„Við erum komin í það viðbragð að rýma Svartsengi, Bláa lónið og Grindavík ef við höfum einhvern grun um að gos sé í aðsigi. Ekki bíða þar til gos er hafið,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Víkurfréttir. Hann hefur áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin og segir að það geti verið of seint að bíða með rýmingu fram að þeim tíma að gos sé hafið.
„Við erum komin á ákveðið spennustig. Mér er óhætt að segja það. Þetta heldur bara áfram og það byggist upp meiri þrýstingur í þessum geymi þarna fyrir neðan.“
— Á hvaða tíma erum við að horfa?
„Við vitum það ekki. Það er að safnast í geymslutank þarna undir og því meiri þrýstingur sem byggist upp í geymslutanknum og ef þakið á honum brestur þá verður aflið meira á gosinu. Við fáum öflugri kvikustróka og til verður kvikustrókahraun og slík hraun geta farið með þeim hraða að það eru tugir kílómetra á klukkustund.“
Þorvaldur segir að það sé ekki vitað fyrir víst hvort atburðarásin endar með gosi. „Það er ekkert sem segir okkur að gos sé á leiðinni.“ Þá séu það grynnri skjálftar sem hann hafi meiri áhyggjur af.
Í Fagradalsfjalli var kvikan að koma af 10-15 km dýpi en núna er kvikan að safnast fyrir í geymi á 4-5 km dýpi. „Eftir því sem flæðið heldur áfram og þessi atburðarás heldur lengur áfram, því meira magn safnast fyrir í þessum geymi og því meira byggist upp þrýstingur í honum. Því meiri yfirþrýsting sem þú byggir upp áður en þakið brestur, ef það er tími til þess, þeim mun öflugra verður gosið,“ segir Þorvaldur.
„Ef að þetta fer í gos þá verður það ekki svona þægilegt eins og það var í Fagradalsfjalli. Við getum búist við öflugri byrjun á gosi, hvort sem hún verður í einhverjar mínútur eða klukkustund með mikilli framleiðni. Ef að sú byrjun nær að búa til hraun sem er að fara 20 kílómetra á klukkustund, þá fer það fimm kílómetra á stundarfjórðungi. Viðbragðstíminn minnkar og ef þetta kemur upp á þessum stað sem rætt er um, hvort sem það er í Eldvörpum, Illahraunsgígum vestan við Þorbjörn eða í Sundhnjúkasprungunni. Sá líklegasti er Illahraunssprungan og þaðan er kílómetri í Svartsengi og fimm kílómetrar í Grindavík“.
Þorvaldur segir að jarðhitageymirinn undir Svartsengi hafi lítil áhrif á kvikuna þar sem vatnið er það heitt. Það er þó möguleiki á að úr verði öskufall. „Hitt er þó líklegra að þetta komi upp í kvikustrók en það er hraunflæðið sem ég hef áhyggjur af. Við erum að tala um einhverjar mínútur í viðbragði. Það segir sig sjálft að við þurfum að vera búnir að framkvæma aðgerðir áður en það kemur til goss.“
— Hver eru þín ráð til þeirra sem fara með þessi mál?
„Við erum komin í það viðbragð að rýma allavega Svartsengi, Bláa lónið og Grindavík ef við höfum einhvern grun um að gos sé í aðsigi. Ekki bíða þar til gos er hafið.“ Þorvaldur segir að það geti verið of seint að bíða með rýmingu fram að þeim tíma að gos sé hafið.
Yfirþrýstingurinn getur brotið bergið fyrir ofan og þá kemur kvikan mjög hratt upp. „Fjórir kílómetrar er ekki mikið dýpi“. Þorvaldur segir að kvika fari upp einhverja sentimetra á sekúndu og í verstu tilfellum erum við að tala um einn metra á sekúndu og það eru 3.600 sekúndur í klukkustundinni. Það gerir þá rétt rúma klukkustund fyrir kvikuna að komast upp af þessu dýpi sem hún er á í dag sé horft til dekkstu sviðsmyndarinnar.