Geir Ágústsson skrifar:
Um daginn hlustaði ég á mjög skemmtilegt hlaðvarp þar sem var meðal annars rætt um innsæi hinna ýmsu álitsgjafa og stjórnmálamanna og hvort þetta fólki hitti naglann á höfuðið í fyrstu tilraun eða þurfi að skipta um skoðun síðar. Þannig var Joe Rogan hrósað fyrir að vera hæfilega tortrygginn á meðan Ben Shapiro var gagnrýndur fyrir að byrja yfirleitt á vitlausri nótu en sjá svo að sér seinna.
Þetta fékk mig til að hugleiða dægurmálaumræðuna á Íslandi. Hverjir hafa ítrekað sýnt og sannað að þeir láti ekki skola sér eins og skólpi út í sjó nýjustu þvælunnar, og hverjir eru stoltir meðlimir á sama skólpi?
Það blasir við að Sigríður Andersen er meðal þeirra sem hafa fyrir því að móta sjálfstæða hugsun og taka afstöðu á eigin forsendum (í flestum tilvikum en ekki öllum - hún hefur til að mynda engar áhyggjur af því hvað tekst að gera mörg börn föðurlaus á Íslandi). Af þeim ástæðum lifði hún ekki af íslensk stjórnmál.
Á sínum tíma var Sigmundur Davíð líka duglegur að hugsa út fyrir þrönga girðingu rétthugsunarinnar. Sá hæfileiki dofnaði að vísu töluvert á veirutímum en er mögulega að snúa aftur. Flokksbróðir hans Bergþór Ólafsson sýnir einnig góða takta á köflum.
Dæmi um einstakling sem fellur í allar gildrur er fjölmiðlamaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson og nánast allir hjá Ríkisútvarpi Útvaldra Viðhorfa (RÚV).
Þeir sem hitta kerfisbundið ekki naglann á höfuðið í fyrstu tilraun eiga ekki að njóta trausts. Það geta allir skipt um skoðun þegar öll gögn eru komin á borðið, svo sem eins og í tilviki bólusetninga gegn veiru og svokallaðrar hlýnunar jarðar af mannavöldum, en slíkir sauðir leiða hjörðina á villigötur. Miklu betra er að sækja í forystusauði sem grípa boltann í fyrstu tilraun eða allt að því. Um leið er úrval slíkra sauða mun minna en hinna sem tilheyra skólpinu.
Margir prófsteinar á þá sem vilja kalla sig forystusauði liggja nú fyrir. Fyrir þá sem geta mótað eigin hugsanir liggja í því tækifæri. Kjósendur eru víða farnir að hafna glópunum. Hver ætlar að hrista af sér hræðsluna við blaðamenn og vísindamenn á spena hins opinbera og vera í boði þegar íslenskir kjósendur ranka við sér (mögulega í rafmagnslausum bíl eða á hjartadeild eftir bólusetningu)?
Eða munu íslenskir kjósendur einhvern tímann gera það? Er kannski enginn markaður fyrir raunverulega og hugsandi leiðtoga?
Sjáum hvað setur.