Ferðaþjónustufyrirtækið Tour.is hefur vikið Inga Jóni Sverrissyni framkvæmdastjóra frá störfum vegna ummæla sem hann lét falla í viðtali við Morgunblaðið sl. laugardag um að neita Ísraelsmönnum þjónustu, vegna stríðs Ísraelsmanna og hryðjuverkasamtakanna Hamas á Gasasvæðinu.
Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að fyrirtækið líti ummæli Inga Jóns alvarlegum augum.
„Vill Tour.is koma því á framfæri að orð Inga Jóns eru hans persónulega skoðun sem er engan vegin í samræmi við stefnu og störf fyrirtækisins. Afstöðu fyrirtækisins var miðlað í samtali við Sigurða Kára Kristjánsson kjörræðismann Ísraels á Íslandi sl. föstudags eftirmiðdegi af Jóni Sigurði Ingasyni, eins eiganda Tour.is, þegar Sigurður Kári óskaði eftir skýringum fyrirtækisins. Af þeim sökum hefur Inga Jóni verið vikið frá störfum sem framkvæmdastjóra. Tour.is biðst afsökunar á þeim ummælum sem Ingi Jón lét falla í hlutverki sínu sem framkvæmdastjóri,“ segir í tilkynningunni.
„Við viljum árétta að ummæli Inga Jóns eru ekki í samræmi við stefnu fyrirtækisins og endurspeglar ekki skoðanir eigenda eða starfsfólks. Við hjá Tour.is eigum glöð í viðskiptum við fólk af öllum þjóðernum og höfum átt viðskipti við hópa og einstaklinga frá Ísrael í gegnum árin með mikilli ánægju og góðum árangri og munum gera það sem í okkar valdi stendur til að gera það áfram.
Tour.is hefur nú þegar haft samband við umrædda ferðaskrifstofu og skýrt afstöðu fyrirtækisins og beðist afsökunar á framkomu Inga Jóns. Sigurður Kári Kristjánsson kjörræðismaður Ísrael á Íslandi verður einnig beðinn um að miðla afsökunarbeiðni Tour.is til ísraelskra stjórnvalda,“ segir þar.
Tour.is tekur fram að fyrirtækið starfi eftir lögum og fylgi siðareglum Samtaka ferðaþjónustunnar og venjum um góða viðskiptahætti. Þá kemur fram að nýr framkvæmdastjóri hafi þegar tekið við störfum Inga Jóns en það er Jón Sigurður Ingason. Jón Sigurður er sonur fráfarandi framkvæmdastjóra, Inga Jóns Sverrissonar.
One Comment on “Tour.is hefur vikið framkvæmdastjóra frá störfum”
Það er ekki sama Jón og Séra Jón hjá frettin.is. Ef þessi framkvæmdastjóri hefði talað með svipuðum hætti til transfólks eða flóttafólks þá væri starfsfólk fréttarinnar að ausa yfir hann lofi og brjálað yfir broti á málfrelsi hans. En nei þar sem hann mótmælti hegðun stjórnvalda í Ísrael þá fagnar frettin.is Hræsni hina kristnu á sér enginn takmörk.