Páll Vilhjálmsson skrifar:
Guðmundur Magnússon sagnfræðingur segist hafa fengið áhuga á séra Friðriki Friðrikssyni, kristilegum æskulýðsfrömuði á fyrri hluta síðustu aldar, þegar hann las bréf Friðriks til Eggerts Claessen. Bréfin líkjast ástarbréfum, segir Guðmundur, og vildi gera skil samkynhneigð í ,,gamla þjóðfélaginu."
Vinnutilgáta Guðmundar var að æskulýðsfrömuðurinn, sem féll frá fyrir sextíu árum, hafi verið skápahommi. En með því að Guðmundur segir ekki frá öðrum heimildum um meinta samkynhneigð söguhetjunnar virðist eins og fjarað hafi undan tilgátunni á meðan verkinu stóð.
Þá teflir Guðmundur fram nafnlausri heimild um að séra Friðrik hafi verið barnaníðingur. Ekkert samasemmerki er á milli þess að vera hommi og barnaníðingur, þótt eitt útiloki ekki annað. Sagnfræðingurinn ýtir undir grun um barnagirnd með vísun í tréstyttu af nöktum dreng og tali um ljósmyndir af berrassa strákum í sundi. Slær engu föstu en gefur undir fótinn.
Ætla mætti að höfundur rekti þennan þráð. Báran getur ekki verið stök hjá manni sem lifði og hrærðist í heimi ungra drengja. Ekki er á höfundi að skilja dæmin séu fleiri en eitt, nafnlaust. Vera kann að fleiri stígi fram enda auglýst eftir brotaþolum.
Í helgarútgáfu Morgunblaðsins skrifar Rúnar Guðbjartsson sálfræðingur og fyrrv. flugstjóri um barnskynni sín af séra Friðriki. Rúnar fór í Vatnaskóg 1945 og var boðið upp í herbergi til séra Friðriks. Rúnar skrifar:
Þegar ég kom inn bauð séra Friðrik mér að setjast í kjöltu sína sem ég þáði, jú, hann var séra Friðrik góði. Hann tók þéttingsfast utan um mig og setti vangann sinn á minn vanga og knúsaði mig og strauk ekki ósvipað því sem faðir minn gerði við mig í mikilli gleði eða sorg. Hann ræddi við mig þó nokkra stund, spurði nafns og hvar ég ætti heima, hvað væri gaman og svo framvegis.
Frásögn Rúnars gefur til kynna væntumþykju séra Friðriks sem naut virðingar barna og fullorðinna samferðamanna. Í dag myndi ekki viðgangast að 10-11 ára strákar færu einir upp í herbergi með fullorðnum og sætu í kjöltu. Tímarnir voru aðrir um miðja síðustu öld.
Vitnisburður Rúnars útilokar ekki að aðrir drengir, í sömu stöðu, hafi fundið til vanlíðunar í kjöltu séra Friðriks. En á meðan heimildin er aðeins ein um mann sem var áratugi í reglulegri umgengni við kynslóðir drengja er í meira lagi hæpið að fullyrða eitthvað um meinta kynferðislega háttsemi séra Friðriks gagnvart börnum.
Útkoman, segir enda Guðmundur sagnfræðingur, ,,er að stórum hluta hefðbundin sagnfræðileg ævisaga." Vinnutilgátunni var varpað fyrir róða og ekki unnið með upplýsingar um meint barnaníð. Bara hefðbundið.
Eftir stendur ævisaga kynnt með slúðri. Guðmundur fer í hlutverk dramadrottningar: ég var nærri hættur við, andvarpar hann, líkt og ofraun hafi verið að plægja sig í gegnum miður geðþekkar frásagnir. Vinnutilgátan um dýrlinginn í skápnum stóðst ekki. Leiðangurinn á lendur barnaníðs skilaði nafnlausri heimild um þukl farlama gamalmennis. Heldur rýr eftirtekja. Kringumstæðurökin, tréstyttan og naktir strákar í sundi, mætti leggja út á annan og saklausari veg en Guðmundur gerir. Yfir vötnum svífa tilvísanir í margræða hómóerótík liðins tíma til neyslu í samtíma sem þekkir ekki muninn á karli og konu, sekt og sakleysi. Skel hæfir þar kjafti.
Sjálfsagt ætlast Guðmundur til að fólk kaupi ævisöguna til að ganga úr skugga um hvaða mann séra Friðrik hafði að geyma. Líkast til er leikurinn til þess gerður. Dylgjur höfundar eru ekki meðmæli. Höfundur sem talar í hálfkveðnum vísum um ævi sögupersónu sem hann á að hafa rannsakað játar að hann kunni ekki almennilega skil á viðfangsefninu.
Lífshlaup flestra liggur um krókótta stíga fremur en beina braut. Vönduð ævisaga gerir heiðarleg skil persónu og samtíma hennar, hvatalíf og félagsleg umgjörð þess meðtalið. Sagnfræðingur, sem annt er um verk sitt og viðfangsefni, fylgir bók ekki úr hlaði með slúðri nema annað og síðra búi að baki en að láta genginn mann njóta sannmælis. Séra Friðrik á enga afkomendur er geta borið hönd fyrir höfuð hans. Tilfallandi hafði hvorki af honum að segja né kristilegum æskulýðssamtökum sem tengd eru nafni hans. Óvilhöllum blasir þó við að atlagan að minningu séra Friðriks byggir ekki á traustum grunni.
Stytta er af séra Friðriki við Lækjargötu. Sumir vilja fjarlægja hana. Hafi séra Friðrik lagt óendurgoldna ást á Eggert Claessen er illa vegið að manni sem samfélagið lokaði í skáp. Ef, á hinn bóginn, að séra Friðrik hafi verið haldinn barnagirnd og svalað fýsn sinni á litlum drengjum þarf að sýna fram á það með trúverðugri hætti en einni nafnlausri heimild. Slúður umritar ekki arfleifð séra Friðriks, nema kannski í fáeina daga á meðan umræðurokan stendur yfir.
Ylli auglýsingabrella rithöfundar styttubroti á Lækjargötu yrði það ekki til vegsauka þeirra er fífluðust til verksins.