Kristrún í Hamas-klemmu

frettinBjörn Bjarnason, Innlent, StjórnmálLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Ræða flokksformannsins Kristrúnar Frostadóttur (Samfylkingu) var undarleg þegar hún sneri sér að Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra mánudaginn 6. nóvember vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs, á Gaza, eftir að hryðjuverkamenn Hamas gerðu 7. október grimmdarlega árás á Ísraela nálægt Gaza-svæðinu.

Miðað við alvarleika málsins og nauðsyn þess að knýja fram hlé á átökunum hefði mátt ætla að formaður Samfylkingarinnar gæfi upp boltann fyrir mótun sameiginlegrar afstöðu á alþingi. Hún gerði það hins vegar ekki. Hún var bara með hugann við atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir rúmri viku þar sem fulltrúi Íslands greiddi ekki atkvæði með tillögu eftir að hafnað var að í henni yrðu hryðjuverk Hamas fordæmd eins og Kanada vildi.

Kristrún ræddi þó ekki efni ályktunarinnar heldur hitt að eftir að atkvæðagreiðslunni hjá SÞ lauk sagði þingflokkur VG og Katrín Jakobsdóttir að Ísland hefði ekki átt að sitja hjá heldur greiða atkvæði með tillögunni.

Kristrún hélt því blákalt fram að Katrín Jakobsdóttir hefði „grafið undan stefnu“ utanríkisráðherra sem var rækilega útskýrð í ræðu á allsherjarþinginu. Enginn ágreiningur er um hana milli Katrínar og Bjarna. Þar er utanríkisstefnu Íslands lýst.

Kristrún sagði að með ummælunum um hjásetuna hefði forsætisráðherra opinberað andstöðu sína við „utanríkisstefnu Íslands eins og hún birtist á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna“.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er ekki tekin afstaða til Ísraels eða Palestínu. Áherslur stjórnarflokkanna þriggja í málefnum Mið-Austurlanda eru mismunandi þótt þeir vilji að stofnað verði Palestínuríki við hlið Ísraels, tveggja ríkja lausn. Utanríkisstefnan haggast ekki við ágreining um leiðir að því marki.

Krafan er að gert verði hlé á átökum til að hjálpargögn berist inn á Gaza.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, boðaði á þingi 7. október að Viðreisn ætlaði að leggja fram tillögu, „efnislega þá sömu og Kanada lagði fram á allsherjarþinginu sem allar þjóðir Evrópu studdu, um að þingið fordæmi hryðjuverkaárásir Hamas á almenna borgara í Ísrael og árásir Ísraelshers gegn almennum borgurum og á borgaralega innviði á Gaza í kjölfarið“.

Utanríkisráðherra fagnaði að slík tillaga yrði lögð fram.

Kristrún Frostadóttir boðaði hins vegar enga tillögu. Samfylkingin telur sér trú um að hún sé í sömu stöðu og breski Verkamannaflokkurinn og hún verði í ríkisstjórn eftir næstu þingskosningar. Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, veit að hann verður að útiloka andgyðingleg öfl innan flokks síns til að ná því markmiði og grípur til hreinsana í þingflokknum.

Kristrún veit að hún kastar sprengju inn í eigin flokk með því að lýsa einhverri skoðun á Hamas og átökunum á Gaza. Hún situr því hjá án þess að gefa nokkra efnislega skýringu. Hún hefur alls ekki efni á að ráðast á rökstudda hjásetu fulltrúa Íslands á þingi SÞ eða gagnrýna íslenska ráðherra fyrir að hafa kjark til að taka afstöðu í þessu máli þótt þeir séu ekki sammála um allt. Vill Kristrún halda hlífiskildi yfir Hamas eða snýst hún gegn boðaðri tillögu Viðreisnar?

Skildu eftir skilaboð