Ellilífeyrir sem borgaralaun, sanngirni og siðleysi

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

,,Mér er refsað fyr­ir að hafa lagt til hliðar sparnað til elli­ár­anna og skatt­ur­inn minn, sem fór til TR, sit­ur því eft­ir enn stærri í vasa TR.

Þetta er auðvitað al­veg risa­s­vindl, sama hvort það er byggt á ein­hverj­um lög­um eða reglu­gerðum. Al­veg sama þótt þetta hafi verið látið viðgang­ast í mjög lang­an tíma. En þjóf­ur er og verður alltaf þjóf­ur, sama hvað hann kall­ar sig."

Ofanritað er niðurlag greinar Árna Tómasar Ragnarssonar læknis í Morgunblaðinu sem hefur farið víða og þykir hitta naglann á höfuðið. TR stendur fyrir Tryggingastofnun.

Í landinu eru tvö kerfi sem eiga að sjá til þess að fólk eigi í sig og á þegar starfsdegi lýkur. Þriðji þátturinn í framfærslunni er auðvitað einstaklingurinn sjálfur. Góðu heilli hefur aldrei verið fjöldaatvinnuleysi á Íslandi. Allir núlifandi Íslendingar með starfsævina að baki eiga að hafa borð fyrir báru, eftirtekjur af um 40 ára vinnu. Nema, auðvitað, þeir sem ekki kunna fótum sínum forráð og sólunda öllu sem þeir koma nálægt, hvort heldur fjölskyldulífi eða fjármálum. Þeir eru um fimmtungur þjóðarinnar, flestir vinstrimenn.

En það eru framfærslukerfin tvö sem þarf að ræða, fimmtungshálfvitarnir eru, voru og verða alltaf. Í fyrsta lagi er opinber framfærsla, ellilífeyrir, frá Tryggingastofnun sem fjármögnuð er af skattfé, ríkissjóði. Í öðru lagi lífeyrissjóðir sem taka af launþegum hlutfall tekna yfir starfsævina og ávaxta. (Látum liggja á milli hluta samtryggingu lífeyrissjóða og séreign).

Ríkið, Tryggingastofnun og forverar, fjármagnaði upphaflega ellilífeyrir þegar fáir eða engir lífeyrissjóðir voru starfandi. Lífeyrir var ölmusa, fátækrahjálp. Í gamla bændasamfélaginu annaðist fjölskyldan gamalmennin. Smátt og smátt var farið að líta á lífeyrir TR sem borgaralaun. Allir sem ná ákveðnum aldri og ljúka störfum eiga rétt á borgaralaunum/ellilífeyri frá TR/ríkinu.

Um eða upp úr 1970 tók núverandi lífeyrissjóðakerfi á sig mynd. Það þýðir að nær allir núlifandi eftirlaunaþegar sem átt hafa eðlilega starfsævi, ekki glímt við vanheilsu, unnið sem launþegar en ekki í neðanjarðarhagkerfinu (svört vinna) og ekki unnið launalaust sem húsmæður/húsfeður, eiga að hafa tryggt sér lífeyri til að lifa af - með reglulegum greiðslum í lífeyrissjóð yfir starfsævina.

Ef ellilífeyrir frá TR er borgaralaun eiga allir, ríkir sem fátækir, að fá sömu greiðslu óháð tekjum frá lífeyrissjóðum.

Á hinn bóginn. Ef lífeyrir frá TR er tekjujöfnun/félagslegt úrræði, kölluð fátækrahjálp fyrr á tíð, er augljóst að þeir sem eru þokkalega haldnir með tekjum úr lífeyrissjóðum eigi ekki að fá framlag frá TR en fátæklingar því meira.

Hvar liggur sanngirnin? Hvar byrjar siðleysið?

Ef greiðslur frá TR eru borgaralaun er algjörlega siðlaust að mismuna fólki, að þeir efnameiri fái lítið sem ekkert en hinir efnaminni fullgilda framfærslu. Sanngjarnt er að allir fái jafnt.

Ef greiðsla frá TR er fátækrahjálp er fullkomlega siðlaust að þeir efnameiri fái ölmusu sem betur er komin hjá þurfalingum.

Við þurfum sem þjóð að gera upp hug okkar til opinberrar framfærslu og smíða kerfi sem annað tveggja viðurkennir ábyrgð einstaklingsins á lífi sínu eða lítur á borgarana sem þurfalinga frá 67 ára aldri en árin frá barnæsku sem skattgreiðendur.

Eða, sem við tíðkum daginn út og inn, að væla hátt og snjallt um eigin ömurleika þegar við í raun lifum eins og blóm í eggi. Enginn er búmaður sem ekki kann að berja sér.

Fimmtungshálfvitarnir eru hluti mannlífsins. Þjófnaðurinn, sem Árni Tómas læknir gerir að umtalsefni, er vegna fimmtungsins. Huggun harmi gegn er að litbrigði veraldarvolksins yrðu færri án óreiðufólksins. Mótsögn siðaðs samfélags er að heilbrigðum er refsað vegna óheilbrigðra. Orðið heilbrigði er hér notað í sígildri merkingu; heilbrigð sál í hraustum líkama.

One Comment on “Ellilífeyrir sem borgaralaun, sanngirni og siðleysi”

  1. SVÍÞJÓÐ. Eftir þeim upplýsingum sem ég aflaði mér þaðan fyrir 7-8 árum, þá virkar sænska lífeyriskerfið svona:

    Sænska ríkið greiðir ÖLLUM sænskum ríkisborgurum sem komast á eftirlaun SEK 22.500,- beint inná bankareikning þeirra, ekki þarf að fylla út nein eyðublöð eða umsóknir, greiðslan berst sjálfkrafa.

    Síðan líða fáeinir mánuðir, og þá kemur að því að fylla þarf út skattframtalið (sem í flestum tilfellum er það sjálfvirkt líka) og svo kemur álagningin frá Skattinum.

    Þá halda fáir sem engir þessum 22.500,- eftir óskertum, nokkrir eru síga niður í 20.000 en svo koma langstærstu flokkarnir tveir: þeir sem halda eftir 18.000 og 15.500,- ,líklega um 80% lifeyrisþeganna.

    En skerðingarnar halda svo dálítið áfram: 12’500 er talsvert stór hópur, en minnsti flokkurinn, hvort sem þeir eru stóreignamenn, auðjöfrar eða iðjuhöldar halda ALDREI eftir minna heldur en 7’500 SEK, stranglega er bannað að skerða lífeyrinn meira. (Ingvar karlinn Kamprad (IKEA) hélt sjálfsagt sínum sjö þúsundum eftir líka, ef hann var þá ekki búinn að afsala sér sænska ríkisborgararéttinum, því hann bjó síðustu árin í Sviss).

    Öllum stendur nákvæmlega á sama um þessar 7’000 krónur sem renna til hinna ríku svo fremi sem miðjuflokkarnir tveir fá sinn lífeyri skilvíslega, sem þeir hafa ávallt gert hingað til. Almenn ánægja er með kerfið og óánægjuraddir heyrast sjaldan sem aldrei.

    Að lokum: Þessum upplýsingum var komið á framfæri við Félag eldri borgara, með beiðni um að þeir könnuðu málið betur og gerðu einnig samanburð við Noreg og Danmörku, en það bar engan árangur, þaðan bárust aldrei neinar undirtektir.

Skildu eftir skilaboð