Páll Vilhjálmsson skrifar:
Í byrjun árs voru 89 þús. notendur á ruv.is, netmiðli RÚV. Núna eru þeir 58 þús. samkvæmt mælingum Gallup. DV er með tvöfalt fleiri notendur en RÚV, Morgunblaðið og Vísir fjórfalt fleiri notendur.
Sé horft á flettingar, þ.e. hversu oft notendur smella á efni í netmiðli, verður munurinn enn meiri. DV er með meira en fjórfalt fleiri flettingar en RÚV. Morgunblaðið og Vísir eru ljósárum á undan. RÚV mælist með 167 þús. flettingar en Morgunblaðið með yfir tvær milljónir og Vísir 1,7 milljón.
Í netmiðlun eru RÚV og Mannlíf í sama flokki. Heimildin skrapar botninn.
Á innan við ári hefur netmiðill RÚV tapað yfir 30 þúsund notendum. Það er afrek. Enginn annar fjölmiðill sýnir jafn mikið fall. Nema Fréttablaðið, sem hætti rekstri á árinu. Netmiðill Fréttablaðsins þótti alltaf lélegastur fjölmiðla en var samt fyrir ofan RÚV.
Stundum er sagt að fólk greiði atkvæði með fótunum þegar það leggur á flótta frá óboðlegum aðstæðum. Í netheimtum eru atkvæði greidd á lyklaborði tölvu og snertiskjá snjallsíma. Flóttann frá RÚV má jafna við hrun.