Hatursglæpur Samtakanna 78: fölsk kæra rannsökuð?

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Samtökin 78 tilkynntu um hatursglæp 26. september síðast liðinn. Útlendur maður á ráðstefnu samtakanna varð fyrir líkamsárás í miðborginni, að sögn. Í frétt RÚV er haft eftir Daníel E. Arnarssyni framkvæmdastjóra Samtakanna að maðurinn hafi borið merki hinsegin fólks og samtökin ,,geri ráð fyrir að árásin hafi verið hatursglæpur."

Strax var grunsamleg áherslan á hatursglæp. Hvernig gátu Samtökin 78 vitað um hugarfar að baki meintu afbroti? Hitt er augljóst að Samtökin 78 notuðu tilefnið til allherjarútkalls í fjöl- og samfélagsmiðlum um að Ísland væri lífshættulegt hinsegin fólki. Tilfallandi bloggaði:

Á alþingi voru öryggismál félagsmanna Samtakanna 78 rædd og fordæmt að þeir geti ekki um frjálst höfuð strokið í íslenska haturssamfélaginu. Ráðherra kvaðst ,,svolítið hræddur" um líf og limi. Allt þetta vegna atviks sem enn er á huldu hvernig bar að og með hvaða afleiðingum. Enginn er grunaður;  málið er á frumstigi rannsóknar. En ekki skortir stórkarlalegar yfirlýsingar, m.a. frá forsætisráðherra, sem gerir sér far um að ala á ótta og öryggisleysi og ásaka almenning um ofstæki.

Rannsókn lögreglu hófst þegar eftir tilkynninguna. Meintur brotaþoli fór úr landi hálfum öðrum sólarhing eftir atvikið, að sögn með tannskemmdir, og hefur ekkert til hans spurst. Eftir stendur tilkynning um alvarlegan glæp.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sagði rúmum tveim vikum eftir meintan atburð að ,,mjög óvanalegt" væri að líkamsárás af þessum toga væri ekki upplýst. Í frétt mbl.is rúmum tveim mánuðum eftir atvikið, er málið enn óupplýst.

Líkur standa til þess að meintur hatursglæpur verði aldrei upplýstur. Einfaldlega af þeirri ástæðu að engin líkamsárás átti sér stað. Tilfallandi tilgáta er að útlendi ráðstefnugesturinn hafi orðið fyrir slysi, e.t.v. vegna rafhjóls, og það hafi í meðförum Samtakanna 78 orðið að hatursglæp.

Stóra spurningin er hvort rangar sakargiftir verði rannsakaðar. Eða hvort málið verði fellt niður.

Skildu eftir skilaboð