Heimild til hefnda

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Atlaga blaðamanna RSK-miðla  að Páli skipstjóra Steingrímssyni 3. maí 2021 var hefnd fyrir ófarir RÚV, Stundarinnar og Heimildarinnar í Namibíumálinu, sem hófst í nóvember 2019 með alræmdum Kveiks-þætti á RÚV.

Helgi Seljan fékk á sig siðadóm í mars 2021 fyrir að hafa þverbrotið siðareglur RÚV. Helgi var höfuðpaurinn í Namibíumáli RSK-miðla gegn Samherja. Úrskurður siðanefndar RÚV var áfellisdómur yfir fordómafullri fréttamennsku sem byggði á ljúgvitni.

Um sama leyti og dómur siðanefndar féll yfir Helga voru blaðamenn komnir í samband við þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra. Hún glímir við alvarleg andleg veikindi og hefur a.m.k. í þrígang undanfarin ár verið öryggisvistuð á sjúkrastofnun.

Andlega veik kona sem verkfæri

Með andlega veika konu sem verkfæri komust blaðamenn yfir síma Páls skipstjóra. Undanfarinn var byrlun og stuldur. Skipulega var gengið til verks. Samsung-sími, samskonar og skipstjórinn notar, var keyptur af Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks nokkru fyrir byrlunina. Eftir afritun var beðið í tæpar þrjár vikur með birtingu af efni úr síma skipstjórans.

Blaðamennirnir töldu sig hafa öll ráð skipstjórans í hendi sér, enda átti hann að vera grunlaus um að síma hans hafði verið stolið. Andlega veik eiginkona Páls var leiksoppur blaðamanna. Eftir stuld og afritun skilaði veika konan síma Páls skipstjóra á sjúkrabeð hans á Landspítalanum.

Fölsuð gögn

Hefndin var sæt. Úr gögnum stolna símans bjuggu blaðamenn til þá sögu að Páll skipstjóri væri höfuðpaurinn í skæruliðadeild Samherja er herjaði á saklausa blaðamen. Gerendur urðu fórnarlömb eins og hendi væri veifað. Slíkur er máttur fjölmiðla að með endurtekningu verða ósannindi sannleikur. Vinstrimenn í pólitík lögðu sitt pund á vogaskálarnar, tók málstað RSK-miðla á alþingi og í umræðunni á samfélagsmiðlum.

Almenningur vissi ekki betur en að tveir sjálfstæðir fjölmiðlar, Stundin og Kjarninn, sögðu sömu fréttina, sem hlyti þá að vera trúverðug. Almenningur vissi ekki um samræmda aðgerðaáætlun með RÚV sem fréttamiðstöð. Fréttirnar voru hannaðar og samræmdar á Efstaleiti til birtingar á hjáleigunum, Stundinni og Kjarnanum - sem síðar sameinuðust undir merkjum Heimildarinnar. Í umræðunni gleymdist siðadómurinn yfir Helga Seljan - skæruliðadeild Samherja var mál málanna sumarið og haustið 2021.

Blaðamenn töfðu rannsóknina

Páll skipstjóri kærði málið 14. maí 2021, viku áður en fyrstu fréttir birtust. Lögreglurannsóknin vatt upp á sig þegar leið á árið. Í febrúar 2022 fengu fjórir blaðamenn stöðu sakbornings. Þrátt fyrir boðun í yfirheyrslu mættu blaðamennirnir ekki og töfðu rannsóknina um hálft ár. Framan af rannsókn lögreglu var áherslan á hvað blaðamenn gerðu við gögnin úr síma skipstjórans. Um síðustu áramót, 2022/2023, tók rannsóknin nýja stefnu þegar ljóst var að samskipti voru komin á milli þáverandi eiginkonu skipstjórans og blaðamanna nokkru áður en byrlunin fór fram, 3. maí 2021.

Blaðamenn RSK-miðla hafa í þau bráðum tvö ár sem þeir hafa verið sakborningar starfað við að flytja fréttir og frásagnir eins og ekkert hafi í skorist. Helgi Seljan fór af RÚV á Stundina, nú Heimildin, áramótin 2021/2022. Þórður Snær, fyrrum ritstjóri Kjarnans, varð ritstjóri Heimildarinnar. Þar eru fyrir á fleti sakborningarnir Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson og Ingi Freyr Vilhjálmsson, sem fékk stöð grunaðs seinna en hinir. Þóra Arnórsdóttir var í febrúar á árinu sem er að líða selflutt af RÚV, þar sem hún hafði starfað í aldarfjórðung, yfir á Landsvirkjun þar sem hún er upplýsingafulltrúi.

Í stað þess að gera almenningi grein fyrir aðild sinni að byrlunar- og símastuldsmálinu láta blaðamennirnir eins og þeir séu fínir pappírar og standa engum skil á gerðum sínum, hvorki lögreglu né almenningi. Starfsfélagar RSK-blaðamanna á öðrum fjölmiðlum þegja í meðvirkni.

Hefndarhugur blaðamanna

Hefndarhugur blaðamanna er jafn einbeittur og áður. Aðalsteinn Kjartansson skrifaði í jólatölublað Heimildarinnar frétt um Namibíumálið og tiltók réttarstöðu Örnu McClure, lögfræðings. Aftur þagði Aðalsteinn um að Arna er brotaþoli, ásamt Páli skipstjóra, í byrlunar- og símastuldsmálinu. En þar er Aðalsteinn sakborningur. Aðalsteinn ætti að vita manna best hvað hann gerði á hlut Örnu og Páls sem leiddi til þeirrar réttarstöðu að blaðamaðurinn er grunaður um glæp. Blaðamaðurinn þegir um stærri sakir, sínar eigin, en flaggar stöðu Örnu í máli sem öll rök standa til að verði fellt niður.

Heimildin fær árlegan ríkisstyrk upp á tugi milljóna króna. Tilgangur ríkisvaldsins er ekki að grunaðir um glæpi fái niðurgreiðslu í fjölmiðlarekstur til gera fólki miska. Ekki heldur er opinber stuðningur ætlaður til að hylma yfir afbrot fjölmiðla. Reyndin er þó að Heimildarmenn eru á launum frá almenningi við að grafa undan réttarríkinu. Til að bíta höfuðið af skömminni hafa þrír blaðamenn Heimildarinnar, Aðalsteinn þar á meðal, stefnt tilfallandi bloggara fyrir að fjalla um afbrot og siðleysi blaðamanna.

Skildu eftir skilaboð