Eftir Þorgeir Eyjólfsson eftirlaunaþega:
„Að bólusetja eldri borgara með mRNA-efnunum sýnir ekki varkárni“
Hjá stjórnvöldum og hluta landsmanna er tilhneiging til að neita að horfast í augu við þá staðreynd að sterkar vísbendingar eru fyrir hendi um orsakasamband milli bólusetninga gegn Covid-19 og dauðsfalla. Hér fylgja tvær vísbendingar. Önnur er þýsk og byggist á ítarlegri tryggingafræðilegri greiningu. Hin vísbendingin er samanburður á tölum Landlæknis og Evrópsku hagstofunnar:
1. Þýsk rannsóknarritgerð sem birt var 23. maí sl. greinir frá tryggingafræðilegri athugun á fjölda umframdauðsfalla í Þýskalandi á árunum 2020 til 2022 og að hvaða marki Covid-19-vírusinn átti þar aðild að máli. Í niðurstöðum kemur fram að eitthvað gerðist vorið 2021 sem leiddi til skyndilegrar og viðvarandi fjölgunar dauðsfalla. Rannsakendur telja ástæðu til að horfa sérstaklega á sambandið á milli mRNA-bólusetninganna og dauðsfallanna til að finna skýringu á miklum fjölda umframdauðsfalla (hlekk á þýsku rannsóknina er að finna í lok greinarinnar).
2. Það er víðar en í Þýskalandi sem böndin berast að bóluefnunum þegar leitast er við að finna skýringu á miklum fjölda umframdauðsfalla. Á línuritinu sést hliðstæð þróun hérlendis og í Þýskalandi. Súlurnar bláu sýna fjölda bólusetninga og rauða línan þróun umframdauðsfalla sem fjölgar fjórum til sex vikum eftir bólusetningu. Þegar fjöldi bólusetninga og hlutfall umframdauðsfalla eru skoðuð frá upphafi bólusetninga sjást sterkar vísbendingar um orsakasamband á milli örvunarsprautnanna og umframdauðsfallanna.
Heilbrigðisráðherra hefur rafrænu gögnin sem með greiningu geta skorið úr um orsakasamband bólusetninga og dauðsfalla með óyggjandi hætti. Gagnavinnslan yrði ópersónugreinanleg. Greininguna getur hann látið framkvæma með því m.a. að bera saman upplýsingar um innlagnir á sjúkrastofnanir og hugsanleg dauðsföll þeirra landsmanna sem þáðu bólusetningar við sömu upplýsingar um þá sem ekki voru bólusettir.
Fleiri upplýsingar mætti nálgast með vinnslunni. Til að mynda hvernig barnshafandi, fóstrum og nýburum vegnaði í kjölfar bólusetninga í samanburði við verðandi mæður sem afþökkuðu bólusetningu. Aðgangur að gagnagrunninum verði opinn að vinnslu afstaðinni.
Að bólusetja eldri borgara með mRNA-efnunum eftir sterkar vísbendingar um orsakasamband bólusetninga og dauðsfalla sýnir ekki varkárni. Mikilvægt er að hinkra með frekari bólusetningar meðan gengið er úr skugga um skaðleysi mRNA-bóluefnanna.
Þýsku rannsóknina má sjá hér.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2023.