Björn Bjarnason skrifar:
Þegar litið er á heildarmyndina hafa stríðandi fylkingar í Samfylkingunni hag af því að láta ágreining sinn ekki birtast á yfirborðinu og fipa Kristrúnu.
Frá því er skýrt á vefsíðunni Viljanum í dag að aðalfundur Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hafi fyrr í mánuðinum samþykkt að brýnt sé að bæta hagstjórn á Íslandi til að bæta lífskjör almennings í landinu. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru séu hvort tveggja atriði sem muni auðvelda íbúum Íslands að ná því markmiði.
Ekkert bendir til að sunnlenskir kjósendur séu almennt áhugasamir um aðild Íslands að ESB
Ályktunin er örugglega ekki sprottin af vilja til að ná til þeirra. Hún endurspeglar hins vegar ágreining innan Samfylkingarinnar milli Kristrúnar Frostadóttur flokksformanns og Oddnýjar Harðardóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar og fjármálaráðherra.
Í ráðherratíð sinni sinni var Oddný eindregin talsmaður aðildar að ESB og lýsti stuðningi við hana í orði og verki. Hún sættir sig ekki við að Kristrún hefur þurrkað þessi mál af loforðalista Samfylkingarinnar í viðleitni sinni til að feta í fótspor Sjálfstæðisflokksins á sama tíma sem hún segist ekki vilja starfa með honum að stjórn landsins.
Á liðnu sumri birtust allt í einu fréttir um líklega arftaka Oddnýjar í efsta sæti á lista Samfylkingarinnar. Var staðið þannig að þessum fréttaflutningi að hér á síðunni var ranglega fullyrt að Oddný ætlaði að draga sig í hlé. Hún bað um að þessi rangfærsla yrði leiðrétt sem var að sjálfsögðu gert.
Í stað Oddnýjar var Björgvin G. Sigurðsson, fyrrv. ráðherra og þingmaður, nefndur til leiks. Hann var og er líklega enn sannfærður talsmaður aðildar Íslands að ESB og þess vegna er ekki ágreiningur um það mál sem knýr á um að sunnlenskt Samfylkingarfólk fái hann sem oddvita í stað Oddnýjar.
Logi Einarsson hvarf af sviðinu
Eftir að Helga Vala Helgadóttir ákvað í skyndi að segja af sér þingmennsku skyggir enginn í sex manna þingflokki Samfylkingarinnar á Kristrúnu nema helst Oddný. Logi Einarsson hvarf af sviðinu eftir að hann hætti sem flokksformaður. Jóhann Páll Jóhannsson stóð að því á sínum tíma að Kristrún byði sig fram til þings. Hann leggur henni lið eftir því sem hann getur. Þórunn Sveinbjarnardóttir bíður komandi prófkjörs í SV-kjördæmi þar sem talið er líklegt að Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður flokksins og oddviti í Hafnarfirði, ætli að ýta henni til hliðar.
Þegar litið er á heildarmyndina hafa stríðandi fylkingar í Samfylkingunni hag af því að láta ágreining sinn ekki birtast á yfirborðinu og fipa Kristrúnu. Hún hefur sterkt vopn í höndum þegar fylgi flokksins mælist hátt í könnunum undir hennar formennsku. Samfylkingin hefur löngum stjórnast af fylgi í skoðanakönnunum. Það breyttist ekki með nýjum formanni þótt sumum flokksmönnum sé nóg boðið með kröfunni um óskoraða fylgispekt eins og sést á ESB-samþykkt Sunnlendinga.