Geir Ágústsson verkfræðingur skrifar:
Íslenska ríkið er víða á ferð þegar hagkerfið er að framleiða verðmæti. Það klípur af fyrirtækjum í formi svokallaðs tryggingagjalds og segist vera að safna í sjóði vegna atvinnuleysistryggingar og fæðingarorlofs. Þetta gjald er auðvitað bara skattur sem rennur í hítina. Það hirðir auðvitað af launþeganum áður en þeir fá launin sín greidd. Það hirðir hluta af hagnaði fyrirtækisins ef því tekst að skila slíkum.
Sveitarfélögin sækja sér fasteignagjöld af fyrirtækinu og útsvar af launþeganum. Öll aðföng enda á einn eða annan hátt á að bera virðisaukaskatt. Sumir atvinnuvegir búa svo jafnvel við sérstaka aukalega skattheimtu ofan á allt hitt. Hvernig á að skapa svigrúm til að taka áhættu og prófa einhverja nýsköpun í þessu umhverfi?
Íslenska svarið: Veita skattaafslætti og greiða styrki!
Ekki fyrir alla samt. Nei, bara fyrir þá sem sækja um og uppfylla einhver skilyrði.
Nú eru Íslendingar alveg svakalega leitandi að lausnum. Það sést í því að örþjóð hefur tekist að búa til stór, alþjóðleg fyrirtæki sem bjóða upp á hagkvæmar lausnir.
Þrátt fyrir íslensk yfirvöld, en ekki vegna þeirra.
En smátt og smátt seilist hið opinbera dýpra í alla vasa og það dregur skiljanlega og fyrirsjáanlega úr þróttinum. Í staðinn þurfa að koma sérstakir afslættir eða átaksverkefni eins og Allir vinna, styrkir fyrir suma og niðurfellingar á sköttum fyrir suma.
Ríkið gæti auðvitað bara komið sér úr veginum og minnkað fjárþörf sína til að lífga við það sem það situr svo þungt á núna að það nær ekki andanum. En slík öfgahægrimennska er auðvitað alveg óhugsandi í opinberu kerfi sem þarf að halda uppi stórum hópum af fólki sem mætir í vinnuna, hengir jakkann sinn á stólbakið og fer svo á kaffistofuna til að kvarta yfir álaginu vegna allra umsóknanna.
Hvað er þá til ráða? Að kjósa öðruvísi næst? Að mótmæla? Skrifa greinar? Nei, þetta dugir skammt. Eina ráðið er mögulega að finna leiðir til að starfa utan kerfisins, án þess þó að brjóta lög. Er mér þá minnisstæð saga sem vinur minn sagði mér. Hann reiddi fram reiðufé í ákveðnum viðskiptum og um leið og það gerðist var slökkt á kassanum.
Ég segi svona.