Endurmenntun

frettinInnlent, Krossgötur, Þorsteinn SiglaugssonLeave a Comment

Eftir Þorstein Siglaugsson:

Þær fréttir bárust í gær að Kristjáni Hreinssyni heimspekingi og skáldi hefði verið sagt upp störfum hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, en þar hefur Kristján kennt vel sótt og vinsælt námskeið um skáldsagnaskrif.

Ástæðan var ekki slök frammistaða Kristjáns, heldur það að hann hefur opinberlega lýst þeirri skoðun sinni að kyn fólks sé því áskapað, en ekki eitthvað sem hægt er að ákveða að eigin geðþótta. Þegar þetta er ritað hefur háskólinn ekki brugðist við frásögn Kristjáns.

Brottrekstur Kristjáns Hreinssonar frá Endurmenntun HÍ er klassískt dæmi um það sem gerist þegar greinarmunurinn á umræðu í starfi og umræðu á opinberum vettvangi er ekki virtur. Þennan greinarmun taldi heimspekingurinn Immanúel Kant grundvallarforsendu upplýsts samfélags. Í ritgerð sem frá árinu 1784 nefnir hann dæmi um hvernig presti sé að vísu skylt að predika ritninguna meðan hann er í vinnunni, en að hvað sem því líði verði hann að njóta fulls frelsis til að gagnrýna kennisetningar og yfirvöld kirkjunnar opinberlega.

Fólk getur verið sammála eða ósammála þeirri skoðun Kristjáns Hreinssonar að kyn fólks sé því áskapað og að því verði ekki breytt með einfaldri yfirlýsingu. Vel má vera að einhverjir móðgist við að hann setji þessa skoðun fram og því verður ekki neitað að hún var sett fram með nokkrum þjósti. En erfitt er að sjá að það réttlæti að hann sé rekinn úr starfi sínu. Minna má á að um slíkt hafa fallið dómar. Réttur fólks til að tjá skoðanir sínar opinberlega er tryggður með lögum og stofnanir og fyrirtæki verða að virða það, hvað sem öllum þrýstingi móðgaðs fólks líður. Sérstaklega háskólar.

Það væri vel til fundið að Endurmenntun HÍ efndi nú til námskeiðs um umburðarlyndi og gagnrýna hugsun í opinberri umræðu. Þar mætti til dæmis útskýra fyrir nemendum að þótt einhver hafi aðra skoðun en maður sjálfur sé hann ekki sjálfkrafa illmenni. Miðað við þá öfugþróun sem við sjáum nú í samfélagsumræðunni er ljóst að margir hefðu gott af slíkri endurmenntun. Það væri við hæfi að leita í smiðju Immanúels Kant eftir lesefni.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 6. júní 2023

Skildu eftir skilaboð