Rörsýni RÚV

frettinBjörn Bjarnason, Fjölmiðlar, Innlent1 Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Fréttastofa ríkisútvarpsins (RÚV) rembist við að halda lífi í aukaatriði þegar litið er til þess alvarlega ástands sem skapaðist 7. október þegar hryðjuverkamenn Hamas réðust inn í Ísrael, myrtu 1.400 manns, einkum börn, með köldu blóði og tóku hundruð í gíslingu.

Síðan hefur athygli allra fjölmiðla heims beinst að framvindu átakanna og áhrifum hernaðaraðgerða Ísraela gegn Hamas.

Á alþjóðlegum stjórnmálavettvangi er tekist á um þetta mál eins og birtist á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fyrri viku þar sem fastafulltrúi Íslands greiddi ekki atkvæði með tillögu eftir að fellt hafði verið að fordæma í henni hryðjuverk Hamas. Skipaði Ísland sér þar í sveit með öðrum norrænum ríkjum fyrir utan Noreg sem greiddi atkvæði með tillögunni.

Utanríkisráðherrar Íslands, Svíþjóðar, Finnlands og Noregs í Osló 1. nóvember 2023.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur síðan leitast við að halda í lífi í umræðum um afgreiðslu þessarar óskuldbindandi tillögu vegna þess að þingflokkur Vinstri grænna (VG) lýsti sig fylgjandi henni en ekki hjásetunni á allsherjarþinginu og formaður VG, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sagði að hún væri sömu skoðunar og þingflokkur sinn en hún hefði ekki vegna skorts á vitneskju haft tök á að koma sjónarmiði sínu á framfæri innan stjórnarráðsins.

Upplýsingum um alla framvindu málsins var miðlað frá utanríkisráðuneytinu til forsætisráðuneytisins í tæka tíð fyrir atkvæðagreiðsluna.

Fréttastofa ríkisútvarpsins sendi fulltrúa sinn til að fylgjast með þingi Norðurlandaráðs í Osló nú í vikunni. Þriðjudaginn 31. október efndu norrænu forsætisráðherrarnir til blaðamannafundar og þar var rætt um málið og gerðu ráðherrar grein fyrir afstöðu sinni. Af norskum fréttum má ráða að það hafi vakið athygli að fréttamaður RÚV lét ekki við skýringar ráðherranna sitja heldur spurði hvort það væru ekki röng skilaboð um samstöðu norrænu ríkjanna að þau greiddu ekki eins atkvæði um málið hjá SÞ.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, tók þetta greinilega sem gagnrýni á stjórn sína. Hann sagði hvert einstakt ríki bera ábyrgð á atkvæði sínu og öll ríkin fordæmdu hryðjuverk Hamas.

Fréttamaður RÚV átti það erindi í Osló við Bjarna Benediktsson, utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, að spyrja hann um þessa atkvæðagreiðslu og aðdraganda hennar. Bjarni sagði að aldrei hefði verið haft samráð við sig sem formann stjórnarflokks vegna atkvæðagreiðslu í þingi Sameinuðu þjóðanna. Það hefði ekki heldur átt við „að þessu sinni, umfram þau formlegu samskipti sem ganga að jafnaði á milli utanríkisráðuneytisins og forsætisráðuneytisins“, segir á ruv.is í dag 2. nóvember. Þá segir á ruv.is. „Katrín stendur á því að Ísland hefði átt að greiða með tillögunni.“ Hjásetan hefði þó „ekki falið í sér andstöðu við meginmarkmið ályktunarinnar; vopnahlé á Gaza og mannúðaraðstoð inn á svæðið“.

Þá segir á ruv.is: „Þannig var hún sammála Bjarna“.

Um afstöðu þingflokks VG segir Bjarni á ruv.is:

„Jú, ég hefði auðvitað kosið að samstarfsflokkur myndi ekki álykta gegn þeirri niðurstöðu sem að ég fór fyrir á fundi Sameinuðu þjóðanna.“

Önnur frétt sem birtist á ruv.is 2. nóvember þar sem Bjarni gerir athugasemd við spurningu fréttamanns NRK sem fréttamaðurinn umorðar síðan er sett þannig fram af RÚV eins og Bjarni hafi ekki fordæmt árás Ísraela á flóttamannabúðir á Gaza en ekki sé unnt að slíta hana úr tengslum við stríð Ísraela og Hamas.

Þessi fréttaflutningur er aðeins staðfesting á því að líta verður til erlendra miðla til að átta sig á gangi stríðshörmunganna á Gaza. Séu gleraugu RÚV notuð er myndin brengluð.

One Comment on “Rörsýni RÚV”

 1. Björn það má vel vera að gleraugu RÚV séu brengluð enda hvernig má annað vera þegar svona kaunar eins og þú og aðrir sem hafa komið sér fyrir á alþingi í gegnum árin eru búnir að vera skuggastjórnendur RUV frá stofnun þess.

  Það er í rauninni ótrúlegt miðað við öll þau ár sem þú sast á þingi hvað þú Björn Bjarnaso ert þröngsýnn of fáfróður um ástandið milli Ísrael og Palestínu!

  Það er búið að myrða fleiri saklausa borgara á Gasa svæðinu enn í öllu Úkraínu stríðinu og þú villt ekki vopnahlé!

  Björn þú ættir að taka niður langa hálftommu rörið sem þú virðist horfa í gegnum og líta á hlutina frá víðara sviði
  Ég er nokku viss að það sem stjórnar 100% þínum skoðunum er hvað stjórnin í Washington segir og gerir.

  Það má segja þegar kaninn fretar þá þefar Björn Bjarnason!

  hér er maður sem gæti hugsanlega skólað Björn Bjarnason til eins og fáfróðan skólakrakka!
  https://www.youtube.com/watch?v=fv1P6FeJw3U

Skildu eftir skilaboð