Skyndiupphlaup vegna hvala

frettinBjörn Bjarnason, Innlent, StjórnmálLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Morgunblaðið, laugardag 24. júní 2923.
Vik­an hef­ur ein­kennst af stórviðburðum á stjórn­mála­sviðinu. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn skipti um dóms­málaráðherra eins og um var samið á vett­vangi þing­flokks hans við stjórn­ar­mynd­un­ina í lok nóv­em­ber 2021. Við ráðherra­skipt­in féllu þung orð um út­lend­inga­mál­in. 
Urðu þau til þess að opna fúkyrðaflaum yfir sjálf­stæðis­menn frá Jó­dísi Skúla­dótt­ur, þing­manni Vinstri grænna í NA-kjör­dæmi og 6. vara­for­seta alþing­is.

Þingmaður­inn sagði þriðju­dag­inn 20. júní á Face­book að til að beina at­hygli þjóðar­inn­ar frá ráðherra­skipt­un­um og fylg­istapi sam­einuðust sjálf­stæðis­menn „í að velta sér upp úr rasíska drullupoll­in­um í von um að geta kroppað inn ein­hver pró­sent frá syst­ur­flokk­um sín­um í út­lend­inga­mál­um, Miðflokki og Flokki fólks­ins“.

Jó­dís í VG kall­ar ráðherra­skipt­in „darraðardans“ eins og ein­hver æs­ing­ur hafi orðið í kring­um þau. Svo var ekki. Þau fóru skipu­lega og friðsam­lega fram. Jón Gunn­ars­son, frá­far­andi dóms­málaráðherra, sagði hins veg­ar hér í blaðinu 20. júní að rík­is­stjórn­ar­sam­starfið gæti ekki haldið áfram eins og það endaði í vor. Það reynd­ist VG „erfitt“ að sitja í rík­is­stjórn þegar huga þyrfti að ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um, mik­il­væg­um aðgerðum í orku­mál­um og gera breyt­ing­ar á út­lend­inga­mál­um.

Jón vakti þarna máls á al­kunn­um ágrein­ings­efn­um milli Sjálf­stæðis­flokks­ins og VG sem tek­ist hafði að setja í sam­starfs­far­veg við stjórn­ar­mynd­un­ina. Öll mál hafa hins veg­ar sín þol­mörk. Um það er ástæðulaust að þegja.

Hvalbátur á heimleið með feng sinn (mynd: mbl.is)

Hvala­málið er eitt þess­ara mála. Um veiðar á hvöl­um er ekki aðeins deilt milli flokka held­ur einnig inn­an þeirra. Reynsl­an sýn­ir að þar er ekki síður nauðsyn­legt að stíga var­lega til jarðar en til dæm­is í út­lend­inga­mál­um.

Þriðju­dag­inn 20. júní, dag­inn áður en hval­veiðar sum­ars­ins skyldu hefjast, lagði Svandís Svavars­dótt­ir mat­vælaráðherra fram minn­is­blað í rík­is­stjórn þar sem vísað var í fagráð um vel­ferð dýra sem taldi að „við veiðar á stór­hvel­um [væri] ekki hægt að upp­fylla þau skil­yrði sem nauðsyn­leg eru til að tryggja vel­ferð dýra við af­líf­un“. Aðferðin við veiðar á stór­hvel­um „sam­ræm­ist ekki ákvæðum laga nr. 55/​2013 um vel­ferð dýra“, seg­ir fagráðið. Eft­ir fram­lagn­ingu minn­is­blaðsins tók ráðherr­ann af skarið um að „stöðva hval­veiðar tíma­bundið“. Er bannið tíma­bundið að sögn til að gætt sé meðal­hófs­reglu stjórn­sýslu­laga. Ráðherr­ann vill veiðarn­ar feig­ar.

