Hunter Biden, sonur Bandaríkjaforseta, hefur játað að hafa ekki greitt tekjuskatt og viðurkennt að hafa átt byssu. Fimm ára rannsókn á málinu er nú lokið.
Ólíklegt er að Hunter verði dæmdur í fangelsi en samkomulag um játningu sektar þarf samþykki alríkisdómara.
Forsetinn og eiginkona hans, Jill Biden, hafa sent frá sér tilkynningu í kjölfar fréttanna.
„Forsetinn og forsetafrúin elska son sinn og styðja hann á meðan hann heldur áfram að byggja upp líf sitt.“ Þetta sagði Ian Sams, talsmaður Hvíta hússins, og bætti því við að frekari upplýsingar yrðu ekki veittar af hálfu forsetahjónanna.
Skilaði ekki skattframtali
Samkvæmt ákærunum skilaði Hunter ekki skattframtali á réttum tíma með tekjum upp á meira en eina og hálfa milljón bandaríkjadollara fyrir árin 2017 og 2018, sem eru um 208 milljónir króna.
Fyrir þessi ár skuldaði hann rúmlega 100.000 dollara í skatt af tekjunum. Svikin varða við allt að eins árs fangelsi og sekt að hámarki 100.000 dollara.