Skerjafjarðarskáldið sakar RÚV um lögbrot

frettinFjölmiðlar, InnlentLeave a Comment

Rithöfundurinn og skáldið Kristján Hreinsson, sem með facebook-færslu sinni olli miklu fjaðrafoki í vor, kveðst hafa sent Íslenskri málnefnd og stjórn Ríkisútvarpsins (RÚV) erindi vegna meintra lögbrota RÚV við meðferð á móðurmáli Íslendinga.

Hann fjallar um málið á facebook síðu sinni í dag, og er færslan birt með leyfi höfundarins:

Í dag sendi ég Íslenskri málnefnd erindi, sams konar erindi sendi ég einnig til stjórnar RÚV. Í erindi mínu segi ég meðal annars þetta:

Að gefnu tilefni sendi ég ykkur þessa samantekt og undir lokin fylgja spurningar sem ég vænti svara við frá Íslenskri málnefnd. Erindi mitt snýst um það sem ég vil kalla brot á lögum og brot á málstefnu Ríkisútvarpsins.

Kristján Hreinsson ljóðskáld og endurmenntunarkennari við Háskóla Íslands

Meinloka pólitískrar rétthugsunar

Síðustu misserin og einkum núna síðasta árið hefur borið á því að svo virðist sem fámennur hópur fólks trúi að með því að auka notkun hvorugkyns í íslensku máli sé hægt að styrkja stoðir tiltekinna minnihlutahópa. Ætlunin virðist vera að breyta innviðum íslenskunnar til þess að koma til móts við duttlunga fólks sem tengir líffræði og málfræði sterkum böndum. Ætlunin virðist einnig vera sú að innleiða einhvers konar rétttrúnað þar sem öllum er ætlað að beygja sig undir ímyndaða málfarssanngirni.

Hér er á ferð skýr mynd fáfræði ef grannt er skoðað. Öllum má ljóst vera að meinloka pólitískrar rétthugsunar segir að kyn í málfræði og kyn í líffræði sé eitt og hið sama. Þessi kynsamruni er þó úr lausu lofti gripinn og engan veginn þess eðlis að nýta megi sem grunn í málfarsstefnu. Hvað þá málfarsstefnu sjálfs Ríkisútvarpsins. Að mínu mati er hér verið að innleiða fásinnu á kostnað íslenskra skattgreiðenda.

Fréttamenn RÚV og fleira fólk virðist hafa fengið skýr fyrirmæli um að nota „öll“ í stað „allir“ og „mörg“ í stað „margir“ en hér tek ég einvörðungu þessi tvö dæmi, máli mínu til stuðnings. Í dag er búið að innleiða: „öll velkomin“ í stað þess að segja: „allir velkomnir“ og í fréttum er talað um að „mörg hafi verið saman komin“ í stað þess að segja að „margir hafi verið saman komnir.“ Eldri málvenjan vísar til margra einstaklinga og er í sjálfu sér ekkert við þá skírskotun að athuga.

Einstaklingar geta haft ólíkt kyn þótt orðið „einstaklingar“ sé í karlkyni. Kreddur einhverra einstaklinga sem virðast taka sér það bessaleyfi að gefa fyrirskipanir um breytingar, ráða hér ferðinni. Þessir einstaklingar virðast ætla að auka vægi hvorugkyns í fleirtölu á kostnað karlkyns í fleirtölu.

Málfarsbreytingar ekki góð íslenska

Að mínu mati eru þessar málfarsbreytingar ekki góð íslenska og í reynd ekkert annað en aðför að íslenskri tungu. Þessi aðför er gerð á forsendum sem hafa í raun og veru ekkert með tungumálið sjálft að gera. Aðförin er gerð í nafni pólitískrar rétthugsunar og gengur í berhögg við málhefð íslenskunnar. Aðför þessi er illa ígrunduð og forsendur hennar eru vanhugsaðar. Hér er einstrengingsleg hugsun fárra látin ráða því hvernig málfari fjöldans er markvisst breytt í ríkisfjölmiðli í eigu þjóðar.

RÚV er með aðgerðum sínum að breyta máltilfinningu fólks og íslenskri tungu í pólitískum tilgangi. Einhliða ákvörðun RÚV um að fækka karlkynsorðum getur vart talist falla vel að lagarammanum. Eins er hægt að draga í efa að einhvers konar félagsleg verkfræði og pólitískur rétttrúnaður rúmist innan þeirra laga sem hér er vitnað til. Að mínu mati er RÚV með ofangreindu framferði að brjóta gegn skyldu sinni um að leggja rækt við íslenska tungu, og þar með að brjóta gegn mikilvægri skyldu sem kveðið er á um í lögum um Ríkisútvarpið.

Íslenska málnefndin

Samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011, segir að hlutverk Íslenskrar málnefndar sé að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin geti átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi. Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur, sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og ráðherra gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki ráðherra.

Í ljósi hlutverks Íslenskrar málnefndar og þess að Ríkisútvarpið hefur mikilvægum lagaskyldum að gegna gagnvart íslenskri tungu, beini ég spurningum til Íslenskrar málnefndar, sem eru eftirfarandi:

  • Hefur Íslensk málnefnd samþykkt það að RÚV reyni að draga úr notkun karlkynsorða og noti hvorugkyn í staðinn? Felst í því að leggja rækt við íslenska tungu?
  • Hefur ráðherra samþykkt þær grundvallarbreytingar á ritreglum sem hér eru til umfjöllunar?
  • Er það lögum samkvæmt að gera einhliða breytingar á tungumálinu?
  • Hefur málfarsráðunautur RÚV leyfi til að gera breytingar á notkun íslenskrar tungu?
  • Hefur Íslensk málnefnd í hyggju að grípa til aðgerða gegn þeirri aðför sem íslenskri tungu er sýnd og lýst er hér að framan?

Undir þetta rita ég einn og óstuddur. Veit þó að hugsandi fólk er mér sammála.

Skildu eftir skilaboð