Af hverju geta Danir brennt rusl í miðri borg en Íslendingar ekki?

frettinErlent, Geir Ágústsson, Innlent5 Comments

Eftir Geir Ágústsson verkfræðing:

Einhver herferð gegn brennslu á rusli virðist vera í gangi hjá yfirvöldum. Gott og vel, það skiptir máli hvernig blönduðum úrgangi er fargað, hvort heldur með urðun eða brennslu, en Íslendingar ættu nú samt að geta brennt ruslið sitt sjálfir í stað þess að senda það á flutningaskipum erlendis til brennslu þar, eða hvað?

Í Danmörku er rusli brennt til að framleiða rafmagn og hita. Krúnudjásnið er sennilega Amager Bakke, sem er risavaxin sorpbrennsla sem brennir bæði innlendu og innfluttu rusli. Úr brennslunni streymir hvítur og lyktarlaus reykur. Á húsinu er manngerð skíðabrekka.

Ég get ekki ímyndað mér að Danir séu slakari í umhverfisverndinni en Íslendingar og heldur ekki að þeir taki vægar á losun skaðlegra efna í andrúmsloftið. Af hverju mega Danir þá brenna rusli og nýta það eins og auðlind en á Íslandi hreykja yfirvöld sér af því að hafa lokað á slíkt?

Eru Íslendingar mögulega að niðurgreiða raforkuframleiðslu fyrir Dani með því að útvega þeim ódýrt hráefni?

Gleymum því ekki að brennsla á rusli er ljómandi liður í hringavitleysunni sem kallast hringrásarhagkerfi. Koltvísýringur streymir út í andrúmsloftið og eflir vöxt gróðurs. Askan sem fellur til er meðhöndluð og meðal annars hægt að ná úr henni málum til endurvinnslu og fylliefni í vegi og stíga, að sögn.

Kannski er stærðargráðan ekki næg fyrir slíka starfsemi á Íslandi, og kannski borga útlendingarnir fyrir ruslið frá Íslandi, og kannski er ódýrast að sigla öllu úr landi, en það má einhver gjarnan útskýra það fyrir mér og öðrum. Því í dag er eins og meðhöndlun á sorpi og öðru sem fellur til á Íslandi sé frekar í ætt við trúarathöfn sem má kosta hvað sem er en lausnamiðaða hugsun.

5 Comments on “Af hverju geta Danir brennt rusl í miðri borg en Íslendingar ekki?”

  1. Ætli það sé nokkuð mál fyrir Íslendinga frekar en aðra eð géta brennt rusl í miðri borg og bæjum ef því er að skipta…
    En það kæmi mér ekki á óvart að það er einhver sem kippir í spottann og hefur hag af flokkuninni eins og hún er í dag….

  2. Ég held að þetta snúist um hagkvæmni stærðarinnar. Til að það yrði mögulegt að brenna sorpi miklu magni á Íslandi, þá þyrfti sennilega að flytja inn sorp til brennslu frá Danmörku eða Svíþjóð. Hér voru reknar litlar sorpbrennslur út á landi, en reglur frá ESB (Danmörku m.a.) urðu til þess að það varð að loka þeim vegna þess að ekki var hægt að setja á svo litlar sorpbrennslur viðeigandi mengunarvarnarbúnað. T.d. var mjólkin hjá bónda í Skutulsfirði orðin eitruð vegna mengunar frá Sorpbrennslu Ísafjarðar. Margar skýrslur voru sendar frá Efnagreiningum Keldnaholti á sínum tíma til Umhverfisstofnunar, en þessu var haldið leyndu af yfirvöldum og undanþága veitt að menga áfram, þangað til fjölmiðlar komust í málið. Annars er sorpi enn brennt á Íslandi á einum stað á Suðurnesjum hjá Kölku.
    https://www.kalka.is/

  3. Hverjum er ekki skítsama hvað danir gera, gleðilegan þjóðhátíðardag Íslendinga.

Skildu eftir skilaboð