Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Við stöndum sem þjóð í þakkarskuld við hugmyndasmiðinn að baki Marshall-aðstoðinni og mættum vel minnast hans öðru hverju. George Kennan var bandarískur diplómat og sagnfræðingur. Með hinu „langa símskeyti“ frá Moskvu 1946 og frekari skrifum sannfærði hann stjórn Trumans um að eðli Sovétríkjanna væri útþenslustefna og vinna bæri gegn áhrifum þeirra með öllum ráðum og var hugmyndafræði hans ráðandi á kaldastríðstímanum.
Með því að þiggja Marshall-aðstoðina samþykktum við að taka okkur stöðu með Bandaríkjamönnum: með lýðræði, með einstaklingsfrelsi, gegn alræði og kúgun – gegn kommúnismanum.
Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur og ógn stafaði ekki lengur af kommúnismanum hefðum við sjálfkrafa átt að losna undan skilmálum Marshall-aðstoðarinnar og átt að geta fetað okkar eigin veg undan áhrifum BNA – veg friðar og hlutleysis, svo sem hæfir smáþjóð – en það gerðist ekki. Fjölmiðlar vorir flytja fréttir sem værum við eitt ríkja BNA, RÚV sérstaklega, og alls kyns framandi hugmyndafræði þaðan hefur stungið sér niður, svo sem að kynin séu fleiri en tvö og að ekki megi gagnrýna hugmyndafræði „minnihlutahópa“.
Að Sovétinu liðnu hefði ekki átt að vera þörf fyrir NATO, og í ljósi sögunnar hefði verið heillavænlegast að leggja það niður samhliða og þá komum við aftur að George Kennan. Árið 1997 birtist í New York Times grein hans „A Fateful Error“ þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að útþensla NATO, sem þá var á teikniborðinu, muni hafa alvarlegar afleiðingar.
Honum fannst sorglegt að sjá þær vonir er kviknuðu er kalda stríðinu lauk settar á ís sakir mögulegra átaka í ófyrirsjáanlegri framtíð. Einnig sá hann fyrir sér að ógnin frá NATO myndi hafa neikvæð áhrif á lýðræðisþróun í Rússlandi, vera sem olía á eld þjóðernissinnaðra Rússa sem hafi óbeit á vestrænum áhrifum og þvinga Rússa til að leita sér stuðnings hjá þjóðum óvinveittum Bandaríkjunum.
Ári síðar birtist viðtal við hann, líka í NYT, þar sem hann segist halda að nýtt kalt stríð sé í uppsiglingu og það sé skelfilega sorglegt að Bandaríkjamenn ætli nú að snúa baki við Rússum, sem hafi sjálfir og án blóðsúthellinga losað sig undan oki sovéttímans. Í þessu viðtali er hann mjög afdráttarlaus og segir að útþenslustefna NATO muni leiða til stríðs við Rússa og þá muni útþenslusinnarnir segja: „Við sögðum ykkur það. Svona eru Rússar.“
En nú var ekki hlustað og stjórn Bills Clintons bætti við þremur nýjum löndum í NATO 1999. Fleiri og fleiri bættust við en árið 2007 lýsti Pútín því skorinort yfir að Rússar myndu ekki leyfa frekari stækkun. William J. Burns (nú hjá CIA) kom þeim skilaboðum til skila í skeyti sínu „Nyet Means Nyet“ þar sem hann sagði að þrýstingur á að Úkraína gengi í NATO gæti valdið skiptingu landsins í tvennt. En enn var ekki hlustað og 2008 lýsti NATO því yfir að til stæði að bæta Georgíu og Úkraínu í hópinn. Í ágúst það ár réðust Rússar inn í Georgíu til að stöðva þau áform en Úkraína slapp því leiðtogar þar hættu við inngöngu.
Bandaríkjamenn hafa lengi seilst til áhrifa í Úkraínu. Svo snemma sem 2006 birti BBC grein um vafasamar stofnfrumurannsóknir þeirra þar. Pentagon var þar einnig með fjöldann allan af líftæknirannsóknarstofum. Ýmislegt sem ekki leyfðist í henni Ameríku virðist hafa leyfst þar.
Árið 2014 var löglegri stjórn Úkraínu steypt með aðstoð Bandaríkjamanna. Til er upptaka þar sem Victoria Nuland og bandarískur sendiherra heyrast ræða um hver skuli leiða nýju stjórnina og fljótt hófst stríð gegn þeim íbúum austurhéraðanna sem ekki vildu sætta sig við hina nýju stjórnarherra og NATO fór á fullt að vígbúa Úkraínumenn og samhæfa hermenn þeirra NATO.
Eftir að ljóst varð að Rússar hygðust halda sjálfstæði sínu en ekki gangast undir þá alheimsstjórn er reynt er að koma á þá hófst ófrægingarherferð í vestrænum fjölmiðlum. Við höfum svo sem séð slíkt áður. Pútín var ekki einu sinni boðið á 75 ára veisluhöld í tilefni D-dagsins þrátt fyrir að 25 milljónir íbúa Sovétríkjanna hafi týnt lífi á baráttunni gegn nasismanum.
Síðustu árin hefur NATO haldið fjölda heræfinga árlega nálægt landamærum Rússlands, meðal annars árlega á Svartahafi og sumarið 2021 leiddi Úkraína heræfingu 32 landa þar.
Í lok ársins 2021 voru Rússar búnir að fá nóg af ógnum, móðgunum og ögrunum og kröfðust stefnubreytingar en Blinken utanríkisráðherra sagði hana ekki koma til greina. Rússar skyldu bara sætta sig við að hafa öll þessi óvinveittu NATO-ríki við landamæri sín – og í febrúar 2022 hófst hin „algjörlega tilefnislausa“ innrás í Úkraínu.
Það sem George Kennan varaði við hefur allt ræst. Útþenslustefna NATO hefur skilað eins konar stríði við Rússa og ýtt þeim út í bandalög við Kína, Íran og aðrar þjóðir sem Bandaríkjamenn telja óvinveittar sér. Með stöðugum ögrunum gagnvart Rússum hefur NATO skapað öryggisógn til að réttlæta fjáraustur til vopnaframleiðenda sem ásamt öðrum sérhagsmunahópum hafa stjórnmálamenn í vasanum – og þriðja heimsstyrjöldin gæti nú þegar verið hafin.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26.6.2023