Hvaða lög gilda? Hvaða lög gilda ekki?

frettinGeir Ágústsson, Innlent1 Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Við erum að drukkna í lögum og reglum. Lögreglan getur ekki fylgt öllu eftir. Sum lög eru í reynd ekki í gildi því það ríkir ákveðinn sameiginlegur og óskrifaður skilningur meðal almennings og lögreglu á því að þau geri í engu samfélagið betra.

Það mætti því segja að sum lög gildi en önnur ekki.

Að auki mætti segja að önnur lög gildi á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Þetta er auðvitað ekki hollt ástand. Ef bara sum lög gilda en önnur ekki er hætta á því að virðingin fyrir lögunum í heild sinni sé í hættu. En það er enginn valkostur við þetta ástand. Þingmenn halda að með því að setja eitthvað í lög og reglur þá sé verið að leysa vandamál. Lagasetningin á þannig að lækna öll mein. Þeir gleyma því að ef framfylgja ætti öllum lögum þyrfti að margfalda stærð lögreglunnar og allskyns embættismanna og enginn hefur sérstakan áhuga á því, enda er það dýrt og kostar mannafla sem gæti þá ekki sinnt öðru.

Hvað um það. Ég rak upp stór augu þegar ég las frétt þess efnis að lögreglan sé mjög virk í því að velja hvaða lög gildi og hver ekki - jafnvel í tilviki mannræningja sem halda börnum í felum og á vergangi:

Samkvæmt heimildum Nútímans innan úr lögreglunni var mál drengjanna þriggja búið að skipta upp embættinu í tvö lið – þar voru starfsmenn sem láku upplýsingum til vina og vandamanna Eddu Bjarkar og höfðu mikla samúð með málstað hennar en svo hópur starfsmanna sem hélt leitinni linnulaust áfram en með mikilli leynd frá miðjum desember þar sem grunur um leka hafði ítrekað komið upp. Síðarnefndi hópurinn fann svo drengina í gær.

Hér er um að ræða mál þar sem forræðismaður barna leitar að þeim á meðan móðirin er búin að koma sér í fangelsi fyrir að ræna börnum og senda í felur, og lögreglan er að leka upplýsingum til lögbrjótanna!

Er þetta ekki gengið aðeins of langt hjá lögreglunni? Það er eitt að sjá í gegnum fingur sér þegar ungmenni eru að drekka landa eftir að útivistartíma ríkisins lýkur, eða að einhver ákveði að byggja skúr í garðinum hjá sér án þess að hafa eytt hálfri mannsævi í að fá teikningar samþykktar hjá sveitarfélaginu. Slík lögbrot eru smávægileg og raska ekki gangi samfélagsins. 

En þegar lögreglan er farin að aðstoða barnaræningja og gera börn föðurlaus - er það ekki alveg grafalvarlegt mál? Þarf ekki að rannsaka slíkt? Þarf ekki að reka lögreglumenn sem hegða sér svona? Og ekki bara reka þá heldur ákæra fyrir samráð við glæpamenn?

Eða viljum við virkilega að lögreglan taki að sér að ákveða með mjög djúpstæðum grundvallarhætti hvaða lög gilda og hvaða lög gilda hreinlega ekki?

One Comment on “Hvaða lög gilda? Hvaða lög gilda ekki?”

  1. ,,rak upp stór augu þegar ég las frétt þess efnis að lögreglan sé mjög virk í því að velja hvaða lög gildi og hver ekki ..“

    Já segjum tveir.

Skildu eftir skilaboð