Frumvarp Hönnu-Katrínar Friðriksson varðandi breytingar á almennum hegningarlögum, svokallað bælingarmeðferðarfrumvarp, er fallið um sjálft sig eftir að hafa fengið náðarhöggið frá Refsiréttarnefnd.
Á vef Alþingis má sjá að í fyrradag skilar nefndin áliti sínu, en afar tvísýnt var hvort málið fengi afgreiðslu fyrir þinglok.
Athygli vekur að Refsiréttarnefnd tekur undir öll sjónarmið Samtakanna 22 sem börðust hvað mest gegn frumvarpinu.
Samtökin 22 sem eru ný hagsmunasamtök samkynhneigðra skiluðu af sér ítarlegri umsögn um frumvarpið, og hvernig allt frumvarpið skorti allar skilgreiningar á því sem því var ætlað að banna.
Samtökin vöruðu við því að heilbrigðisstarfsfólk, starfsmenn í uppeldisgeiranum og jafnvel foreldrar gætu gerst sek um refsiverða háttsemi skv. frumvarpinu eins og það var lagt fram.
Í samtali við Fréttina sagði Eldur Ísidór, sem er formaður samtakanna að honum sé afar létt: „Já, þetta er mikill og góður varnaðarsigur fyrir okkur. Það olli miklu fjaðrafoki í nóvember þegar við skiluðum umsögninni okkar og mikil andúð í okkar garð víðs vegar úr hinsegin samfélaginu. Hins vegar látum við það ekkert á okkur fá.“
Furðu lostinn yfir starfsháttum þingsins og vinnubrögðum
„Í fyrsta lagi lagði Hanna-Katrín þetta frumvarp fram á það síðasta ári og við byrjum þá undir formerkjum LGB teymisins að gagnrýna það og benda á nákvæmlega þessa hluti sem við og Refsiréttarnefnd höfum nú gert. Það var ekkert við okkur talað, og þingmaðurinn blokkar okkur, og mig, og enginn áhugi er á okkar sjónarmiðum. Frumvarpið fékk ekki afgreiðslu í fyrravor og var svo endurflutt í haust, alveg óbreytt, sem er algjörlega galið. Þá gátum við ekki setið á okkur og urðum að gera eitthvað í málinu,“ segir Eldur.
Eldur gagnrýnir jafnframt að nefndarfundurinn sem þau voru boðuð á, var með dags fyrirvara sem er skammur tími þegar smala þarf saman fagfólki líkt og sérfræðingum í hegningarlögum, heilbrigðisstarfsfólki og annarra hlutaðeigandi.
Þykir miður meðvirkni fjölmiðla á borð við RÚV og Vísir
„Já, það er lýjandi á köflum að sitja undir því að ríkisfjölmiðilinn fjalli um okkur, jafnvel segi ósatt og svari okkur svo ekki þegar við sendum þeim athugasemdir. Við erum "the underdog" í þessu. Við erum ekki með peningasmaskínu, fjölmiðlarisa og hið opinbera á bak við okkur. Við erum bara hommar og lesbíur sem finnst þessi regnbogafasismi vera kominn langt út af sporinu og út í algjörar öfgar. Þetta er ekki mannréttindabarátta lengur. Þetta er valdabarátta. Því fyrr sem fólk áttar sig á því, því betra, segir Eldur að lokum.