Pissufría hornið í sundlauginni

frettinGeir Ágústsson, LoftslagsmálLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretar muni ná markmiðum sínum varðandi kolefnishlutleysi þrátt fyrir að hans eigin loftslagsráðgjafi saki hann um óskhyggju í þeim efnum. Þetta viðhorf er ekkert einsdæmi. Um þetta viðhorf ríkir breið og mikil sátt á Vesturlöndum.

En hvað þýðir kolefnishlutleysi á Vesturlöndum í raun?

Jú, að bíllinn verði tekinn af venjulegu fólki.

Að orka verði bæði dýrari og óstöðugri en áður. Nú þegar eru sum svæði að upplifa slíkt ástand.

Að fólk þurfi í auknum mæli að velja á milli þess að borða eða hlýja sér.

Að allskyns orkufrekur varningur, sem ennþá er framleiddur á Vesturlöndum, verður dýrari. Er hérna stál mögulega mikilvægast alls varnings sem við þurfum á að halda í miklum mæli en fáum minna af.

Nú er heimurinn utan Vesturlanda auðvitað ekki að hugsa á þessum nótum. Indverjar og Kínverjar lofuðu í París á sínum tíma að ná hámarki útblásturs síns árið 2030, þ.e. að auka hann fram að því. Þeir búast við að eftir það verði þeir orðnir nógu ríkir til að fjárfesta í hagkvæmari og hreinni orkuframleiðslu, svo sem að skipta úr kolum yfir í jarðgas. Ríkari almenningur heimtar betri loftgæði og þetta gerist svo að segja af sjálfu sér.

Ég velti því fyrir mér hvað verður um háleit markmið um svokallað kolefnishlutleysi þegar Indverjar, Kínverjar, Brasilíumenn, stór Afríkuríki, Indónesía og fleiri hafa bætt gríðarlegu magni af koltvísýringi í andrúmsloftið og óperuhúsið í Sidney stendur ennþá upp úr sjónum. Stundum þurfa kjósendur ekki langan tíma til að fleygja lélegum hugmyndum stjórnmálamanna í ruslið, eins og dæmið um innflytjendastefnu danskra stjórnmálamanna er gott og nýlegt dæmi um (fyrir 20 árum voru hugmyndir um takmörkun innflytjenda kallaðar öfga-hægristefna en eru núna í áherslum flestra flokka og allra þeirra stóru).

En sjáum hvað setur. Eins og veirutímar sýndu er líka hægt að viðhalda blekkingu í gangi löngu eftir að hún er útrunnin.

Skildu eftir skilaboð