Allir þessir upplýsingafulltrúar

frettinGeir Ágústsson, InnlentLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Það blasir við að háskólar framleiða mikið af fólki sem ætlast til þess að geta fengið þægilega innivinnu að lokinni útskrift. Það blasir líka við að þetta er ekki raunin fyrir marga. Hvað er til ráða? Að hætta að hvetja fólk til að fara í háskóla? Að bæta aðeins við námið svo í því felist einhver verðmætaskapandi kunnátta?

Nei, auðvitað ekki.

Til ráða er að búa til fullt af störfum á vegum hins opinbera sem geta tekið við öllu þessu atvinnulausa, háskólamenntaða fólki.

Þetta er a.m.k. ein möguleg leið til að útskýra af hverju nánast hver einasta skrifstofa innan hins opinbera virðist þurfa á upplýsingafulltrúa að halda. Um leið er slíkt starf nokkuð sem þarfnast lítils rökstuðnings: Við erum með upplýsingar sem þarf að miðla, ýmist til umheimsins, eða innandyra, og vantar að sjálfsögðu upplýsingafulltrúa! Eða viltu að slíkt sé bara eitthvað aukastarf fyrir fólk sem ætti að vera sinna öðru?

Algjört getuleysi hins opinbera til að byggja og reka innviði og grunnþjónustu gerir röksemdafærsluna enn auðveldari: Við erum að fá margar fyrirspurning sem þarf að svara með upplýsingum, og vantar að sjálfsögðu upplýsingafulltrúa! Eða telur þú kannski að við eigum frekar að sinna hlutverki okkar svo allar þessar fyrirspurnir hverfi? Þá skilur þú ekki opinberan rekstur!

Í hvert skipti sem ég sé minnst á ráðningu á upplýsingafulltrúa innan hins opinbera þá sé ég tvennt krystallast á sama tíma:

  • Báknið er að klúðra málum og þarf einhvern til að fleygja undir rútuna
  • Báknið er að leita leiða til að stækka sig svo það fari nú ekki að missa af frekari fjárframlögum

Mér finnst nú líklegt að flestir hafi séð í gegnum þetta leikrit hins opinbera. En úr því svona er komið fyrir bákninu er kannski við hæfi að biðja það um fleiri upplýsingar. Nóg er af teppum til að kíkja undir og finna þar skít upplýsingaóreiðu. Geta upplýsingafulltrúarnir hjálpað okkur?

Skildu eftir skilaboð