Stöðvuð er veiði á einni teg­und hvala, langreyði. Í svari við fyr­ir­spurn á alþingi 5. júní 2023 sagði Svandís Svavars­dótt­ir að ráðherr­ar gætu „ein­ung­is fram­kvæmt það sem lög­gjaf­ar­valdið hef­ur gefið þeim vald með lög­um til að gera og sam­kvæmt ráðgjöf sem lög­fræðing­ar mat­vælaráðuneyt­is­ins hafa gefið mér er ekki að finna skýra laga­stoð fyr­ir stjórn­sýslu­viður­lög­um, svo sem aft­ur­köll­un leyf­is að svo búnu.“

Ráðherr­an­um og ráðgjöf­un­um hef­ur nú snú­ist hug­ur þótt lag­aramm­inn sé sá sami og hann var fyr­ir nokkr­um vik­um. Hvað breytt­ist? Fagráð sagði að gam­al­reynd aðferð við hval­veiðar sem batnað hef­ur í ár­anna rás jafn­gilti dýr­aníði. Ráðherr­an­um og ráðgjöf­un­um þótti álitið skyndi­lega veita þeim eins kon­ar neyðarrétt­ar­heim­ild. Kem­ur stjórn­sýslu­leg sviðsetn­ing í stað laga­heim­ild­ar?

Ráðherr­ann vitn­ar í meðal­hófs­reglu stjórn­sýslu­lag­anna. Hvað með rann­sókn­ar­regl­una í 10. grein sömu laga? Af hæsta­rétt­ar­dóm­um má ráða að virðing­ar­leysi ráðherra á rann­sókn­ar­skyld­unni sé af­drifa­ríkt.

Í grein­inni seg­ir: „Stjórn­vald skal sjá til þess að mál sé nægj­an­lega upp­lýst áður en ákvörðun er tek­in í því.“ Svandís fékk álit fagráðsins 19. júní og 20. júní ákveður hún að stöðva veiðar sem all­ir viðkom­andi töldu að hæf­ust 21. júní. Veiðarn­ar höfðu verið und­ir­bún­ar í trausti þeirra orða ráðherr­ans að þær yrðu ekki stöðvaðar án þess að alþingi samþykkti laga­breyt­ingu.

Fjöldi fólks hef­ur búið sig und­ir hval­veiðar og allt sem þeim teng­ist í sum­ar. Hefði ráðherr­ann átt að skoða bet­ur af­leiðing­ar ákvörðunar sinn­ar. Það mátti meðal ann­ars leggja mat á hvaða kostnaður kynni að leggj­ast á rík­is­sjóð, tapaði hann skaðabóta­máli vegna stöðvun­ar­inn­ar. Óðag­otið eitt við stjórn­sýslu­ákvörðun­ina er ámæl­is­vert fyr­ir utan að ekki hef­ur verið bent á neina ótví­ræða laga­heim­ild fyr­ir henni.

Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS) sögðu ljóst að deil­an um veiðar á langreyðum sner­ist ekki leng­ur um hvað væri for­svar­an­legt út frá sjálf­bærri nýt­ingu, held­ur hvað fólki fynd­ist.

Í fe­brú­ar 2011 gustaði mjög um Svandísi Svavars­dótt­ur, þáv. um­hverf­is­ráðherra, þegar hún tapaði máli í hæsta­rétti eft­ir að hafa neitað að staðfesta aðal­skipu­lag Flóa­hrepps. Hún taldi Lands­virkj­un hafa haft óeðli­leg áhrif á skipu­lags­vinn­una með greiðslum á hluta kostnaðar við hana. Þá sagðist Svandís ekki þurfa að axla neina ábyrgð á lög­broti af því að allt sem hún gerði væri póli­tík, hún væri í stjórn­mál­um og hefði hags­muni um­hverf­is og nátt­úr­unn­ar að leiðarljósi í ákvörðunum sín­um. Hvorki í stjórn­ar­skrá né í lög­um er ráðherra veitt slíkt svig­rúm.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son sagði á alþingi 15. fe­brú­ar 2011 að dóm­ar héraðsdóms og hæsta­rétt­ar sýndu að Svandís hefði ekki farið að lög­um. Það hefði ekk­ert með um­hverf­is­mál að gera. „Ráðherra braut á stjórn­skipu­leg­um rétti sveit­ar­fé­laga varðandi skipu­lags­mál,“ sagði Sig­urður Ingi og spurði hvort Svandís ætlaði að segja af sér.

Ráðherr­ar hafa áður tekið ein­kenni­leg­ar ákv­arðanir vegna hvala. Þetta skyndiupp­hlaup hef­ur þó sér­stöðu vegna lög­leys­unn­ar.

Skildu eftir skilaboð