Hrönn Sigurðardóttir, fitnesskona og eigandi BeFit Iceland, var greind með mjög sjaldgæft krabbamein í maí á síðasta ári. Meinið hefur síðan dreiftst um líkamann.
Í ítarlegu viðtali DV segir Hrönn mikinn seinagang hafa verið í heilbrigðiskerfinu áður en hún fékk að vita um veikindin. Hún var í fyrstu send heim og sögð vera við góða heilsu. Í maí 2022 varð hún síðan fyrir miklu áfalli þegar hún greindist með krabbamein í nýrnahettum. Fyrir þann tíma sagðist hún hafa fundið fyrir einkennum og hafi byrjað að leita sér læknishjálpar í nóvember 2021. Hrönn átti að byrja í lyfjameðferð í janúar 2023, en ákvað heldur að fara í annars konar meðferð í Danmörku.
„Við ákváðum að fara til Danmerkur í háskammta C-vítamín meðferð, sem er mjög góð meðferð fyrir mörg mein. Mér leið rosalega vel úti, þetta var góð meðferð og ég var miklu öflugri og hraustari. En svo fann ég eitthvað hjá lifrinni þegar ég þreifaði á þessu svæði, ég fann að það væri eitthvað skrýtið og ég vildi fara heimm.“ segir Hrönn. Við skoðun hér heima fundu læknar æxli á lifrinni.
Vinkonur safna fyrir meðferð á Spáni
Hrönn er nú á leið í meðferð til Spánar og segist finna mikinn meðbyr meðal meðferðaraðila á Spáni og segist trúa þúsund sinnum meira á óhefðbundnar lækningar heldur en lyfjameðferð. „Virkar meðferðin? Það veit enginn. Það hefur ekki virkað hérna heima, annað hvort ligg ég hérna og bíð eftir að drepast, eða stend upp og kem mér eitthvert og reyni að finna einhverja lausn. Og ég trúi þúsund sinnum meira á svona óhefðbundnar leiðir heldur en lyfjameðferð.“ Vinkonur Hrannar hafa nú hrundið af stað söfnun fyrir meðferðinni.
Veikindi af Covid-sprautum pólitískt málefni
Hrönn segir jafnframt í viðtali DV að hún sé sannfærð um að Covid sprautuefnið hafi orsakað meinið, en finnst erfitt að ræða það. „Það er svolítið erfitt að segja frá því. En ég fór í eina sprautu, Janssen, og mér fannst ég strax eftir það verða mjög furðuleg,“ segir hún og bætir við að hún viti hversu umdeilt og pólitískt þetta málefni sé, en þetta sé hennar upplifun og trú á eigin veikindum.
„Læknirinn minn úti sagði það, sýndi mér það bara á tölvuskjá. Hann tók blóð og setti í smásjá og sýndi mér á skjánum. Hann benti mér á að þarna væru hvítu blóðkornin að drepa hvert annað frekar en að reyna að drepa krabbameinsfrumurnar.“ Hrönn segir að læknirinn hafi bent á bóluefnið sem sökudólg og fullyrt að hann hafi verið í þessu í mörg ár og hafi ekki séð svona krabbamein fyrr en að bólusettir fóru að koma til hans. „Það er virkilega mín trú að þetta hafi verið sprautan,“ segir Hrönn.
Þess má geta að Janssen sprautuefnið var tekið úr umferð í Danmörku vorið 2021. Áður hafði Danmörk líka tekið AstraZeneca úr umferð. Það var haldið áfram að gefa Janssen hér á landi en efnið er ekki lengur í boði í dag. Íslenska ríkið hefur fargað 525 þúsundum skammta af Covid-sprautuefnum.
Eiga rétt á skaðabótum frá íslenska ríkinu
Alþingi samþykkti fyrir rúmum tveimur árum lagabreytingar um bótarétt þeirra sem verða fyrir tjóni af völdum Covid bóluefna. Markmiðið með breytingunum var að treysta skaðabótaréttarlega stöðu þeirra sem kunna að verða fyrir líkamstjóni við eða í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19-sjúkdómnum, vegna bóluefna sem hérlend heilbrigðisyfirvöld leggja til. Þeir sem telja sig hafa hlotið skaða af sprautunum eiga því rétt á skaðabótum sem hægt er að sækja um á vef Sjúktratrygginga Íslands. Framleiðendur bóluefnanna eru lausir undan allri ábyrgð af skaða og flest ríki heims tóku á sig ábyrgðina.
Sjúkratryggingum Íslands hafa borist tugir umsókna um skaðabætur eftir svonefnd „bóluefni“ fyrir Covid en enn sem komið er hefur stofnunin ekki greitt út krónu í bætur samkvæmt nýlegum upplýsingum frá stofnuninni. Örfáar umsóknir hafa verið samþykktar, en engar greiðslur átt sér stað. Flest ríki hafa fyrir þó nokkru byrjað að greiða út bætur, þar á meðal Danmörk.
Lyfjastofnun hafa borist 6,197 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19, þar af 307 alvarlegar.
Varð fyrir ritskoðun eftir að nefna bóluefnið
Hrönn birti "story" í febrúar sl. á Facebook, Befit Iceland, og Instagram síðum sínum þar sem hún er með mörg þúsund fylgjendur. Þar sagði hún frá því að aldrei áður hafi neitt amað að henni og að hún skrifi veikindin á Covid sprauturnar. „Það var aldrei neitt að mér, aldrei neitt að...ég segi það og skrifa það á helvítis Janssen [Covid bóluefnið], ég segi það ... „uss“ ekki meira í bili,“ sagði hún.
Ekki löngu síðar sagði Hrönn frá því að hún hafi verið ritskoðuð á samfélagsmiðlum í kjölfarið, verið sett í e.k. skuggabann. Henni hafi borist fjölda ábendinga um að fólk fyndi sig ekki á samfélagsmiðlum, þ.e.a.s. ef nafn hennar var slegið inn í leitina, kom hún ekki upp.
Þeir sem vilja styrkja söfnunina geta lagt inn á reikning 0525-14-401254 og kennitölu 240878-3809.
One Comment on “Hrönn segir veikindi eftir Covid-sprautur pólitískt og umdeilt mál”
Það kallast VAIDS eða Vaccine Acquired Immunodeficiency Syndrome og er ein af mörgum gjöfum þessara blessaða bóluefnis.
Ef maður prufar að skrifa þetta orð in í google kemur grein eftir grein að þetta fyrirbæri er ekki til og að það sé buið að “Fact checka” þetta.
Alltaf þegar ég fæ bara eina hlið á máli við leit leyfi ég mér að efast um hversu trúverðugt það er.