Frosti Logason fjölmiðlamaður segir enn mikla undirliggjandi hræðslu á Íslandi við hakkavélina sem vill útskúfa fólki. Frosti, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar segist frjáls eins og fuglinn í tjáningu eftir að hann fór að starfa sjálfstætt:
,,Ég vissi svo sem ekki alveg hvað ég var að fara út í þegar ég stofnaði Brotkast. En það gengur mjög vel. Viðskiptamódelið gengur upp og málefnalega gengur þetta upp líka. Maður finnur það og það er mjög stór hópur sem er ánægður með efnistökin, enda erum við mikið að ræða mál sem stóru fjölmiðlarnir vilja ekki snerta á. Fólk myndi ekki trúa því hve margir senda mér skilaboð til að þakka mér, en segist aldrei myndu segja það opinberlega. Fólk sem segist vilja gera hluti fyrir mig og aðstoða mig til að þakka mér fyrir, en segir á sama tíma að það geti ekki sett ,,læk" á það sem ég geri eða hrósað mér opinberlega. Sem segir manni hvað það er enn mikil undirliggjandi hræðsla í gangi á Íslandi. Þó að mesti ofbeldisskríllinn sé orðinn lágværari en áður, þá eru fyrirtæki, stofnanir og almenningur enn lafandi hrædd við að lenda í hakkavélinni."
Frosta var gert að segja upp störfum eftir tveggja áratuga feril á Stöð", X-inu og Sýn í kjölfar viðtals um 10 ára gamalt ástarsamband. Hann segir hóp fólks hafa leitað logandi ljósi að ofbeldissögum um sig og á endanum hafi það tekist:
,,Ég kallaði samtökin ,,Líf Án ofbeldis" Landssamtök tálmunarkvenna í þætti hjá mér, enda hafði ég fengið endalaust af sögum inn á borð til mín. Í kjölfarið fæ ég skilaboð frá konu sem ég þekkti lítið sem sýnir mér skilaboð frá formanni samtakanna þar sem hún er að óska eftir ofbeldissögum um Frosta Logason. Þá eru þær semsagt farnar í herferð þar sem átti að finna ofbeldissögur um mig. Þær leita og leita og á endanum finna þær þessa fyrrum kærustu mína sem endar síðan með því að það er trommað upp í viðtal. Í einfeldni minni hélt ég að það myndi engum detta í hug að hálshöggva mig fyrir 10 ára gömul sambandsslit, þar sem ég var löngu búinn að snúa lífi mínu við. Giftur með nýfætt barn og löngu búinn að taka sjálfan mig í gegn. Þegar ég sendi frá mér yfirlýsingu þar sem ég tók einlæglega ábyrgð á eigin hlut í þessu gamla máli hélt ég að fólk myndi sjá að sér. En þá var bara stigið á bensíngjöfina og gengið enn harkalegar fram," segir Frosti og heldur áfram:
,,Það er í raun ótrúlega sorglegt að þessi hópur hegði sér þannig að jafnvel þó að menn vilji taka ábyrgð á eigin hlut sé mun skynsamlegra að gera það ekki. Einfaldlega af því ef menn einlæglega taka ábyrgð á eigin hlut, þá er bara gengið lengra og það er aldrei neitt nóg. Við vitum öll hvaða hópur þetta er, en því miður er hræðslan í samfélaginu enn svo mikil, af því að allir óttast að enda í hakkavélinni. Þessi hópur er ekki að koma frá kærleiksríkum stað og augljóslega eru einhver mikil sár þarna, þar sem markmiðið virðist vera að viðhalda reiði og hatri. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að það séu til einstaklingar sem hafa hugrekki til að standa gegn skrílnum og segja upphátt það sem þögli meirihlutinn er að hugsa. Meirihluti fólk sér að það er eitthvað mjög rangt við þessa aðferðafræði, en því miður þora ekki margir að tjá sig opinberlega."
Frosti segist í þættinum á þeirri skoðun að hjarðhegðunin sé gríðarleg á Íslandi, enda mikill undirliggjandi ótti hjá fólki við að vera ekki í liði með vinsælu skoðuninni hverju sinni:
,,Í mjög mörgum málum erum við komin á þann stað að það er í gangi eins konar hátíð um hina ríkjandi skoðun. Ekki síst þegar kemur að Ríkisútvarpinu. Það sást alveg grímulaust í faraldrinum hvernig RÚV var í raun hluti af valdinu og missti alveg hlutverk sitt sem gagnrýninn fjölmiðill. Þess í stað voru áróðursþættir, eins og þegar það átti að bólusetja börn, þar sem öllu blaðamennskuhlutverki var hent. Jafnvel þó að ég hafi verið hlynntur bólusetningunum á sínum tíma man ég að mér blöskraði algjörlega hvað áróðurinn var grímulaus. Stóru fjölmiðlarnir virðast ekki geta farið gegn ríkjandi skoðun, af því að þeir eru styrktir af hinu opinbera og allt sem heitir gagnrýni er komið í algjört aukahlutverk."
Í þættinum ræða Sölvi og Frosti líka um réttrúnaðinn, eðli hans og hvaðan hugmyndafræðin kemur:
,,Margt af þessu kemur úr félagsvísindadeildum vestrænna háskóla. Þaðan koma ákveðnar hugmyndir sem hafa síðan undið upp á sig. Það er gott og gilt að gagnrýna vestrænt samfélag, en það verður að vera innan eðlilegra marka. Þrátt fyrir að vestræn samfélög séu þau sem eru hve best á sig komin og að mannkynið hafi aldrei haft það jafngott í sögunni á að segja okkur að þetta sé allt hræðilegt. Það eru einhvern vegin bannorð að segja jákvæða hluti um vestræn samfélög af því að hópur af réttlætisriddurum hafa alist upp í félagsvísindadeildum við það að vestræn samfélög séu það versta sem hefur komið fyrir mannkynið. Þetta er galinn útúrsnúningur. Auðvitað er ömurlegt að það sé til fátækt fólk og að minnihlutahópar verði fyrir aðkasti, en við erum alltaf að verða betri og betri í að bæta hlutina. Það er ekki langt síðan ég var í félagsvísindadeild Háskóla Íslands og ástandið er svona þar. Fólki er bara illa tekið ef það er með ákveðnar skoðanir."
2 Comments on “Gríðarlega margir þakka mér en þora ekki að gera það opinberlega”
Frosti er jafnvel betri núna en hjá Xinu.
Það er alveg rétt að hjarðhegðuni er gríðarleg á Íslandi, enda mikill undirliggjandi ótti hjá fólki við að vera ekki í liði með vinsælu skoðuninni hverju sinni, og þessi hegðun sást mjög vel í Covid faraldrinum, mér persónulega fannst einu fjölmiðlarnir sem ekki voru í hjarðhegðuninni voru Fréttin og útvarp saga,, mér blöskraði algjörlega hvað áróðurinn var óvægin og fólk hikaði ekki við viðbjóðsleg orð gagnvart óbólusettu fólki,, og megi þið sem stóðuð að þessum ógeðslegu orðum og miður góðum skrifum eiga skömm fyrir……