiptar skoðanir innan NATO, þá verða greinilega alltaf hin aðildarríki bandalagsins („junior partners”) að lúta vilja Bandaríkjastjórnar og fylgja þeirra lokaákvörðunum.
Langtímastrategía
Þá er einnig vitað að austurstækkun NATO var óumdeilanlega hluti af langtímastrategíu Bandaríkjanna, og hafði verið ákveðin í Washington D.C. löngu áður en henni var raunverulega hrint í framkvæmd. Eins og Jeffrey Sachs útskýrir í nýlegri grein:
„Bandaríkin voru byrjuð að skipuleggja austurstækkun NATO snemma á 10. áratugnum, löngu áður en Vladímír Pútín varð forseti [árið 2000]. Árið 1997 lagði þjóðaröryggissérfræðingurinn Zbigniew Brzezinski fram tímalínu fyrir austurstækkun NATO sem var alveg merkilega nákvæm.”
Brzezinski var einn af helstu stefnumóturum Bandaríkjastjórnar, en hann hafði verið þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Jimmy Carter, og var m.a. heilinn á bakvið strategíuna um að knésetja Sovétríkin í Afganistan með því að senda vopn til Mujahideen uppreisnarmannanna þar í landi á 9. áratugnum. Þá er vel þekkt að hann hafði almennt mikil áhrif á mótun utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sjá t.d. bók hans The Grand Chessboard: American Primacy and Its Geostrategic Imperatives, sem kom út árið 1997. Sama ár skrifaði hann einnig grein í Foreign Affairs, þar sem kemur fram – að þá þegar – hafi stefnan verið ákvörðuð að taka Úkraínu inn í NATO í framtíðinni, þ.e. á árunum 2005 – 2010 (tímalínan sem Sachs vísar til), eins og raungerðist síðan á Búkarest-fundinum árið 2008 þegar tilkynnt var að Úkraína skyldi tekin inn í NATO.
Sögufölsun eða eftiráskýring?
Með hliðsjón af þessum staðreyndum, hvernig er eiginlega hægt að halda því fram að austurstækkun NATO hafi ekki verið ákveðin af Bandaríkjastjórn, og það hafi ekki verið hluti af þeirra langtímastrategíu? Þetta virðist (í versta falli) vera eintóm sögufölsun, eða (í besta falli) einhverskonar hentug eftiráskýring sem hefur orðið til vegna gullfiskaminnis fólks („historical amnesia“). Þetta er sem sagt söguleg mýta sem er til þess fallin að afneita því að Bandaríkin séu heimsveldi eða stundi heimsvaldastefnu. En það hefur einnig verið algengt mótíf í málflutningi þeirra sem aðhyllast „liberalisma” í alþjóðastjórnmálum og þessa svokölluðu „end of history“ kenningu eftir að Kalda stríðinu lauk, sem segir í stuttu máli að allri heimsvaldabaráttu hafi lokið með endalokum Kalda stríðsins, hinn „frjálsi heimur” (leiddur af Bandaríkjunum) hafi unnið lokasigur á öllum öðrum keppinautum og hafi þannig leitt öll slík mál til lykta. Enn og aftur er vandamálið við þá hugmyndafræði að hún er bara ekki í neinum tengslum við raunveruleikann, eins og staðreyndirnar leiða í ljós.
Reyndar viðurkenna ný-íhaldsmenn (neocons) að Bandaríkin séu heimsveldi, en þeir vilja bara meina að Bandaríkin séu „gott” og „velviljugt heimsveldi” (benign hegemon), sem séu bara með valdabrölti sínu að dreifa „frelsi” og „lýðræði” um allan heim.
„Góðviljaðir verndarar” eða kaldrifjaðir heimsvaldasinnar?
Það eru tvær mögulegar skýringar sem blasa við:
- Var það bara góðvilji þeirra Bush, Gingrich, Kagan, Cheney, Rumsfeld og co. að taka fyrrum austantjalds-ríki í Austur-Evrópu inn í NATO, sem einhverskonar svar við ákalli fólksins í þessum löndum um að fá vernd? Eru Bandaríkin sumsé ekki heimsveldi (empire) sem rekur heimsvaldastefnu (imperialism), heldur bara í besta falli svokallaður „benign hegemon”? Velviljug alheimslögregla, sem hefur bara þá góðviljugu stefnu að vernda frelsi, mannréttindi og breiða út lýðræði um allan heim?
- Eða… ætli Bush, Gingrich, Kagan, Cheney, Rumsfeld og co. – sömu aðilarnir sem stóðu að baki Íraksstríðinu 2003, 20 ára stríðinu í Afganistan, öllu „stríðinu gegn hryðjuverkum” (með tilheyrandi drónahernaði um allan heim og pyntingarprógrammi, sjá Abu Ghraib, Guantanamo, „CIA black sites”, „enchanced interrogation” og „extraordinary renditions” ), séu kannski ekkert voðalega góðir gæjar? Heldur voru þeir bara að hugsa um sérhagsmuni Bandaríkjanna og að framfylgja heimsvaldastefnu? Í staðinn fyrir að vera „góðviljaðir verndarar” að dreifa út lýðræði og frelsi, voru þeir kannski frekar kaldrifjaðir heimsvaldasinnar að breiða út áhrifasvæði og yfirráð Bandaríkjaveldis um allan heim með hernaðarmætti? (til að tryggja þannig yfirburðastöðu heimsveldisins á hnettinum sem „unipolar hegemon”). En á sama tíma og verið var að stækka NATO voru Bandaríkin einnig að byggja upp herstöðvar víða um heim, sem eru núna meira en 700 talsins. Frá lokum Kalda stríðsins og fram til stjórnartíðar Bush, byggðu Bandaríkin upp 125 nýjar herstöðvar í Mið-Austurlöndum (eins og Þórarinn Hjartarson hefur greint frá í annarri grein hér á Neistum). Ætli þessi mikla uppbygging herstöðva um allan heim sem Bandaríkin lögðust í eftir lok Kalda stríðsins, samhliða austurstækkun NATO, hafi líka bara snúist um velvild, frelsi og lýðræði?
Við getum því spurt okkur að lokum: Hvor skýringin er líklegri?
Heimildaskrá:
Cockburn, Andrew. (2021). The Spoils of War: Power, Profit and the American War Machine. Verso Books.
Hedges, Chris. (2022). The Greatest Evil is War. Seven Stories Press.
Sarotte, Mary E. (2021). Not One Inch: America, Russia, and the Making of Post-Cold War Stalemate. Yale University Press
Greinin birtist fyrst á Neistar 3.6.2023
One Comment on “Sagan sem ekki er sögð um austurstækkun NATO”
Þetta hefur alla tíð verið vitað!