Pírati gegn frelsi fjölmiðla

frettinBjörn Bjarnason, Innlent, Stjórnmál4 Comments

Björn Bjarnason skrifar:

Á borgarstjórnarfundi þriðjudaginn 7. nóvember ræddi Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, um borgarfjármálin í ljósi frásagna af þeim í fjölmiðlum og taldi réttmætt að þeir fjölmiðlar sem segðu ekki fréttir af fjárhagsstöðu borgarinnar á þann veg sem henni og Degi B. þóknaðist fengju ekki opinberan fjárstuðning.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir (samsett mynd mbl.is).

Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á ræðu Dóru Bjartar með færslu á Facebook. Hér skulu nefndir punktar úr ræðu píratans eins og þeir birtust á mbl.is 8. nóvember:

1. „Eftir að Fréttablaðið datt upp fyrir hefur Morgunblaðið fengið enn meira svigrúm til að stjórna umræðunni þegar kemur að þeirri stanslausu herferð gegn meirihlutanum í borginni með því markmiði að Sjálfstæðisflokkurinn nái yfirhöndinni einhvern tímann aftur.“

2. „Það er í raun risastórt lýðræðislegt vandamál hvernig ástandið er á fjölmiðlamarkaði í dag því almenningur fær kolskakka mynd af raunveruleikanum.“

3. „Morgunblaðið dirfðist lengi vel að vera með sérstakan undirglugga á forsíðu mbl.is [innskot blm: knippi um tengd fréttamálefni] um fjárhagslega erfiðleika Reykjavíkur. Það er varla hægt að hugsa sér grímulausa pólitíska stöðutöku. Finnst okkur þetta bara í lagi?“

4. „Ég myndi vilja sjá fjölmiðla sem fá yfir 100 milljónir [úr] ríkissjóðskassanum og hæstan styrk við sinn rekstur af öllum einkareknum fjölmiðlum á Íslandi sýna af sér faglegri og lýðræðislegri vinnubrögð. Ég myndi raunar halda að eðlilegt væri að það væri einhvers konar forsenda að sýna af sér hlutleysi og styðja við lýðræðishlutverk fjölmiðla til að fá fé úr ríkissjóði inn í sinn rekstur ef þú spyrð mig.“

Ekkert af þessu er sagt í fljótræði í hita leiksins heldur er hér um skrifaðan, ígrundaðan texta að ræða sem fluttur er í þeim markvissa tilgangi að ritskoðun skuli tekin upp við úthlutun ríkisstyrkja til annarra en ríkisútvarpsins sem hefur allt sitt fjárhagslega á hreinu með stuðningi skattgreiðenda. Píratinn hefur ekkert við ríkisfréttirnar að athuga, þær eru Dóru Björt þóknanlegar.

Meira að segja ríkisfréttamanninum Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formanni Blaðamannafélags Íslands, blöskrar málflutningur píratans. Hún sagði á Facebook 8. nóvember að með orðum sínum gæti Dóra Björt „beinlínis grafið undan fjölmiðlafrelsi“. Væru fjölmiðlar ríkisstyrktir yrði að gera það „án allra pólitískra afskipta“ á grundvelli gagnsærra reglna.

Kerfið sem nú gildir um þennan opinbera stuðning gefur því miður færi á opinberri forræðishyggju í anda píratans. Það er því meingallað og dapurlegt að menningarráðherra hafi mistekist að skapa fjölmiðlastarfi betri og gagnsærri umgjörð.

4 Comments on “Pírati gegn frelsi fjölmiðla”

  1. Taka styrkinn af mogganum og RÚV, styrkja Fréttina Útvarp Sögu og Samstöðina og frálsa fjölmiðla

  2. Erlingur, það munu stjórnvöld aldrei gera, þessir miðlar sem þú nefnir standast ekki ritskoðun stjórnvalda.

  3. Fasistarnir finnast víða í sauðagærum dulbúnir fögrum “husjónum” um það hvernig þvinga skal okkur hin til hlýðni.

    Útópían er í hugum þessa fólks réttlæting hefts tjáningarfrelsis, frelsissviptingar, mannorðsmorða og síðast blóðsúhellinga ef þau fá til þess næg völd.

    Greinilegt að sögukennslu er verulega ábótavant í skólum og heimilum landsins.

  4. Bjarki, þetta er rétt hjá þér með sögukennsluna í skólum, hún hefur alltaf verið skreytt til að upphefja ákveðnar þjóðir

    Ég man það þegar mér var kennt að tveir menn hefðu verið fyrstir á Suðurskautið, Breti og Norðmaður, það rétta er að Amundsen Norðmaðurinn var fyrstur. Scott Bretinn komst aldrei á leiðarenda og dó í þeirri för.

    Ég er nú nokkuð viss um að Edmund Hillary var ekki fyrsti maðurinn til að komast á topp Everest, það eru nú miklar líkur á því að heimamennirnir hafi verið búnir að fara á toppin á undan honum.

Skildu eftir skilaboð