Spillt stéttvísi blaðamanna: stærsta ósagða frétt ársins

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson4 Comments

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Fréttir um blaðamenn og fjölmiðla eru því marki brenndar að viðfangsefnið fjallar um sig sjálft. Það eru jú blaðamenn sem skrifa fréttir og fjölmiðlar birta. Ef fréttaefnið er blaðamenn eru fjölmiðlar sjálfkrafa vanhæfir. Sjálfstæðir blaðamenn gætu rifið sig frá hjörðinni og fjallað hlutlægt um fréttamál er varða starfsfélaga þeirra.

En það eru engir sjálfstæðir blaðamenn á Íslandi. Starfandi blaðamenn í fréttamennsku hér á landi, þ.e. í föstu starfi á ritstjórn, en ekki lausamenn, eru rúmlega 100. Þeir eru allir núverandi, fyrrverandi eða verðandi starfsfélagar. Maður skrifar ekki fréttir sem koma illa við kollega. Ekki ef maður hefur hug á starfsferli sem blaðamaður.

Kjöraðstæður fyrir spillingu

Hér eru kjöraðstæður fyrir spillingu. Blaðamenn vita að það sem ekki fréttist er ekki-atburður, gerðist ekki í ákveðnum skilningi. Eins og morð sem ekki er tilkynnt og enginn saknar hins myrta. Fámenn stétt vina, kunningja og starfsfélaga ræður að stórum hluta opinberri umræðu á Íslandi og gætir hagsmuna stéttarinnar fyrst og fremst. Stéttin er engu að síður á framfæri ríkissjóðs til að gæta almannahagsmuna. Svikamylla stéttvísra blaðamanna.

Blaðamenn vita um ófremdarástandið innan eigin raða og tala um það sín á milli. En þeir segja ekkert upphátt, láta fréttir ósagðar og þegja þunnu hljóði um mikilsverð málefni. Þar með bregðast þeir frumskyldu sinni. Blaðamenn eiga að upplýsa almenning, segja fréttir sem skipta máli. Ekki taka þátt í samsæri þagnarinnar.

Af sjálfu leiðir, þegar blaðamenn skrifa ekki fréttir um málefni blaðamennskunnar, að lítið er um texta til að vísa í er upplýsir faglega úrkynjun blaðamanna. Þó er ein frásögn, í fagútgáfu Blaðamannafélags Íslands, er varpar ljósi á ástand mála. Aðdragandi þeirrar frásagnar er athyglisverð í meira lagi, en ósagður í fréttum. Sem sagt ekki-atburður.

Réðu danskan almannatengil

Fimm blaðamenn eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þeir bjuggust við ákæru á útmánuðum ársins sem er að líða. Til að undirbúa málsvörnina í opinberri umræðu réðu þeir danskan almannatengil/blaðamann, Lasse Skytt. Hugmynd sakborninga var að fá jákvæða erlenda umfjöllun og flytja hana inn í íslensku umræðuna. Frægðin skyldi koma að utan, um leið og traðkað væri á íslenska réttarríkinu og það sakað um að ganga erinda auðvaldsins.

Skytt fékk birtar tvær málsvarnargreinar íslensku blaðamannanna. Sú fyrri birtist í Aftenposten-Innsikt. Greinin endaði sem stórslys. Ritstjóri Aftenposten baðst afsökunar á allri greininni: ,,Verkferlar hjá okkur brugðust. Grunnatriði blaðamennsku er að ásakanir séu bornar undir þá sem þær beinast að. Það var ekki gert í þessu tilviki." Svona hugsa og skrifa blaðamenn sem hafa metnað fyrir eigin hönd og blaðamennskunnar. Biðjast afsökunar þegar þeim verður á í messunni. Íslenskir blaðamenn ýmist forherðast eða þegja hjárænulega í von um að syndirnar falli í gleymsku og dá. Svikamylla stéttvísra blaðamanna fær frið til að byrla almenningi eitruð ósannindi í bland við þögn um ekki-atburði; skaffar jafnframt rúmlega 100 stéttvísum þægilega innivinnu á ríkistryggðum launum.

Seinni greinin, sem Skytt skrifaði fyrir sakborningana, birtist í fagriti danskra blaðamanna. Kjarni þeirrar greinar er endurbirtur í fagútgáfu Blaðamannafélags Íslands. Fyrirsögnin er afhjúpandi: ,,Landið þar sem blaðamenn hættu að skipta máli."

Misnotuðu andlega veika konu

Blaðamenn sem misnota andlega veika konu, eiga aðild að byrlun og þjófnaði, stunda stafrænt kynferðisofbeldi og brjóta á friðhelgi fólks hætta vitanlega að skipta máli - nema fyrir lögreglu, ákæruvald og dómstóla.

Hver skyldi hafa þýtt og endurbirt grein Lasse Skytt í fagútgáfu Blaðamannafélags Íslands? Jú, hann heitir Auðunn Arnórsson og er bróðir Þóru Arnórsdóttur, fyrrum ritstjóra Kveiks á RÚV, og einn fimm blaðamanna sem eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. En engum dettur í hug að fjalla um spillingu. Ekki ein frétt vakti máls á misnotkun sakborninga á verkalýðsfélagi blaðamenna. Annar ekki-atburður, það sem ekki fréttist gerðist ekki. Stéttvís blaðamennska í framkvæmd.

Stéttvís spilling íslenskra blaðamanna er ósagðasta frétt ársins 2023.

4 Comments on “Spillt stéttvísi blaðamanna: stærsta ósagða frétt ársins”

  1. Its like you read my mind You appear to know a lot about this like you wrote the book in it or something I think that you could do with some pics to drive the message home a little bit but instead of that this is fantastic blog An excellent read I will certainly be back

  2. you are in reality a good webmaster The website loading velocity is amazing It sort of feels that youre doing any distinctive trick Also The contents are masterwork you have done a fantastic job in this topic

  3. you are in reality a good webmaster The website loading velocity is amazing It sort of feels that youre doing any distinctive trick Also The contents are masterwork you have done a fantastic job in this topic

  4. Ive read several just right stuff here Certainly price bookmarking for revisiting I wonder how a lot effort you place to create this kind of great informative website

Skildu eftir skilaboð