Skáldið kveður Egil Helgason hafa höggvið til sín: „Þeir linna ekki látunum“

Erna Ýr ÖldudóttirBókmenntir, Íslenskar bækur, Samfélagsmiðlar, TjáningarfrelsiLeave a Comment

Skáldið Kristján Hreinsson virðist aldeilis hafa sópað rykinu af staðinni málefnaumræðu, að minnsta kosti í þeim kreðsum sem telja sig öðrum umkomnari þess, að fá að hefja máls.

Facebook-pistill hans um vitlaust fólk í réttum líkama olli fjaðrafoki sem ekki sér fyrir endann á, en honum var sagt upp kennarastöðu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í framhaldinu.

Kristján Hreinsson, rithöfundur og skáld.

Á fésbókarsíðu sinni í dag segir Kristján að Egill Helgason, þáttastjórnandi hjá Ríkisútvarpinu hafi nú glefsað í sig með þeim orðum að skáldið „hafi engin völd“ sé ekki í „forréttindastöðu“ og að „vettvangur hans sé smár“.

Fréttin fékk leyfi til að birta efni færslunnar:

„ÞEIR LINNA EKKI LÁTUM

Sá ágæti fjölmiðlamaður, Egill Helgason, segir á fésbókarsíðu Guðmundar Andra Thorssonar: „Kristján Hreinsmögur eins og hann kallaði sig hefur alltaf verið á jaðrinum og í raun ekki notið viðurkenningar. Hann hefur engin völd og vettvangur hans er smár. (…) Hann er algjörlega laus við að vera í forréttindastöðu - hefur strögglað alla sína skáldævi sem er orðin býsna löng. Ég get ekki séð að það færi honum neitt sérstakt að vera hvítur, miðaldra og með kynfæri karlmanns. Og svo hitt - hvernig nennir fólk að elta ólar við skoðanir eins manns sem er ekkert sérlega þekktur, hefur lítil áhrif og kennir eitt agnarsmátt námskeið.“

Þeir eru margir sem ráðast að mér, einkum fyrir það sem ég hef ekki skrifað. Fyrir þá sem vilja gera lítið úr lífsstarfi mínu, er kannski rétt að geta þess að u.þ.b. 80 titlar eru uppseldir, sumar bækur hafa selst í þúsundum eintaka. Ég hef náð að sanka að mér sex háskólagráðum, hef selt u.þ.b. 20.000 eintök af ljóðabókum, ég á u.þ.b. 1000 útgefna söngtexta, meira en 80 skruddur og hef samið tækifærisljóð í hundraða tali, hef sent frá mér 2-300 lög. Auk þess hef ég skrifað ábyggilega 500 blaðagreinar, slatta af leikritum, ritstýrt á annan tug bóka og fleira hef ég eflaust gert. Á næsta ári eru liðin 50 ár frá útkomu minnar fyrstu bókar.

Ég vil hér nota tækifærið og þakka Agli Helgasyni fyrir að vekja athygli á smæð minni og valdleysi. Hann opinberar að ég tilheyri ekki klíkunni sem þarf völd og forréttindi til að ná til lesenda. Takk Egill!

Hið merkilega er að Egill Helgason hefur leyfi til að láta svona orð falla og RÚV mun ekki einu sinni veita honum tiltal.“

Skildu eftir skilaboð